„Þetta eru með stærstu málum sem hafa komið upp hvað magn haldlagðs efnis snertir, annað upp á þrjú kílógrömm og hitt tæp sex,“ segir Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið í dag um tvö stór fíkniefnamál sem nú hafa bæði verið þingfest fyrir héraðsdómi.
Agnes er spurð sérstaklega út í kristalmetamfetamín og vísa tölurnar hér að framan til magns þess efnis, en í öðru málinu var enn fremur um fleiri efni að ræða sem fundust í skrifstofuhúsnæði í Bæjarlind í Kópavogi. Í stærra málinu, sem snýst um 5,7 kílógrömm af efninu, fannst amfetamínið í bifreið sem flutt var til landsins í október.
Agnes, sem innan skamms tekur við stöðu Gríms Grímssonar fyrrverandi yfirlögregluþjóns, er nú hefur tekið sæti á þingi, mun stýra rannsóknarsviðinu og þar með hafa yfirumsjón með rannsókn og meðferð lögreglu innan málaflokkanna fíkniefna, ofbeldis, mansals, vændis, kynferðisbrota og fjármunabrota.
„Árin á undan hafa þetta verið mun smærri einingar sem haldlagðar hafa verið af þessu efni og þá komum við að því hvort þarna séu að verða einhverjar breytingar, til dæmis á markaði, þetta er allt síbreytilegt,“ svarar yfirlögregluþjónninn spurningu um hvort lögreglan merki einhvers konar breytingu á þessum vettvangi, svo sem á neyslumynstri fíkniefnaneytenda á Íslandi.
Er ástæða til að ætla að hér muni hefjast framleiðsla á kristalmetamfetamíni eins og verið hefur með hefðbundið amfetamín?
„Auðvitað má ætla að verið sé að framleiða efni hérna heima, við megum alltaf búast við því,“ svarar Agnes, en slær um leið þann varnagla að hún ætli sér ekki að kveða upp úr með hvort efnið sem hér er til umræðu, kristalmetamfetamín, sé framleitt á landinu enn sem komið er.
„Það sem mér finnst óhugnanlegast í þessu eru öll þessi ópíóðalyf,“ segir yfirlögregluþjónninn hiklaust, „þetta er steypt í töflur sem fólk kannski heldur að hafi verið framleiddar á forsvaranlegan hátt í einhverri lyfjaverksmiðju sem er bara alls ekki raunin og það er hrikalegt, allt sem heitir fentanýl eða nitazen eða hvað það er, þetta hræðir mig mest,“ segir hún.
Í skýrslu Vímuefnamiðstöðvar Evrópusambandsins (EUDA) frá því í fyrra er fjallað um sjö nýja ópíóða sem fundust í Evrópulöndum árið á undan, 2023, alla framleidda á tilraunastofum. Sex af þeim voru nitazen-ópíóðar.
Þessir tilbúnu ópíóðar eru mun sterkari en náttúrulegri ópíóðar og því meiri hætta á öndunarstoppi og dauðsföllum af notkun þeirra. Ópíóðar sem framleiddir eru á stofum eru samkvæmt EUDA taldir eiga þátt í auknum fjölda vímuefnatengdra dauðsfalla í Evrópu.
Nefnir Agnes sérstaklega íblöndun efna, sem henni hrjósi hugur við, þegar neytendur vita ekki hvað þeir í raun eru að nota. „Hvað er verið að setja í hvað og af hverju veit fólk ekki og það í sjálfu sér er gríðarlega hættulegt. Sumir hafa bara ekkert val um hvað þeir kaupa, það er ákveðinn hópur sem tekur hvað sem er, þetta er í boði og gjörðu svo vel.
Í efri lögunum er ákveðinn hópur sem ætlar sér bara að hagnast,“ segir hún og nefnir bakmennina svokölluðu, þá sem fjármagna innflutning og skipuleggja hann að baki tjaldanna – mjög langt að baki þeirra.
Agnes á orðið að baki 33 ár í lögreglunni. Sá tími teldist langur á flestum vinnustöðum, en lögreglustörfin taka á, eru krefjandi og sýna þeim sem á vettvanginum starfa myrkustu hliðar mannlegs lífs. Um það vitnar fjöldi viðtala við lögreglu í velflestum fjölmiðlum landsins.
„Ég verð að játa að ég hugsa stundum til þeirra tíma þegar þessi ógeðslega harka var ekki í fíkniefnaheiminum,“ segir yfirlögregluþjónninn, „það var vissulega neysla en sá heimur var ekki svona hrikalega „brútal“ eins og í dag,“ heldur hún áfram og þau blaðamaður sammælast um að í undirheimum Íslands hafi örlað á einhvers konar óskrifuðum siðareglum fyrir mörgum áratugum – í árdaga neyslu harðra fíkniefna í íslensku næturlífi.
„Það var þannig, þó að þetta væri samt mjög ljótt,“ segir Agnes.
Er það þín tilfinning að fíkniefnaheimurinn og neyslan á Íslandi fari versnandi, að þetta sé enn að aukast, til dæmis magn og fjöldi fólks í neyslu?
„Já,“ svarar Agnes, „ég tel neyslutengd heilbrigðisvandamál vera miklu þyngri nú orðið en áður. Neyslutengd vandamál, sem koma inn í heilbrigðiskerfið, og bara þvert á kerfin, eru miklu þyngri en fyrir tíu, fimmtán, tuttugu árum, þau eru stórkostlega miklu erfiðari. Harðari neysla og allt sem því fylgir, það er bara þannig,“ segir Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að lokum um íslenska undirheima, efnin, þróunina og ljótleikann.