Ekkert verður af því að stjórn Félagsbústaða sendi framkvæmdastjórann, Sigrúnu Árnadóttur, í leyfi, þrátt fyrir ákall starfsmanna þar um.
Þess í stað hefur verið ákveðið að leita til ráðgjafarfyrirtækis í starfsmannamálum til að fara yfir þau vandamál sem skapast hafa hjá Félagsbústöðum í kjölfar þess að framkvæmdastjórinn rak starfsmann fyrirvaralaust úr starfi á starfsmannafundi sem haldinn var fyrir hálfum mánuði. Þetta var kunngjört á fundi stjórnarformanns með starfsfólki í gær.
Kom þessi niðurstaða starfsfólki á óvart, enda nýlega búið að kanna starfsánægju á vinnustaðnum sem mældist afar lítil, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Í bréfi sem starfsmenn sendu borgarstjóra fyrir viku kvartar starfsfólk yfir því að ekki hafi orðið vart við viðbrögð stjórnar af nokkrum toga, eða að stjórn ætli sér að taka á málunum.
Segja þeir að Sigrún Árnadóttir hafi komið fram „með hroka og valsar um í sinni yfirburðastöðu sem framkvæmdastjóri og gerir tilraunir til að endurskrifa söguna sér í vil. Fyrirtækið hefur verið óstarfhæft alla vikuna, starfsfólki hefur liðið mjög illa og ástandið verið skaðlegt heilsu þess. Einn starfsmaður er nú þegar kominn í veikindaleyfi. Viðvera Sigrúnar í vinnunni alla vikuna gefur sterklega til kynna að stjórn geri sér ekki grein fyrir alvarleika málsins,“ segir í bréfinu.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag