Færeyingurinn Osmund Joensen kom fyrst til Íslands þegar hann var 18 ára sumarið 1945 og á góðar minningar frá þeim tíma. Hann vissi fyrst á nýliðnu hausti að hann hefði eignast dóttur með íslenskri konu fyrir 78 árum. Feðginin hittust í kjölfarið, eins og greint var frá á þessum stað í Morgunblaðinu í liðinni viku.
„Það var gaman, ég átti allt í einu stóra familíu á Íslandi og allir í familíunni minni hérna voru ánægðir með það,“ segir Osmund, sem gekk undir nafninu Ásmundur á Íslandi og var kallaður Ási.
„Það var merkilegt og gott að heyra,“ segir Ási um tíðindin og fyrsta fund þeirra Bjarkar Straumfjörð Ingólfsdóttur í fyrrahaust. „Það komu tár og öll familían tók vel á móti Björk. Hún stoppaði stutt en ætlar að koma aftur seinna. Þetta er sólskinssaga, segir hún.“ Þegar hann fór frá Íslandi 1945 vissi hann ekki að vinkona sín væri barnshafandi og reyndi lengi að hafa uppi á henni eftir það án árangurs. Hún lét sig hverfa og hafði aldrei samband.
Ási er frá Sandavogi, skammt frá Vogaflugvelli. „Það var ekki mikið að gera hérna í Færeyjum, svo að við vorum sjö strákar sem fórum með skútu til Íslands til að vinna í sveit. Íslendingar vildu hafa Færeyinga að vinna í sveitinni, það var ódýrara en að hafa Íslendinga, og ég kom á gamalt prestssetur, Arnarbæli í Ölfusi. Hjörleifur Pálsson var bóndi þar. Það var góður tími en mikil vinna.“
Færeyskur umboðsmaður skipti strákunum niður á nokkra bæi á Suður- og Vesturlandi, þar sem þeir voru í fimm mánuði.
„Þessi stúlka var hjá Óskari í Króki, nálægt þar sem ég var,“ rifjar Ási upp. Þau kynntust í heyskap. „Ég sá hana bara einu sinni aftur og það var í Reykjavík. Ég heyrði aldrei frá henni aftur og fann hana aldrei aftur.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 15. febrúar.