Sjúkraflutningamenn skoða aðgerðir

Þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt …
Þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá ríkinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Ingimars­son formaður Lands­sam­band slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna, seg­ir samn­ingaviðræður við samn­inga­nefnd rík­is­ins stranda á launamuni milli rík­is og sveit­ar­fé­laga en þeir sem starfa í sjúkra­flutn­ing­um hjá sveit­ar­fé­lög­um eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá rík­inu, að sögn Bjarna.

LSS fundaði með samn­inga­nefnd rík­is­ins skömmu eft­ir há­degi í dag.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Bjarni að um til­tölu­lega stutt­an fund hafi verið að ræða og það sé í raun ekk­ert að ger­ast í viðræðunum.

„Okk­ar vilji er að lausn­ir verði fundn­ar til að jafna launamun­inn út en ríkið er búið að semja við flest alla á sömu nót­um og hef­ur ekki viljað fara út fyr­ir það,“ seg­ir hann.

Vilja virðismat fljótt

Seg­ir hann vilja inn­an þeirra raða að fara í virðismat fljótt sem tæki gildi ein­hvern tím­ann á samn­ings­tím­an­um, og vís­ar þar til samn­inga­mála kenn­ara en ríkið teygði sig lengra í viðræðum við kenn­ara en aðra viðsemj­end­ur sína.

Bjarni seg­ir að menn muni taka helg­ina ró­lega og fari svo að skoða til hvaða aðgerða sé hægt að grípa til að búa til ein­hverja pressu. Aðgerðir myndu þá snúa að sjúkra­flutn­inga­mönn­um sem starfa hjá heil­brigðis­stofn­un­um.

Spurður um mögu­leg­ar aðgerðir nefn­ir hann yf­ir­vinnu­bann og svo það að menn geti gefið frá sér boðtæki svo ekki verði hægt að ná á þeim. Þá seg­ir hann að ein­hvers kon­ar verk­fallsaðgerðir komi einnig til greina.

Sam­talið við sveit­ar­fé­lög­in geng­ur vel

LSS fundaði einnig með samn­inga­nefnd Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga í morg­un og gekk sá fund­ur tals­vert bet­ur. Raun­ar seg­ir Bjarni hann hafa gengið mjög vel, það sé góður skriður á sam­tal­inu og búið sé að boða fund aft­ur í næstu viku.

Fyrsti fund­ur­inn í deil­unni fór fram í síðustu viku frá því að fé­lags­menn í LSS felldu kjara­samn­ing við sveit­ar­fé­lög­in í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert