Pensill Aðalheiðar fær að flæða frjáls yfir myndflötinn þegar hún málar náttúrumyndir sínar. Myndir hennar eru abstrakt en í þeim er alltaf þessi tilfinning fyrir hinni áþreifanlegu náttúru sem er allt í kring. Aðalheiður sér alls staðar í náttúrunni liti, línur og form og kemur þeim til skila með olíu- eða vatnslitum þannig að áhorfandinn skynjar bæði fjarvíddina og flæðið, en eins leikgleðina sem býr að baki. Auðvelt er að týna sér í myndum hennar og nánast finna lyktina af vorinu sem er handan við hornið. Ný sýning Aðalheiðar, Birting, verður opnuð í Grafíksalnum í Hafnarhúsinu 6. mars næstkomandi.
Myndlistin hefur verið förunautur Aðalheiðar alla tíð. Hún man eftir sér sem barn að leika sér með tölur úr saumaboxi mömmu sinnar eða að fletta í gegnum bunka af litaprufum. Strax á barnsaldri heillaði það hana að raða saman litum, formum og mynstrum til að sjá hvað passaði best.
„Ég man að þegar ég var barn fékk ég gefins stóra möppu með veggfóðursprufum; sumar voru rósóttar og aðrar einlitar, í alls konar litum. Ég lék mér við að fletta þessu og bera saman síðurnar til að sjá hvað passaði best saman,“ segir Aðalheiður og hlær.
„Þetta hefur haft áhrif á mig. Og eins var ég mikið að leika mér með tölubox mömmu. Ég sturtaði úr því og raðaði saman tölunum og pældi í litunum. Það var einhvers konar abstrakt-pæling! Það er kannski það sem ég er ósjálfrátt að gera í málverkinu.“
„Olía og vatnslitir heilla mig jafn mikið, en eru í raun gjörólíkir miðlar að vinna með. Í vatnslitum eru þessir tæru litir og mikið flæði, en ég vinn mjög hratt með vatnslitunum. Í málverkinu vinn ég stærra og þar er meiri yfirlega. Þau verða jafnvel meira abstrakt en vatnslitaverkin,“ segir Aðalheiður, en í verkum hennar má sjá ótal form og línur.
„Ég vinn reyndar líka olíumálverkin þunnt en get þá leyft mér að mála meira yfir. Ég er með stóra og bjarta vinnustofu fyrir austan þar sem við eigum jörð og þar vinn ég olíuverkin en vatnslitaverkin vinn ég heima í Reykjavík. Ég sæki alltaf í það lífræna og þá er það oft garðurinn minn fyrir utan sem verður uppsprettan. Það er þó aldrei endilega meðvitað; ég tek það sem fyrir augu ber inn og sest svo við pappírinn og litirnir koma bara. Það sama gerist þegar ég er í sveitinni; litirnir festast í kollinum og enda svo á striganum. Ég geng svo beint til verks án þess að skissa eða ákveða neitt fyrirfram. Kannski er ég að reyna að koma böndum á óreiðuna. Ég er bara í flæðinu og læt ekkert trufla mig. Ég er í beinu sambandi við náttúruna.“
Sýningin Birting verður opin frá 6. til 23. mars. Aðalheiður segir nafnið bæði geta vísað í það sem birtist manni og eins í birtuna.
„Ég birti þessa sýn en svo erum við líka að fara inn í vorið og það er að birta til.“
Ítarlegt viðtal er við Aðalheiði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.