Matvælastofnun hefur sektað rekstraraðila sláturhúss í Suðvesturumdæmi um 66 þúsund krónur fyrir að hafa skilið 8 grísi eftir yfir nótt í flutningabíl. Voru grísirnir yfir nótt án fóðurs og vatns, sem felur í sér brot á lögum og reglugerðum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST um stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar í janúar 2025 vegna eftirlits með dýravelferð og matvælaframleiðslu.
Fluttir voru 100 sláturgrísir í umrætt sláturhús og áttu þeir að dvelja í sláturrétt yfir nótt og vera slátrað morguninn eftir. Þegar í sláturréttina kom reyndist aðeins vera pláss fyrir 92 grísi í réttinni.
Því voru 8 grísir skildir eftir í flutningabílnum án fóðurs og vatns yfir nóttina áður en þeim var slátrað. Brýtur það í bága við lög og reglugerðir um dýravelferð.
Í tilkynningunni segir einnig að MAST hafi lagt sekt á umráðamann nautgripa í Norðausturumdæmi sem tryggði ekki nautgripum beit á grónu landi í átta vikur að sumarlagi í fyrra. Var hann sektaður um 448 þúsund krónur.
Þá grípur MAST til þess að leggja dagsektir að upphæð 20 þúsund krónur á bónda í Suðvesturumdæmi vegna óviðunandi velferðar dýra á bænum.
Hefur stofnunin einnig ráðið bústjóra tímabundið á bæ í Norðausturumdæmi vegna þess að þar á bæ er dýravelferð verulega áfátt. Er bústjóranum falið það verkefni að bæta aðbúnað nautgripa og dýravelferð á bænum á kostnað umráðamanns.
Í Suðvesturumdæmi hefur MAST einnig svipt eiganda kattar umráðum vegna óviðunandi meðferðar á dýrinu.
Þá er tilgreindur aðili sem hélt nautgripi til kjötframleiðslu. Sótti hann um starfsleyfi en fékk synjun þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði sem tilgreind eru í reglugerð. Var starfsemin stöðvuð en ekki kemur fram í hvaða umdæmi téð kjötframleiðsla er.