Landsréttur þyngir refsingu Dagbjartar í 16 ár

Dagbjört var ákærð fyrir að hafa banað sambýlismanni sínum að …
Dagbjört var ákærð fyrir að hafa banað sambýlismanni sínum að Bátavogi 1-3 í Reykjavík, en hann var á sextugsaldri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lands­rétt­ur hef­ur þyngt dóm yfir Dag­björtu Guðrúnu Rún­ars­dótt­ur í báta­vogs­mál­inu svo­kallaða. Er henni gert að sæta sex­tán ára fang­elsis­vist.

Þetta kom fram í Lands­rétti rétt í þessu.

Dag­björt hafði verið dæmd í 10 ára fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í ág­úst í fyrra fyr­ir sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás sem leiddi til and­láts sam­býl­is­manns henn­ar í svo­kölluðu Báta­vogs­máli. Dag­björt áfrýjaði dóm­in­um til Lands­rétt­ar.

Héraðsdóm­ur sak­felldi hana fyr­ir brot á 218. grein al­mennra hegn­ing­ar­laga sem fel­ur í sér lík­ams­árás sem leiðir til and­láts. Dag­björt hafði hins veg­ar upp­haf­lega verið ákærð fyr­ir brot á 211. grein lag­anna, en þau fela í sér mann­dráp af ásetn­ingi.

Sak­sókn­ari fór fram á 16 ára dóm

Við aðalmeðferð máls­ins fyr­ir Lands­rétti krafðist sak­sókn­ari þess að Dag­björt yrði sak­felld fyr­ir mann­dráp frek­ar en lík­ams­árás og taldi sak­sókn­ari eðli­legt að lengja refs­ingu henn­ar í sex­tán ár frek­an en þau tíu sem hún hlaut.

Verj­andi Dag­bjart­ar krafðist hins veg­ar ógild­ing­ar á dómi héraðsdóms og sýknu í mál­inu. Taldi hann ekki sannað að fullu að Dag­björt hefði orðið sam­býl­is­manni sín­um að bana og benti hann á að dómskvadd­ur matsmaður hefði ekki talið að aðrar dánar­or­sak­ir væru úti­lokaðar. Til vara krafðist hann mild­ari refs­ing­ar.

Brotið sem Dag­björt var ákærð fyr­ir og sak­felld fyr­ir í héraði snýr að því að hún hafi dag­ana 22. og 23. sept­em­ber árið 2023 beitt sam­býl­is­mann sinn al­var­legri lík­ams­árás sem leiddi til and­láts hans. Lýsti sak­sókn­ari fyr­ir Lands­rétti at­vik­inu sem „lang­vinnri og hrotta­legri árás“.

Harm­leik­ur um hund

Dag­björt heyr­ist í síma­upp­tök­um saka sam­býl­is­mann sinn um að drepa hund­inn sinn, hinn 14 ára Kókó, með því að kæfa hann, kyrkja og háls­brjóta. Reynd­ar benda gögn máls­ins til þess að sam­býl­ismaður­inn hafi ráðið Kókó af dög­um.

Í síma­upp­tök­un­um frá því um degi fyr­ir and­látið virðist hún ýja að því að ætla að svara í sömu mynt. Rétt­ar­krufn­ing­ar bentu til þess að hann hefði lík­lega drep­ist vegna köfn­un­ar vegna ytri kraft­verk­un­ar á háls­inn og efri önd­un­ar­veg­inn, þ.e. kyrk­ing­ar.

„Þú ert bú­inn að kála hund­in­um mín­um,“ heyr­ist í Dag­björtu segja í einni síma­upp­töku á meðan Þúsund sinn­um segðu já eft­ir Grafík spil­ast lágt í bak­grunni. Þar kveðst hún ætla sýna brotaþola „sömu vænt­umþykju“ og hann mun hafa sýnt Kókó. 

Á fleiri upp­tök­um heyr­ast högg­hljóð og kvein frá brotaþol­an­um. Brotaþol­inn seg­ir á ann­arri upp­töku að Dag­björt sé „búin að berja sig sund­ur og sam­an í and­lit­inu“.

Vakti fyr­ir henni að bana mann­in­um

Niðurstaða héraðsdóms var þó líkt og fyrr seg­ir að það hefði ekki vakað fyr­ir Dag­björtu að bana sam­býl­is­manni sín­um í aðdrag­anda and­láts hans. Taldi dóm­ur­inn að draga mætti  þá álykt­un að Dag­björt hafi í fyrstu beitt mann­inn al­var­leg­um lík­ams­meiðing­um í trausti þess að hann myndi lifa það af.

„Á hinn bóg­inn var ákærðu ljóst hversu bág­borið ástand hans var og henni gat ekki dulist að áfram­hald­andi lík­ams­meiðing­ar, sér í lagi á viðkvæm­um lík­ams­pört­um eins og hálsi, væru lík­leg­ar til að bana brotaþola,“ seg­ir í dómi héraðsdóms. Þá var tekið fram að ekk­ert benti til þess að Dag­björt hafi verið ófær um að stjórna gerðum sín­um á verknaðar­stundu og telst hún því sak­hæf í skiln­ingi laga.

Hátt­sem­in „sprott­in af grimmúðleg­um hvöt­um“

Í dómi héraðsdóms seg­ir jafn­framt að við ákvörðun refs­ing­ar hafi verið litið til þess að Dag­björt hafi með hátt­semi sinni gerst sek um al­var­legt of­beld­is­brot og at­lögu gegn mann­in­um sem gat ekki varið sig.

„Til refsiþyng­ing­ar horf­ir að hátt­semi ákærðu var sprott­in af grimmúðleg­um hvöt­um. Ákærða á sér eng­ar máls­bæt­ur en hún hef­ur ekki með nokkr­um hætti sýnt merki um iðrun svo trú­verðugt sé,“ seg­ir í niður­stöðu dóms­ins. 

Var Dag­björtu í héraði einnig gert að greiða tveim­ur börn­um manns­ins sam­tals fjór­ar millj­ón­ir í miska­bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert