Björn Thorsteinsson, forsvarsmaður félagsins Lyfjablóms ehf., segist hvergi nærri hættur með milljarða kröfumál sem félag hans höfðaði gegn fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Á föstudaginn ákvað Hæstiréttur að taka ekki fyrir mál Lyfjablóms gegn Þórði og Sólveigu eftir að Landsréttur hafði sýknað þau. Taldi Hæstiréttur út frá gögnum málsins að ekki yrði fullnægt skilyrðum um að málið hefði verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Lyfjablóms í skilningi ákvæðisins. Var áfrýjunarbeiðninni því hafnað.
Í yfirlýsingu til fjölmiðla í dag segir Björn að hann muni senda málið til Endurupptökudóms þar sem hann telji dóm í málinu bersýnilega rangan.
Í yfirlýsingunni rekur Björn af hverju hann telji dóma héraðsdóms og Landsréttar ranga. Jafnframt segir hann að Þórður hafi gefið fjölmargar skýringar fyrir dómi á þeirri háttsemi sem málið snýst um, en það er hvernig innborgun á hlutafé Þórðar til fjárfestingafélagsins Gnúps, kom til. Segir Björn að nýleg gögn sýni að framburður Þórðar og endurskoðanda hans standist ekki.
Rifjar Björn upp að lögregla hafi hafið rannsókn í tengslum við meint ljúgvitni tveggja vitna í málinu og að þá muni hann senda lögreglu frekari gögn sem hann hafi komist yfir varðandi tölvupóstsamskipti Þórðar við aðila sem veittu honum aðstoð í tengslum við innborgunarferlið, sem Björn telur hafa verið ólöglegt.
Björn boðar einnig bók síðar á þessu ári þar sem hann mun „skýra betur frá viðskiptaháttum Þórðar Más og Gnúps fjárfestingarfélags sem og KPMG, persónulegs endurskoðanda Þórðar Más og Gnúps.“ Segir hann að bókin verði birt án endurgjalds á heimasíðu Lyfjablóms síðar á árinu.
Líkt og mbl.is hefur áður fjallað um er um að ræða einkamál þar sem félagið Lyfjablóm (áður Björn Hallgrímsson ehf.) krafði Þórð Má og Sólveigu, sem situr í óskiptu búi eiginmanns síns heitins, Kristins Björnssonar, um samtals 2,3 milljarða. Voru þau Þórður og Sólveig sýknuð í héraði og aftur í Landsrétti.
Félagið Björn Hallgrímsson átti á sínum tíma tæplega helmingshlut í fjárfestingafélaginu Gnúpi og var eitt stærsta fjárfestingafélag landsins fyrir hrun. Var Kristinn í forsvari fyrir fjölskyldufyrirtækið, en Þórður var forstjóri Gnúps og minnihlutaeigandi.
Málið fór fyrst fyrir héraðsdóm árið 2019 þar sem Þórður og Sólveig voru sýknuð á grundvelli tómlætis og fyrningarlaga.
Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms þar sem ekki var talið unnt af hálfu Þórðar og Sólveigar að haga málatilbúnaði sínum þannig að sakarefni málsins yrði skipt, þ.e. um grundvöll skaðabótaábyrgðar annars vegar og fyrningu hins vegar, þar sem þau atriði féllu verulega saman. Af þeim sökum var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2019 ómerktur og málinu vísað aftur í hérað.
Fyrir Landsrétti kom upp nokkuð sérstök staða þar sem allir dómarar Landsréttar voru taldir vanhæfir til að dæma í málinu vegna starfa dómarans Aðalsteins E. Jónassonar fyrir Gnúp á sínum tíma. Var rétturinn því skipaður settum dómurum, en þau voru Einar Karl Hallvarðsson, héraðsdómari og fyrrverandi ríkislögmaður, Hlynur Jónsson héraðsdómari og Sigrún Guðmundsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.
Þórður hafði verið forstjóri félagsins Gnúps, en krafa var gerð á Sólveigu vegna dánarbús eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar, sem hún situr í óskiptu. Kristinn hafði farið fyrir fjárfestahópi fjögurra systkina sem áttu félagið Björn Hallgrímsson ehf. sem var einn af eigendum Gnúps, en félagið hét eftir föður systkinanna. Eftir fall Gnúps var nafni Björns Hallgrímssonar breytt í Lyfjablóm og höfðaði félagið málið gegn Þórði og Sólveigu.
Sonur Áslaugar Björnsdóttur, einnar systurinnar, Björn Thorsteinsson, keypti félagið Björn Hallgrímsson ehf. af slitabúi Glitnis eftir að bankinn hafði áður tekið félagið yfir. Hefur hann staðið í málaferlum vegna þess hvernig uppgjörið var sem og viðskipti áður en félagið var tekið yfir.
Hafa málaferlin meðal annars snúið að því hvort gögn sem lögð hafa verið fram séu rétt eða gerð eftir á og um framburð lögfræðings, bókara og endurskoðanda og hvort að þeir framburðir séu í takti við framlögð gögn.
Þannig tilkynnti Björn seint á síðasta ári að hann hefði kært til lögreglu meint ljúgvitni tveggja vitna í málaferlum félagsins. Er þar um að ræða þá Helga F. Arnarsson, endurskoðanda hjá KPMG, og Stefán Bergsson, fyrrverandi endurskoðanda hjá PwC, en Stefán starfaði fyrir Lyfjablóm áður fyrr.
