Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, leggur til að settar verði skýrar reglur yfir klæðaburð þingmanna svo þeir geti vitað hvað teljist viðeigandi klæðaburður. Jafnvel telur hann að taka ætti upp búninga fyrir þingmenn og nefndi í því samhengi skikkjur og hárkollur.
Þetta kom fram í ræðu hans undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Jón stóð við fyrri orð sín á þingi þegar kemur að umræðu um klæðaburð þingmanna, en mikla athygli vakti ræða hans um miðjan síðasta mánuð þar sem hann rakti mál þegar forseti þingsins hafði gert athugasemdir við klæðaburð hans, en Jón hafði verið í gallabuxum. Sagði Jón í þeirri ræðu sinni að hann hlakkaði til að halda þessari umræðu áfram og að hann væri með fjölda hugmynda.
Í ræðunni í dag nefndi Jón að hann hefði undanfarið séð aðra þingmenn í gallabuxum og að það hafi valdið honum áhyggjum og truflað einbeitingu sína. Gallabuxurnar voru þó ekki það versta við fatnað þingmanna að mati Jóns:
„Og það sem verra er, kakíbuxur, ég hef líka séð fólk í kakíbuxum hérna. Mér finnst þetta vera eitthvað sem við þurfum að fara aðeins að setja niður bara þannig að það sé skýrt fyrir okkur hverju við getum klæðst og hverju ekki og hvort við ættum jafnvel að fara að taka hér upp einhverja búninga.“
Nefndi hann í framhaldinu skikkjur og hárkollur sem hann taldi geta verið glæsilegan búning fyrir þingmenn. Bauð hann sig í framhaldinu fram til að vera hluti af vinnu þingsins við búningareglur og klæðaburð.