Lögreglan á Suðurlandi óskaði á þriðjudag eftir aðstoð áhafnarinnar á TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar, vegna ferðamanns sem var í vanda á Sprengisandsleið milli Þórisjökuls og Hofsjökuls.
Ferðamaðurinn hafði verið veðurtepptur á staðnum í þrjá daga og sendi því frá sér neyðarboð. Björgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru einnig kallaðar út, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
„Vel gekk að finna ferðamanninn sem hafði gefið viðbragðsaðilum upp staðsetningu sína með GPS-hnitum. Áhöfnin á TF-GNA aðstoðaði manninn við að taka saman búnað sem hann hafði meðferðis og viðkomandi var fluttur með þyrlunni til Reykjavíkur. Ferðamaðurinn hafði verið í rúmar tvær vikur á ferðalagi en setið fastur á Sprengisandsleið í þrjá daga eins og áður segir. Þegar þyrlusveitin lenti í Reykjavík hóf hún strax undirbúning vegna annars útkalls, nú vegna veikinda í Vestmannaeyjum,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að þyrlusveitin hafi í níu skipti verið kölluð út í vikunni vegna mála af ýmsum toga. Flest útköllin hafi verið vegna bráðra veikinda en einnig vegna slysa.