Yfirlýsing Björns í heild sinni:
YFIRLÝSING VEGNA FRÉTTATILKYNNINGAR FYRRUM FORSTJÓRA GNÚPS FJÁRFESTINGARFÉLAGS, ÞÓRÐAR MÁS JÓHANNESSONAR, FYRRUM FORSTJÓRA GNÚPS FJÁRFESTINGARFÉLAGS, ÞANN 26.FEBRÚAR SL.
1.
Lögreglan hefur þegar opna sakamálarannsókn á framburði tiltekinna einstaklinga fyrir dómi sem leiddu til sýknu dómstóla í hinu svokallaða Gnúpsmáli.
Þórður Már Jóhannesson greiddi 2 milljarða hlutafé sitt til Gnúps Fjárfestingarfélags þann 23.oktober 2006 og eignaðist þar með um 7% hlut í félaginu. Daginn eftir, þann 24.október 2006, eru fyrrgreindir 2 milljarðar millifærðir af reikningi Gnúps m.a. til aðila sem áttu ekki eignarhlut í Gnúp. Á þessum tíma var engin starfsemi hafin í Gnúp fjárfestingarfélagi og einungis einn maður með prókúru fyrir Gnúp, þ.e. Þórður Már.
2.
Þórður Már gaf 3 mismunandi skýringar fyrir dómi af hverju innborgað hlutafé hans til Gnúps hverfur daginn eftir af bankareikning félagsins. Allar voru þær hraktar fyrir dómi. Fjórða skýringin fólst í framburði Þórðar sem vitni sem og framlagningu tiltekinna skjala af hans hálfu og persónulegs endurskoðanda hans sem var jafnframt endurskoðandi Gnúps hf.
Dómstólar segja í dómi sínum að sú skýring sem stefndi, Þórður Már hafi gefið í framburði sínum hafi fengið stoð í framburði endurskoðanda Gnúps, sem staðfesti skýringuna fyrir dómi og þ.a.l. hafi umrædd millifærsa ekki falið í sér ólögmæta úthlutun fjármuna úr Gnúp fjárfestingarfélagi í andstöðu við ákvæði laga um hlutafélög.
3.
Nýleg gögn sýna hvert þessir fjármunir raunverulega fóru. Þau gögn passa engan veginn við eiðsvarinn framburð Þórðar Más og endurskoðanda hans og framlagningu skjala þeirra fyrir dómstóla. Lyfjablóm ehf hefur einnig komist yfir tölvupóstsamskipti Þórðar Más við þá aðila sem veittu honum aðstoð við fyrrgreindar millifærslur og sent lögreglu á næstu dögum. Þórður Már sem og persónulegur endurskoðandi hans fá þar tækifæri þar til að skýra eiðsvarna framburði sína og framlagningu skjala sem leiddu til sýknu enda liggur fyrir 6 ára refsirammi fyrir ljúgvitni fyrir dómi og framlagningu falsaðra skjala fyrir dómí í því skyni að hafa áhrif á úrslit dómsmáls sbr.142.gr.og 162.gr. almennra hegningarlaga.
4.
Takist Þórð Má og persónulegum endurskoðanda hans ekki að hrekja þessi nýlegu gögn hjá lögreglu er ljóst að ákæra verður gefin út á hendur honum og endurskoðanda hans fyrir brot á fyrrgreindum almennum hegningarlögum. Lyfjablóm mun þá einnig senda málið áfram til endurupptökudómstóls sem var beinlínis settur á stofn til að taka upp dómsmál þar sem niðurstaðan er bersýnilega röng.
Að lokum:
Þann 9.janúar á hrunárinu fræga 2008, sendi Þórður Már frá sér fréttatilkynningu varðandi örlög Gnúps sem hann ritar undir sem forstjóri Gnúps, fjárfestingarfélags um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins og endaði fréttatilkynninguna með eftirfarandi orðum:
“Aðgerðirnar hafa tryggt félaginu fjárhagslegan sveigjanleika til að mæta erfiðum markaðsaðstæðum áfram”.
Þórður Már gleymdi þarna að taka fram að daginn áður, 8.janúar 2008, undirritaði hann samning þess efnis að Glitnir banki tæki yfir alla stjórn Gnúps enda félagið komið í þrot og gat ekki borgað gjaldfallna víxla sína né aðrar skuldir. Skv.nýlegum gögnum þurfti að lána Gnúp umtalsverða fjármuni til að standa skil á þessum skuldum og því ljóst að fyrrgreind fréttatilkynning Þórðar Más er hreinn uppspuni frá upphafi til enda.
Þórður Már gleymdi einnig að taka fram að hann bað sérstaklega um skaðleysi frá Glitni banka vegna starfa hans fyrir Gnúp fjárfestingarfélags þegar félagið var komið í þrot og var slíkt skaðleysi veitt honum til handa.
Undirritaður mun skýra betur frá viðskiptaháttum Þórðar Más og Gnúps fjárfestingarfélags sem og KPMG, persónulegs endurskoðanda Þórðar Más og Gnúps í væntanlegri bók sem verður birt án endurgjalds á heimasíðu Lyfjablóms ehf. síðar á þessu ári.
Reykjavík 27.febrúar,
f.h. Lyfjablóms ehf.
Björn Thorsteinsson