Ekkert nýtt er að frétta af kjaradeilu kennara og viðsemjanda þeirra að sögn Ástráðar Haraldssonar ríkissáttasemjara.
Spurður hvort atburðarás föstudagsins hafi komið sér í opna skjöldu segir ríkissáttasemjari að hann reyni nú að vera ekki of uppnæmur fyrir öllu.
Deilan væri á þeim stað að ýmislegt gæti gerst og það sé oft þannig að fólk geti orðið viðkvæmt og „upptjúnnað“.
Sem kunnugt er lagði ríkissáttasemjari fram innanhústillögu á fimmtudag sem forysta kennara samþykkti en viðsemjendur þeirra, forystumenn sveitarfélaga og ríkis, ekki.
Í kjölfarið gengu kennarar víða út af vinnustöðum sínum og heyrst hefur af því að einhverjir þeirra hafi eða hyggist segja starfi sínu lausu.
Ástráður segir enga formlega fundi á dagskrá í deilunni sem stendur en samtöl séu viðvarandi.