„Ég er algjörlega sammála Agnesi Eide Kristínardóttur yfirlögregluþjóni um þá ógeðslegu hörku sem hlaupin er í íslenskan fíkniefnaheim,“ segir Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, er mbl.is innir hann álits á stöðu íslenskrar löggæslu, ekki síst tollgæslunnar, í kjölfar ummæla yfirlögregluþjónsins hér á vefnum á þriðjudaginn.
Agnes ræddi þá nýlega þingfest refsimál vegna fíkniefnainnflutnings þar sem kristalmetamfetamín svokallað var áberandi, en í öðru málanna er ákært fyrir innflutning tæplega sex kílógramma af efninu sem er stærsta mál sem upp hefur komið á landinu þegar þetta afbrigði amfetamíns er annars vegar.
Enn fremur ræddi yfirlögregluþjónninn innflutning ópíóðalyfja sem undanfarin misseri hafa farið sem faraldur um Vesturlönd og var Agnes ómyrk í máli þegar hún kvað málaflokkinn óhugnanlegan. „Þetta er steypt í töflur sem fólk kannski heldur að hafi verið framleiddar á forsvaranlegan hátt í einhverri lyfjaverksmiðju sem er bara alls ekki raunin og það er hrikalegt,“ sagði Agnes.
Bendir Guðbjörn á að þótt yfirlögregluþjónninn ræði málið út frá sjónarhóli lögreglunnar megi ekki gleyma annarri löggæslustétt í landinu, tollvörðum, útvörðum Íslands gagnvart þeim ógnum er frá umheiminum steðja og í langflestum tilfellum þeirri starfsstétt landsins sem fyrst kemur með einhverjum hætti að innfluttum varningi.
„Þarna er hvort tveggja um vöruinnflutning að ræða og þann farangur sem erlendir ferðamenn og íslenskir ferðalangar á leið heim úr ferðalögum hafa með sér,“ segir Guðbjörn og bendir á að þótt sú hlið, sem meginþorri almennings sér á tollgæslunni, tengist tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem leita að fíkniefnum og athuga hvort „skammturinn“ af áfengi og tóbaki sé innan lögregla marka, séu verkefni tollgæslu hvort tveggja fleiri og fjölþættari.
„Ég efast um að margir þekki til dæmis nákvæmlega reglur um matvæli sem ferðamenn hafa leyfi til að flytja með sér til landsins, á Evrópska efnahagssvæðinu gilda reglur um magn þeirra læknislyfja sem ferðamenn mega hafa með sér og eins megi ekki gleyma því að lyf, svo sem sterk verkja- eða svefnlyf, sem lögleg eru í einu ríki séu það langt í frá alls staðar.
Fölsuð lyf krefjist einnig þekkingar og árvekni tollgæslu segir formaðurinn og vísar til orða Agnesar yfirlögregluþjóns um töflurnar sem margir telji framleiðslu löglegra fyrirtækja í lyfjaiðnaði, en oftar en ekki reynist bílskúrsframleiðsla sem steypt er í töflur og pakkað í sannfærandi álþynnur áður en þær eru seldar á svörtum markaði.
„Tollgæslan hefur náð metárangri í baráttunni við peningaþvott og haldlagt stórar upphæðir í reiðufé á Keflavíkurflugvelli þar sem samstarf við Úlfar [Lúðvíksson] lögreglustjóra [á Suðurnesjum] og hans fólk hefur verið frábært,“ segir Guðbjörn og nefnir fleiri mál, þar á meðal nýleg stór fíkniefnamál þar sem komið hefur til kasta tollgæslu.
„Eins er stór hluti þeirra flóttamanna, sem vísað er frá landinu, fyrst stöðvaður í tolli og þeim svo vísað á brott ef svo ber undir. Þar hafa tollgæsla og lögregla átt sér frábært samstarf sem ég verð að minnast hér á,“ segir Guðbjörn og tiltekur í framhaldinu fjölda annarra mála hjá tollgæslu sem ekki séu þó öll stór í sniðum.
„Þar nefni ég til dæmis leit í pósti sem berst til landsins. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli er með besta árangur á Norðurlöndunum og nú er ég ekki að tala um miðað við höfðatölu eins og alltaf er gert, heldur hreinlega í magni haldlagðra fíkniefna.
Ég fékk spurningar frá nágrannalöndunum á fundum Tollvarðafélagsins með formönnum á Norðurlöndunum um hvernig við förum að þessu og svarið við þeim er ekki flókið, það er einfaldlega frábær mannskapur, skipulag og dugnaður fólks sem hefur hlotið menntun í tollgæslufræðum og kann sitt fag,“ segir formaðurinn og nefnir einnig nýlegan dóm fyrir smygl á sígarettum sem sé glöggt dæmi um þróunina annars staðar í Evrópu þar sem ógnarstórar sendingar í gámum eða sendibifreiðum séu aðferðafræðin og sektirnar þungar eftir því.
„Ég er eiginlega bara ofboðslega stoltur, nánast montinn, af þessum frábæra árangri tollgæslunnar á síðustu árum,“ segir formaður Tollvarðafélags Íslands, en félagið er raunar með elstu starfandi stéttarfélögum íslenskum, stofnað 8. desember 1935 er þrettán tollverðir komu saman með það fyrir augum að ýta úr vör stéttarfélagi til að gæta hagsmuna fámennrar stéttar sem í raun var nánast nýkomin fram, en fyrstu íslensku tollverðirnir voru ráðnir til starfa í Reykjavík árið 1921 og voru þeir tveir.
