„Í verstu stöðu sem við höfum verið“

Staðan í málefnum barna með fjölþættan vanda hefur aldrei verið …
Staðan í málefnum barna með fjölþættan vanda hefur aldrei verið verri að sögn forstjóra Barna- og fjölskyldustofu. Samsett mynd

For­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu seg­ir stöðuna aldrei hafa verið jafn slæma í mál­efn­um barna með fjölþætt­an vanda. Ástandið hafi farið stig­versn­andi síðustu ár. Ýmis áföll eins og mygla í hús­næði og bruni á Stuðlum í októ­ber síðastliðnum hafi sett strik í reikn­ing­inn. Þá hafi vist­un barna sem afplána dóma áhrif á úrræði fyr­ir aðra skjól­stæðinga. 

Umboðsmaður barna hef­ur lýst yfir neyðarástandi í mála­flokkn­um og í bréfi sem sent var fyrr­ver­andi mennta- og barna­málaráðherra í nóv­em­ber síðastliðnum kom fram að aukið fjár­magn hefði ekki skilað þeim ár­angri að bæta úr vand­an­um. Úrræðum hefði fækkað og þjón­usta verið skert.

Í bréfi til nýs ráðherra í byrj­un fe­brú­ar ít­rek­ar umboðsmaður gagn­rýni sína og seg­ir þau meðferðarúr­ræði sem ríkið beri ábyrgð á ekki standa und­ir hlut­verki sínu. „Meðferðar­kerfið sé því ófært um að sinna þeirri þjón­ustuþörf sem því er ætlað að sinna í þágu þessa viðkvæma hóps.“

Meðferðar­heim­ili sem til stóð að byggja er enn á teikni­borðinu, loka varð öðru heim­ili eft­ir að mygla kom þar upp, það þriðja eyðilagðist að hluta í bruna þar sem barn lést, hús­næðið und­ir það fjórða er ekki hægt að nýta því það upp­fyll­ir ekki kröf­ur um bruna­varn­ir.

Á meðan bíða börn með al­var­leg­an fíkni- og hegðun­ar­vanda eft­ir viðeig­andi úrræðum og eru ein­hver þeirra jafn­vel á göt­unni. Þetta er staðan sem blas­ir við þegar kem­ur að mál­efn­um barna með fjölþætt­an vanda og eru þá ekki upp­tal­in vand­ræði með viðeig­andi hús­næðis­kost fyr­ir nauðsyn­leg úrræði. 

Áfram vistað í Flata­hrauni þó það sé óboðlegt

Eins og mbl.is greindi fyrst frá í októ­ber síðastliðnum og fjallaði aft­ur um í síðustu viku eru börn nú neyðar­vistuð á lög­reglu­stöðunni í Flata­hrauni í Hafnar­f­irði, þrátt fyr­ir að aðstaðan þar sé óboðleg börn­um að mati umboðsmanns barna. Bæði for­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu og mennta- og barna­málaráðherra hafa tekið und­ir þau sjón­ar­mið.

Að sögn þeirra beggja er um neyðarráðstöf­un að ræða, þar sem álm­an sem hýsti neyðar­vist­un á Stuðlum gjör­eyðilagðist í brun­an­um í októ­ber.

Rými fyr­ir neyðar­vist­un var stúkað af inni á meðferðardeild­inni, en það hent­ar ekki erfiðustu til­fell­un­um. Gert er ráð fyr­ir að rúmt ár taki að end­ur­byggja álmu fyr­ir neyðar­vist­un á Stuðlum, og eina hús­næðið sem virðist í boði á meðan er lög­reglu­stöðin í Flata­hrauni.

Fyr­ir brun­ann í októ­ber var einnig í boði hefðbundið meðferðarúr­ræði á Stuðlum fyr­ir börn með fjölþætt­an vanda, en nú eru þar vistuð börn sem afplána dóma og sæta gæslu­v­arðhaldi. Þá eru Stuðlar að ein­hverju leyti nýtt­ir sem lang­tíma­úr­ræði fyr­ir það sem kallað er þyngstu til­fell­in.

Ennþá óvissa með meðferðar­heim­ili 

Opna átti nýtt meðferðar­heim­ili í Blöndu­hlíð í Far­sæld­ar­túni í Mos­fells­bæ í des­em­ber síðastliðnum og færa átti starf­sem­ina sem var á Stuðlum þangað. Heim­ilið hef­ur hins veg­ar enn ekki verið opnað og nú er óvíst hvort nokkuð meðferðar­heim­ili verði í Blöndu­hlíð.

Til að hús­næðið upp­fylli kröf­ur um bruna­varn­ir þarf að ráðast í um­fangs­mikl­ar og kostnaðarsam­ar end­ur­bæt­ur.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fyrr­ver­andi barna- og mennta­málaráðherra, þótt­ist reynd­ar opna meðferðar­heim­ilið fjór­um dög­um fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar og bauð fjöl­miðlum að vera viðstadd­ir. Þá átti bruna­út­tekt eft­ir að fara fram og heim­ilið hafði ekk­ert starfs­leyfi og hef­ur enn ekki fengið.

Barna- og fjöl­skyldu­stofa hef­ur því tekið á leigu hús­næði á Vogi und­ir starf­semi meðferðar­heim­il­is, sem opnað var í síðustu viku. Þá hafði hefðbund­in meðferð fyr­ir börn með fjölþætt­an vanda ekki verið í boði frá því í októ­ber síðastliðnum.

Leigu­samn­ing­ur­inn á Vogi er tíma­bund­inn til ára­móta en óvíst er hvert starf­sem­in flyst eft­ir það. Á meðan greiðir Barna- og fjöl­skyldu­stofa 1,8 millj­ón­ir króna á mánuði í leigu fyr­ir hús­næðið á Vogi og 750 þúsund krón­ur á mánuði fyr­ir Blöndu­hlíð.

Þá varð að loka lang­tímameðferðarúr­ræði fyr­ir drengi á Lækj­ar­bakka á Suður­landi fyr­ir tæpu ári, þegar í ljós kom mygla í hús­næðinu. Búið er að út­vega hús­næði und­ir starf­sem­ina í Gunn­ars­holti, en þar á eft­ir að ráðast í tölu­verðar fram­kvæmd­ir áður en starfs­leyfi fæst. Ekk­ert lang­tíma­úr­ræði hef­ur verið í boði fyr­ir drengi frá því Lækj­ar­bakka var lokað, fyr­ir utan erfiðustu til­fell­in, sem hafa fengið inni á Stuðlum.

Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, þóttist opna meðferðarheimilið …
Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fyrr­ver­andi barna- og mennta­málaráðherra, þótt­ist opna meðferðar­heim­ilið í Blöndu­hlíð fjór­um dög­um fyr­ir kosn­ing­ar. Þá hafði bruna­út­tekt ekki farið fram. Með hon­um á mynd­inni eru Ólöf Ásta og Funi Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri meðferðarsviðs Barna- og fjöl­skyldu­stofu. mbl.is/​Karítas

Börn í afplán­un teppi meðferðardeild­ina

Ólöf Ásta Farest­veit, for­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu, seg­ir hús­næðið í Blöndu­hlíð hafa verið hugsað sem bráðabirgðalausn fyr­ir meðferðar­heim­ili, þar sem til hafi staðið að byggja nýtt meðferðar­heim­ili frá grunni í Garðabæ fyr­ir börn með fjölþætt­an vanda. Vilja­yf­ir­lýs­ing vegna verk­efn­is­ins var und­ir­rituð af ráðherra og bæj­ar­stjóra Garðabæj­ar árið 2018, en ekk­ert ból­ar á heim­il­inu.

Hún seg­ir þá erfiðu stöðu sem upp er kom­in núna að ein­hverju leyti mega rekja til þess að nýta þurfi Stuðla und­ir gæslu­v­arðhald og afplán­un.

„Vand­inn í grunn­inn kem­ur vegna þess að við erum að fá skjól­stæðinga­hóp sem við höf­um ekki haft áður, börn sem eru að afplána dóma. Það er nýr veru­leiki fyr­ir okk­ur og þau börn eru að teppa meðferðardeild Stuðla,“ seg­ir Ólöf.

„Þá urðum við líka, til að geta aðgreint hópa sem eru komn­ir mis­langt, ann­ars veg­ar mis­langt í neyslu eða vanda, að hafa þyngri skjól­stæðinga­hópa á ein­um stað, og ann­an skjól­stæðinga­hóp sem er kannski kom­inn skem­ur, í grein­ingu og meðferð ann­ars staðar.“

Fjár­magnið er til en heim­ilið enn ekki risið

Hún seg­ir hafa staðið til að yngri börn og þau sem væru ekki í mik­illi neyslu færu í Blöndu­hlíð.

„Við fáum þetta hús­næði því það á að byggja meðferðar­heim­ili, sem hef­ur verið á teikni­borðinu lengi. Það á að fara að byggja slíkt heim­ili og það er komið eitt­hvað af stað, en það hef­ur dreg­ist í mörg ár. Það er vand­inn,“ seg­ir Ólöf og vís­ar þar til meðferðar­heim­il­is­ins sem rísa átti í Garðabæ.

Fjár­magnið er til staðar, að minnsta kosti að hluta til, að sögn Ólaf­ar. Því hafi verið haldið til hliðar þó að fram­kvæmd­ir við heim­ilið hafi taf­ist. Garðabær og ríkið hafi hins veg­ar deilt um ákveðin út­færslu­atriði.

„Svo er líka verið að tala um meðferðar­heim­ili inni á Far­sæld­ar­túni, þess vegna var hug­mynd­in að nota þetta hús­næði sem þegar var á staðnum, gera breyt­ing­ar á því, til að auðveld­ara yrði að færa á milli.“

Eins og greint hef­ur verið frá er gert ráð fyr­ir því, sam­kvæmt deili­skipu­lagi, að ráðist verði í mikla upp­bygg­ingu á Far­sæld­ar­túni í þágu barna með fjölþætt­an vanda. Að þar verði í framtíðinni ýmis þjón­usta og úrræði fyr­ir börn og for­eldra þeirra.

17 ára piltur lést í bruna á Stuðlum í október …
17 ára pilt­ur lést í bruna á Stuðlum í októ­ber síðastliðnum. mbl.is/Ó​laf­ur Árdal

Lentu í vanda út af ör­yggis­kröf­um

Ólöf seg­ir að ör­yggis­kröf­ur varðandi meðferðar­heim­ili, þar sem inn­rit­un og út­skrift fari fram, séu mun stífari en fyr­ir aðra starf­semi, eins og stuðnings­heim­ili. Til að mynda þurfi að vera tveir út­gang­ar á hverri hæð.

„Þess vegna lent­um við í þess­um vanda. Það eru bara ör­yggis­kröf­ur og eft­ir brun­ann eru ör­yggis­kröf­urn­ar mjög mikl­ar.“

Því hafi verið ákveðið að taka rými á Vogi á leigu, sem stóð autt, og flytja starf­semi meðferðar­heim­il­is­ins þangað. Um er að ræða nýj­ustu álm­una, sem aðgreind er frá ann­arri starf­semi, tvær hæðir með sér­inn­gangi.

„Við leigj­um það hús­næði á meðan við tök­um ákvörðun um næstu skref. Það er ekk­ert útséð með að við mun­um nýta þetta hús­næði því það er svo mik­il þörf fyr­ir ým­iss kon­ar vinnslu. Eins og til dæm­is stuðnings­heim­ili og þetta væri til­valið fyr­ir það,“ seg­ir Ólöf og vís­ar til Blöndu­hlíðar. En að til að reka slíkt úrræði þurfi hins veg­ar viðbótar­fjármagn.

Áföll hafi sett strik í reikn­ing­inn

Nú eruð þið að greiða leigu bæði fyr­ir Vog og Blöndu­hlíð, eru þetta ekki pen­ing­ar sem gætu nýst bet­ur?

„Við þurf­um að borga leigu fyr­ir hús­næðið sem við erum að end­ur­byggja. Þetta er það sem við þurf­um að skoða núna, hver er staðan, áður en við slepp­um tök­un­um. Hvernig er hægt að nýta þetta í þágu barna. Þörf­in er það mik­il í sam­fé­lag­inu þannig við þurf­um að skoða það, en það er vinna sem þarf að eiga sér stað.“

Umboðsmaður hef­ur sent ráðuneyt­inu bréf þar sem hún lýs­ir yfir ófremd­ar­ástandi í þess­um mála­flokki, það er henn­ar mat á stöðunni, er það þín upp­lif­un?

„Já, staðan er mjög slæm og það hef­ur farið stig­vax­andi. Það hafa mörg áföll komið upp, ann­ars veg­ar mygla í hús­næði og það er brun­inn. Þetta hef­ur sett gríðarlega mikið strik í reikn­ing­inn, miðað við að staðan var orðin slæm fyr­ir.“

Hef­ur staðan ein­hvern tíma verið svona slæm?

„Ég myndi segja að við séum í verstu stöðu sem við höf­um verið. Oft hef­ur staðan verið slæm en ég held við séum í þeirri verstu sem við höf­um verið í.“

Ólöf seg­ist þó bjart­sýn með aðgerðir nýrr­ar rík­is­stjórn­ar.

„Við erum öll af vilja gerð til að reyna að bæta þjón­ustu við barna­vernd og börn lands­ins, sem eru í þess­um vanda. Ég bind von­ir við að náum að koma á skrið fleiri úrræðum og þjón­ustu við börn í þess­um vanda.“

Gert er ráð fyrir að endurbygging álmu fyrir neyðarvistun á …
Gert er ráð fyr­ir að end­ur­bygg­ing álmu fyr­ir neyðar­vist­un á Stuðlum taki rúmt ár. mbl.is/​Karítas

Tek­ur upp í eitt og hálft ár að þjálfa starfs­fólk

Eins og rakið hef­ur verið hér að ofan er vand­inn að miklu leyti bund­inn við skort á viðeig­andi hús­næði fyr­ir þau úrræði sem eru í boði.

Ólöf seg­ir þau hins veg­ar hafa verið hepp­in með starfs­fólk og þau hafi því ekki glímt við mönn­un­ar­vanda að neinu ráði. Það taki þó tíma að þjálfa starfs­fólk þegar nýtt meðferðar­heim­ili er opnað.

„Það tek­ur gríðarleg­an tíma að þjálfa fólk upp í þessa starf­semi. Hvernig við mæt­um börn­um í mis­mun­andi stöðu. Mæt­um þeim þar sem þau eru.“

Starfs­fólk fær meðal ann­ars þjálf­un í áfallamiðaðri nálg­un og því að mæta of­beldi.

„Þetta krefst rosa­legr­ar vinnu og ég myndi telja að það taki eitt til eitt og hálft ár fyr­ir starfs­fólk að verða vel þjálfað til að geta sinnt börn­um með þenn­an vanda.“

Starfs­fólkið sem nú starfar við meðferðarúr­ræðið á Vogi kem­ur að hluta til frá Stuðlum og hef­ur því góða reynslu, en einnig var ráðið inn nýtt starfs­fólk á báða staði sem fær þjálf­un.

„Þannig erum við með grunn af vel þjálfuðu fólki, en það tek­ur tíma. Við get­um aldrei opnað meðferðar­heim­ili bara með nýju starfs­fólki. Það er kannski líka vand­inn við að fá nýtt fólk, en margt fólk sýn­ir áhuga.“

Aðstaðan á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði þykir ekki boðleg …
Aðstaðan á lög­reglu­stöðinni í Flata­hrauni í Hafnar­f­irði þykir ekki boðleg börn­um. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert