Sálfræðihernaður fyrir dómi – Vottar Jehóva ryðjast inn í salinn

Íslensku konurnar fjórar, hluti stuðningsmannateymis fyrrverandi votta frá fjölda landa …
Íslensku konurnar fjórar, hluti stuðningsmannateymis fyrrverandi votta frá fjölda landa sem mættir eru til að styðja við bakið á vitnum norska ríkisins í rimmu þess við Votta Jehóva í Lögmannsrétti Borgarþings. Frá vinstri: Malín Brand, Rut Ríkey Tryggvadóttir, Fjóla Sigurðardóttir og Eydís Mary Jónsdóttir. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við komum til Noregs til að styðja við þá fyrrverandi votta sem eru að fara að bera vitni fyrir norska ríkið,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir í samtali við mbl.is og hefur með þeim orðum mál fjögurra íslenskra kvenna sem ferðuðust til norsku höfuðborgarinnar Óslóar til að styðja við félaga sína í vitnastúkunni í áfrýjunarmáli trúfélagsins Votta Jehóva í Noregi gegn norska ríkinu.

Greint var frá því hér á mbl.is á laugardaginn að málið hefði hafist fyrir Lögmannsrétti Borgarþings í Ósló sem er einn sex áfrýjunardómstóla Noregs á dómstiginu lögmannsrétti sem er sambærilegt við Landsrétt á Íslandi. Lesa má um hvað málið snýst handan tengilsins hér að ofan.

Konurnar fjórar, þær Eydís, Malín Brand, Rut Ríkey Tryggvadóttir og Fjóla Sigurðardóttir, sem er móðir Eydísar, gerðu sér ferð til Porsgrunn á fund blaðamanns til að ræða réttarhöldin og upplifun sína í dómsalnum, en meðferð málsins hófst á mánudaginn í síðustu viku og stendur út þessa viku.

Eydís og Malín hafa áður rætt við mbl.is og greint frá ofbeldi, kúgun, útskúfun og því sem þær kalla heilaþvott innan trúfélagsins. Rut sætti sem barn ofbeldi og kynferðislegri misnotkun af hálfu öldunga svokallaðra innan Votta Jehóva á Íslandi og hefur greint frá reynslu sinni í viðtölum við aðra íslenska fjölmiðla. Fjóla á sér sögu sem hún er enn að bræða með sér hvort hún vilji stíga fram með, en blaðamaður fékk að heyra þá sögu um helgina.

„Erum hér til að sýna samstöðu“

Þetta viðtal snýr hins vegar að réttarhöldunum sem nú standa yfir í Ósló og mbl.is mun fjalla um næstu daga, en þar hafa félagar trúfélagsins beitt því sem konurnar fjórar kalla sálfræðihernað og felst í því að hópast fyrir framan húsnæði lögmannsréttarins áður en dyr þar eru opnaðar og reyna svo sitt ýtrasta til að leggja undir sig öll áhorfendasæti í þingsalnum og horfa með fyrirlitningarsvip á fjölda vitna sem norska ríkið leiðir fram og greina frá þeirri meðferð sem þau sættu innan trúfélagsins.

Norskir fjölmiðlar hafa fylgst með réttarhöldunum og hér fjallar Dagen …
Norskir fjölmiðlar hafa fylgst með réttarhöldunum og hér fjallar Dagen um fjölþjóðlegt stuðningsmannateymi fyrrverandi votta sem stappar stáli í vitni norska ríkisins gegn trúfélaginu sem fyrir spænskum héraðsdómi var dæmt „eyðileggjandi sértrúarsöfnuður“ árið 2023. Skjáskot/Dagen

„Við erum hér til að sýna samstöðu og styðja þá sem bera vitni,“ segir Malín Brand, en þær stöllur eru hluti stærri hóps útskúfaðra og fyrrverandi votta frá mörgum löndum sem mæta til að stappa stálinu í vitnin sem mörg hver bugast algjörlega í stúku dómsalarins og var svo einnig fyrir Héraðsdómi Óslóar í fyrra svo sem lesa má um í viðtali við Eydísi sem viðstödd var málflutning  þar í janúar í fyrra. Þar brotnaði eitt vitnanna, Noomi Pilot, nánast saman, en náði þó að ljúka vitnisburði sínum.

Malín heldur áfram. „Það er örugglega ekki auðvelt að sitja þarna, innan um allt þetta fólk sem hundsar þann sem er að tala [vitnið],“ og Eydís tekur orðið: „Núna er þetta í þriðja skiptið sem margt þessa fólks er að bera vitni og í fyrsta skiptið höfðu þau í raun engan stuðning í salnum og það var mjög erfið lífsreynsla fyrir þau,“ segir hún.