Fyrsta konan sem ráðin var sem tollfreyja, eins og það hét í fyrndinni, var Björg Valtýsdóttir heitin sem fastráðin var til tollgæslu á Keflavíkurflugvelli árið 1972.
Gegndi Felix Jónsson fyrstur formennsku Tollvarðafélags Íslands, en honum til fulltingis í fyrstu stjórn félagsins árið 1935 sátu þeir Grímur Bjarnason ritari og Haraldur S. Norðdahl féhirðir.
Spurður út í hlut kvenna í stéttinni nú til dags, á 90 ára afmælisári stéttarfélagsins, játar Guðbjörn að þeim hafi fækkað tilfinnanlega og séu komnar undir fimmtung félagsmanna. „Þær voru tæpur þriðjungur fyrir nokkrum árum og á þessu ætlum við í félaginu okkur að vekja athygli,“ segir Guðbjörn sem einnig vill fjölga tollvörðum í landinu.
„Þeim þyrfti að fjölga um tíu til fimmtán að minnsta kosti og það strax. Félaginu er kunnugt um að úrbætur á þessum vettvangi standi fyrir dyrum,“ heldur hann áfram og vill einnig bæta úr starfsaðstöðu tollvarða á Keflavíkurflugvelli. „Sú aðstaða er auðvitað algjörlega óviðunandi og hana þarf að stækka til muna og breyta, við verðum að líta til þess að farþegafjöldi sem fer um völlinn hefur margfaldast á tiltölulega skömmum tíma,“ segir Guðbjörn.
Þá sé tækjabúnaður tollgæslu að sumu leyti úreltur eða á leið þangað og hann þurfi að endurnýja eins og öll vinnutæki almennt. „Okkar búnaður þarf líka að vera í samræmi við nútímatæknina í atvinnugreininni,“ tekur Guðbjörn fram.
Hvað með sameiningu tollstjóra og skattstjóra undir merkjum Skattsins, hvernig þykir þér sú sambúð hafa gengið? Þetta gerðu Danir á sínum tíma á meðan Norðmenn og Svíar hafa haldið toll- og skattembættum aðskildum.
„Mér finnst hún hafa gengið alveg frábærlega,“ svarar Guðbjörn, „málaflokkarnir eru skyldir þótt á þeim sé ákveðinn grundvallarmunur, báðir þessir aðilar hafa auðvitað sinnt álagningu og innheimtu gjalda, annars vegar skatta og hins vegar tolla og annarra aðflutningsgjalda. Tollgæslan er nú staðsett í glæsilegri aðstöðu í Katrínartúni sem sannarlega er stórt skref upp á við frá eldri starfsstöðvum tollsins,“ heldur hann áfram og nefnir Tollhúsið gamla við Tryggvagötuna sem formlega var tekið í notkun í mars 1971, en einnig aðstöðuna sem var í Klettagörðum.
Kveðst Guðbjörn ánægður með yfirmenn Skattsins sem sýni tollgæslunni mikinn áhuga. „Fjármálaráðuneytið gæti hins vegar, að mati stjórnar Tollvarðafélagsins, sýnt tollgæslumálum meiri áhuga þótt það hafi vissulega batnað að undanförnu,“ segir hann og tiltekur sérstaklega að tollverðir búi við rýrnandi kjör miðað við samanburðarstéttir.
Þeir hafi verið samningslausir síðan samningar tókust ekki í fyrravor og verkfallsrétt hafi þeir ekki frekar en lögreglan og fangaverði eðlis starfanna vegna.
„Neyðarúrræði félagsins var að leggja launalið samningsins fyrir gerðardóm og við meðferð málsins ýjaði ríkið að því að við ættum inni þriggja til sjö prósenta launahækkun ofan á þau rúmlega þrjú prósent sem, allir aðrir fengu. Þarna var í raun viðurkennt við við hefðum dregist aftur úr um að minnsta kosti þrjú prósent,“ segir Guðbjörn. Á það hafi gerðardómur ekki fallist.
„Hann viðurkenndi þetta ekki og gerðardómur er rúinn trausti Tollvarðafélagsins,“ segir formaðurinn hvass og segir að vitni séu að framburði fulltrúa ríkisins fyrir gerðardómi auk þess sem þau liggi fyrir í fundargerð dómsins. Hafi félagið því ákveðið að fara í ógildingarferli á gerðardómi fyrir héraðsdómi og sé það í fyrsta sinn sem slíkt sé gert hér á landi. Það mál verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vor.
Viðmælandinn kveðst þó bjartsýnn á lausn kjaradeilunnar, hún verði einfaldlega að nást.
„Það er einfaldlega mikilvægt fyrir samfélagið að tollverðir og lögregla standi vaktina á landamærum, ekki síst þegar litið er til þróunar mála á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, mansals og ólöglegra innflytjenda,“ segir Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, að lokum og segir félagið hljóta að hafa alla þjóðina á sínu bandi.
„Íslendingar vilja traust landamæri til að tryggja innra öryggi landsins.“