Formenn stjórna Sósíalistaflokksins hafna ásökunum Karls Héðins Kristjánssonar, forseta ungliðadeildar flokksins, á hendur Gunnars Smára Egilssonar, formanni framkvæmdastjórnar flokksins.
Greint var frá afsögn Karls Héðins úr kosningastjórn flokksins í gær. Sakaði hann Gunnar Smára m.a. um trúnaðarbrot, ofríki og andlegt ofbeldi.
„Ég get ekki lengur starfað innan forystu sem hunsar lýðræðislega gagnrýni, viðheldur óheilbrigðri menningu og refsar þeim sem benda á vandamálin,“ skrifaði Karl í bréfi sem hann sendi flokksmönnum.
Í kjölfar ásakananna boðaði Gunnar Smári til skyndifundar til þess að fara yfir bréf Karls Héðins.
mbl.is reyndi að ná tali af Gunnari Smára í morgun en hann kvaðst vera upptekinn. Þess í stað sendi hann frá sér tilkynningu formanna.
„Sósíalistaflokkurinn sendi nýverið út könnun meðal félaga um ánægju þeirra með flokksstarfið, stefnuna og þau áhrif sem flokkurinn hefur haft á samfélagsumræðu sl. ár. Almenn ánægja þeirra 15% félaga sem svöruðu var yfir 90% í öllum spurningum nema um niðurstöður kosninganna,“ segir í tilkynningu formannanna.
Karl Héðinn sagði af sér í mótmælaskyni eftir sameiginlegan fund stjórna sem fór fram á laugardag.
Sagði hann að á vinnuhelgi flokksins um uppgjör við kosningabaráttuna hafi félagsmenn og frambjóðendur komið úr öllum kjördæmum saman með það að markmiði að læra af reynslu kosningabaráttunnar og að samhljómur hafi verið um þau skref sem flokkurinn þyrfti að stíga.
„Í stað þess að vinna raunverulega með þessa vinnu ákvað lítill valdakjarni innan framkvæmdastjórnar að hunsa þessa niðurstöðu og boða til sameiginlegs fundar stjórna um niðurstöðu netkönnunar sem túlkuð var þannig að „allt væri í lagi,““ skrifaði Karl í bréfi sínu en formennirnir hafa nú svarað því í tilkynningu sinni:
„Vinnufund kosningarstjórnar, sem Karl Héðinn vísar til, sátu 1,5% félaga. Niðurstöður félagskönnunarinnar sýna því að almenn ánægja ríkir um starf Sósíalistaflokksins og endurspegla engan veginn vantraust á formann framkvæmdastjórnar, Gunnar Smára Egilsson.“
Undir tilkynninguna kvitta Sara Stef. Hildardóttir, varaformaður framkvæmdastjórnar, María Pétursdóttir, formaður málefnastjórnar, og Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður kosningastjórnar.
Leiðrétting: Í upphaflegri frétt stóð að Karl Héðinn væri fyrrverandi forseti ungliðadeildar Sósíalistaflokksins. Hann er enn forseti en sagði sig úr kosningastjórn flokksins. Fréttin hefur því verið uppfærð.