Þriðji vitnisburðurinn nú skýrist af því að upphaflega höfðuðu Vottar Jehóva tvö mál gegn norska ríkinu eftir að trúfélagið var svipt ríkisstyrkjum sínum, annað þeirra til að krefjast upphæðar sem nemur hátt í milljarði íslenskra króna fyrir þau sóknargjöld sem félagið varð af, en hitt til að krefjast þess að fá á ný skráningu sem trúfélag. Hafa málin tvö nú verið sameinuð til hagræðingar. Skráningu sem trúfélag voru Vottar Jehóva í Noregi sviptir í kjölfar þess er Brennpunkt, rannsóknarfréttaþáttur norska ríkisútvarpsins NRK, fletti ofan af útskúfun og annarri háttsemi innan trúfélagsins í þætti sínum Guðs útvöldu árið 2021.

Þar greindu fréttamenn Brenn­punkt frá þeim skil­yrðum sem Vott­ar Jehóva settu fé­lög­um sín­um, svo sem að ung­menn­um væri þar gert að gera ná­kvæma grein fyr­ir kyn­hegðun sinni fyr­ir öld­ung­um trú­fé­lags­ins, og auk þess bannað að ræða við fyrr­ver­andi votta sem hafði verið út­skúfað, sem áttu sér þá sum­ir hverj­ir mjög tak­markað eða ekk­ert fé­lags­legt bak­land á eft­ir. Var þar jafnvel um börn að ræða.

Dæmdir „eyðileggjandi sértrúarsöfnuður“

Tóku ný lög um trú­fé­lög gildi í Nor­egi árið 2021 og var öll­um trú­fé­lög­um boðið að end­ur­nýja skrán­ingu sína til sam­ræm­is við þau lög. Vott­ar Jehóva upp­fylla hins veg­ar ekki þau skil­yrði sem þarf til að vera skráð trú­fé­lag í Nor­egi í ljósi nýju lag­anna.

„Við vorum sjö sem komum frá nokkrum löndum í fyrra til að vitnin sæju einhver vinaleg andlit í salnum. Það kom vel út og þau sem við höfum talað við eftir á voru mjög þakklát fyrir stuðninginn. Við ákváðum því að gera þetta aftur núna og er stuðningsmannahópurinn stærri í þetta skiptið, sú sem kemur lengst að kemur frá Nýja-Sjálandi,“ heldur Eydís áfram. Einnig komi fyrrverandi vottar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Belgíu, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi og Mexíkó.

Mikil örtröð hefur verið hvern morgun í Lögmannsrétti Borgarþings og …
Mikil örtröð hefur verið hvern morgun í Lögmannsrétti Borgarþings og hafa tveir hliðarsalir, auk dómsalarins, verið fullir af áhorfendum sem fylgjast með réttarhöldunum á skjá. Ljósmynd/Aðsend

Sjálf hefur hún nýverið sótt ráðstefnu í Barselóna hjá samtökunum International Cultic Studies Association sem fjalla um sértrúarsöfnuði og áhrif þeirra, en á Spáni starfa raunar Samtök fórnarlamba Votta Jehóva, Asociación Española de Víctimas de los Testigos de Jehová, sem trúfélagið þar í landi saksótti á sínum tíma.

Dóm­ari í Madrid hafnaði í desember 2023 bótakröfu Votta Jehóva á hend­ur fórnarlambasamtökunum, en trú­fé­lagið krafðist bóta úr hendi sam­tak­anna auk þess að þeim yrði bannað að kalla sig fórn­ar­lömb og að tala um Votta Jehóva sem sér­trú­ar­söfnuð þar sem orðanotk­un­in væri meiðandi í garð trú­fé­lags­ins.

Voru fórn­ar­lamba­sam­tök­in sýknuð af kröf­um trú­fé­lags­ins, meðal ann­ars með þeim rök­stuðningi Raqu­el Chacon dóm­ara að Vott­ar Jehóva teld­ust „secta destructi­va“ eða „eyðileggj­andi sér­trú­ar­söfnuður“.

Hlupu upp tröppurnar

Segðu mér örlítið frá þeirri háttsemi fulltrúa vottanna núna í Ósló að sölsa undir sig allan dómsalinn?

„Í fyrradag þurfti að opna tvö aukaherbergi þar sem áhorfendur, sem komust ekki inn í dómsalinn, þurftu að sitja og fylgjast með,“ svarar Eydís og kveður hörkuna hafa verið mun meiri nú en í héraðsdómi í fyrra þar sem þó þurfti að opna eitt slíkt herbergi.

„Dómhúsið opnar klukkan átta á morgnana og fyrir þann tíma var stór hópur votta kominn fyrir framan aðaldyrnar. Þegar þar var opnað fór allt eldra fólkið í lyfturnar, en svo voru einnig hlauparar sem hlupu upp stigann og hópuðust fyrir framan dómsalinn þar og stóðu þétt við í hálftíma þar til hann var opnaður. Þá tróð hópurinn sér bara inn,“ segir Eydís og hinir viðmælendurnir þrír kinka kolli til áherslu.

„Það var ljóst að þeir ætluðu sér að ná öllum sætunum. Á föstudaginn stóðu til dæmis tuttugu vottar við dyr salarins og sætin þar inni eru ekkert mikið fleiri en það, þetta er ekki stór salur,“ lýsir hún og sammælast konurnar fjórar um að vottarnir skeri sig úr í klæðnaði, þeir séu spariklæddir eins og á samkomum félagsins.

Bolurinn „Útskúfun drepur“

„Svo gæta þeir þess algjörlega að horfa ekki á okkur og tala ekki við okkur,“ segir Eydís og Fjóla móðir hennar og Rut taka undir. „Það er ekkert samtal,“ segir Fjóla. Eins forðist vottarnir að snerta fólk úr stuðningsmannahópnum sem kom þó ekki í veg fyrir að Fjólu var ýtt harkalega til við atganginn að komast inn í salinn í gær, mánudag, Eydís deildi þeim upplýsingum með blaðamanni í dag. „Þetta var hálfgert moshpit,“ sagði Eydís og vísaði í afmarkað svæði hörðustu aðdáenda þungarokksveita á tónleikum.

´Mæðgurnar Fjóla og Eydís í dómshúsinu í gær, mánudag.
´Mæðgurnar Fjóla og Eydís í dómshúsinu í gær, mánudag. Ljósmynd/Aðsend

En hvernig upplifið þið atferli vitnanna þegar þau sjá að þau hafa stuðning í salnum, sjáið þið á þeim að þeim er léttara?

„Já, ég tók eftir því,“ segir Malín, „sérstaklega í gær [föstudag]. Þá sneri eitt vitnið sér við og ég blikkaði hana. Hún sá strax að ég var í bol áletruðum „Shunning kills“ [Útskúfun drepur] með mynd af varðturni og þá vissi hún í hvoru liðinu ég var,“ segir hún.

„Við náðum líka eiginlega allri öftustu röðinni á föstudaginn,“ tekur Eydís við, „og svo vorum við þrjár fremst næst dyrunum svo við vorum í raun fyrsta fólkið sem vitnin sáu og þannig vildum við hafa það, því augnaráðið frá vottunum er rosalegt þegar þeir horfa á vitnin.“

Kveðst Eydís hafa kannast við fjölda votta úr héraðsdómi í fyrra. „Fólk sem kallast umdæmishirðar eru með ákveðin svæði og fara á milli safnaða. Þeir eiga að sjá til þess að öldungarnir sinni sínu starfi og þarna voru margir þeirra og konurnar þeirra. Þetta eru einstaklingar sem allir í söfnuðinum þekkja og vitnin vita klárlega hverjir eru,“ segir hún og getur þess aðspurð að þarna hafi eftir því sem hún best hafi fengið staðfest aðeins verið um norska votta að ræða.

„Eftir því sem við höfum heyrt eru þeir vottar sem mæta í dómsalinn sérvaldir og sendir af stjórnendum félagsins,“ segir votturinn fyrrverandi enn fremur, „þetta eru ekki almennir vottar. Við fréttum líka að öldungarnir hefðu fengið þau skilaboð að ekki mætti ræða dómsmálið og almennt virðast vottar í Noregi ekki vita um hvað dómsmálið snýst.“

Vottar Jehóva mæta norska ríkinu með her lögfræðinga en fyrir þeim fer, eins og mbl.is greindi frá á laugardaginn, Anders Christian Stray Ryssdal frá lögmannsstofunni Glittertind. „Ég held að hann taki 600 evrur [88.000 íslenskar krónur] á tímann, en svo eru þarna líka lögmenn sem eru vottar og koma frá höfuðstöðvum Votta Jehóva í Bandaríkjunum,“ segir Eydís.

Greint verður nánar frá áfrýjunarmáli Votta Jehóva í Noregi hér á mbl.is næstu daga, en aðalmeðferð fyrir Lögmannsrétti Borgarþings lýkur á föstudag og hefur dómstóllinn þá allt að sex vikur til að kveða upp dóm sinn. Norska ríkið var sýknað af öllum kröfum trúfélagsins fyrir Héraðsdómi Óslóar í mars í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert