Yfir tuttugu börn bíða eftir að komast að

Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn …
Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum. mbl.is/Hari

Fleiri en tutt­ugu börn eru á biðlista eft­ir skóla­vist í Brú­ar­skóla í Reykja­vík. Er það svipaður fjöldi barna og er þegar með pláss í stærstu starfs­stöð skól­ans við Vest­ur­hlíð.

Brú­ar­skóli er eini skól­inn á höfuðborg­ar­svæðinu sem ætlaður er börn­um með al­var­leg geðræn, hegðunar- eða fé­lags­leg vanda­mál. Skól­inn tek­ur einnig á móti nem­end­um sem eru í vanda vegna fíkni­efna­neyslu og/​eða af­brota.

Aðeins einn ann­ar sér­skóli sem gegn­ir svipuðu hlut­verk er starf­rækt­ur á land­inu. Sá er á Ak­ur­eyri.

„Ég held að það sé klár­lega þörf á fleiri og betri úrræðum, eins og hef­ur komið fram í öll­um fjöl­miðlum. Ég held að það séu all­ir sam­mála um það. Og ég held að það séu klár­lega sókn­ar­færi fyr­ir Brú­ar­skóla,“ seg­ir skóla­stjór­inn Ólaf­ur Björns­son.

Bet­ur í stakk búin að bregðast við

Brú­ar­skóli er sér­skóli í Reykja­vík stofnaður árið 2003. Skól­inn er tíma­bundið úrræði fyr­ir börn með hegðun­ar­vanda frá 3. og upp í 10. bekk. Ólaf­ur hef­ur starfað við skól­ann í sex­tán ár og skrifaði meist­ara­rit­gerð sína um lífs­sög­ur fyrr­ver­andi nem­enda skól­ans.

„Mark­mið okk­ar er fyrst og fremst að skilja hegðun barns­ins í sam­hengi við aðstæður. Þann bak­poka sem hvert barn er með, áfalla­sögu, ald­ur og þroska. Aðstæður okk­ar eru gjör­ólík­ar því sem tíðkast í kerf­inu. Við erum miklu bet­ur í stakk búin að mæta þörf­um þess­ara nem­enda.“

Hvað eruð þið að gefa nem­end­um sem aðrir skól­ar eiga erfiðara með að gera?

„Ég held að kenn­ar­ar í al­menna kerf­inu séu að gera sitt besta, og þetta er al­veg frá­bært starfs­fólk. Aðstæður hér eru bara allt öðru­vísi af því að við erum með miklu færri nem­end­ur. Svo erum við auðvitað búin að sér­hæfa okk­ur í áfallamiðaðri nálg­un, mark­mið okk­ar er alltaf að reyna að skilja þessa hegðun nem­andans og aðgreina hegðun­ina frá ein­stak­lingn­um. Það er alltaf eitt­hvað á bak við þegar barn beit­ir of­beldi. Það er eng­inn sem leik­ur sér að því að beita of­beldi,“ seg­ir Ólaf­ur og held­ur áfram:

„Um­hverfið hér er mjög skýrt. Ramm­inn er fast­ur. Nem­end­ur eru með skýrt skipu­lag, þeir vita ná­kvæm­lega hvers ætl­ast er til af þeim. Þeir eru líka með sjón­rænt skipu­lag, sem skipt­ir máli fyr­ir þessa krakka. Það er ekk­ert sem kem­ur þeim í opna skjöldu. Við get­um veitt þeim tæki­færi til að vera meira í verk­grein­um. Við erum aðallega með stráka og þeim geng­ur bet­ur þar. Þegar þeir finna styrk­leika sinn efl­ast þess­ir krakk­ar.“

Rík­ari áhersla á verk­grein­ar

Ólíkt heima­skól­un­um fá nem­end­ur í Brú­ar­skóla ekki eig­in­leg­ar frí­mín­út­ur, þar sem nem­end­ur eru ein­ir með öðrum nem­end­um.

Starfs­fólk er með nem­end­um öll­um stund­um, sama hvort það er í tím­um eða á milli tíma. 

„Nem­end­ur fá kannski ekki þetta frjáls­ræði og rými sem sum börn ráða ekki við, þar sem hegðunin brýst stund­um út. Við erum með þeim úti þar sem við kenn­um þeim þessa fé­lags­færni, hvernig þau eiga að hegða sér í leik. Við erum með þeim þegar þau eru að borða. Þetta eru mjög litl­ir hóp­ar og við erum mjög vel mönnuð. Börn­un­um líður bet­ur í þannig um­hverfi.“

Meiri tíma er varið í kennslu verk­greina og fá börn­in jafn­framt fleiri tæki­færi til þess að vinna út frá sínu áhuga­sviði, að sögn Ólafs.

„Þegar nem­end­ur koma hingað er mark­miðið fyrst og fremst að þeim líði vel. Af því að þegar þau koma hingað líður þeim ekki vel. Það er ým­is­legt búið að ganga á,“ seg­ir Ólaf­ur.

„Þegar nem­end­ur koma fylg­ir þeim mjög oft ein­hver saga, oft of­beldi en ekki alltaf. En oft og tíðum sjá­um við þessa hegðun ekki hér því þau kom­ast í aðstæður þar sem þeim líður bet­ur.“

Brúarskóli í Vesturhlíð.
Brú­ar­skóli í Vest­ur­hlíð. mbl.is/​Brynj­ar Gauti

Mark­miðið að nem­end­um líði vel

Fjöldi nem­enda í Brú­ar­skóla er breyti­leg­ur milli ára og yfir skóla­árið, en í kring­um 50 nem­end­ur stunda nám við skól­ann. Svipaður fjöldi starfs­manna starfar við skól­ann og eru það stjórn­end­ur, kenn­ar­ar, sál­fræðing­ur, fé­lags­ráðgjaf­ar og þroskaþjálf­ar.

Skól­inn er með fjór­ar starfs­stöðvar en sú stærsta er í Vest­ur­hlíð, þar sem pláss er fyr­ir 24 nem­end­ur. 

Til þess að barn fái inni í Brú­ar­skóla þurfa for­eldr­ar að skrifa und­ir um­sókn og heima­skól­inn líka. 

„Síðan erum við með upp­lýs­inga­fundi um hverja um­sókn þar sem við fáum alla sem vinna með barn­inu hingað til okk­ar og för­um yfir sögu barns­ins, aðstæður og annað slíkt. Síðan erum við með inn­tökufund, þar eru aðilar frá skóla- og frí­stunda­sviði og við hér inn­an­húss. Þar för­um við yfir um­sókn­irn­ar,“ seg­ir Ólaf­ur.

„Það er nokkuð al­gengt að það komi hingað nem­end­ur og standi sig vel frá fyrsta degi. Stund­um koma þau strax og sýna krefj­andi hegðun en svo smám sam­an slaka þau á. Mark­miðið er að þeim líði vel. Ann­ars kom­ast þau ekk­ert áfram.“

Um tutt­ugu börn bíða nú eft­ir því að kom­ast að í Brú­ar­skóla.

Hef­ur komið til tals að stækka skól­ann?

„Það er klár­lega nokkuð sem þarf að skoða af al­vöru.“

Starfsmaður fylg­ir barni í heima­skól­ann 

Nem­end­ur eru að meðaltali eitt og hálft til tvö ár í Brú­ar­skóla áður en þeir snúa aft­ur í sinn heima­skóla.

Hvernig hef­ur það gengið þegar nem­end­ur koma aft­ur í sinn heima­skóla?

„Það er auðvitað bara all­ur gang­ur á því. Oft geng­ur það vel, sem bet­ur fer, en það geng­ur ekki alltaf vel,“ seg­ir Ólaf­ur.

„Við slepp­um ekk­ert nem­end­um strax í burtu þegar þeir út­skrif­ast hér. Við aðlög­um þau og hjálp­um heima­skól­an­um að stýra sínu um­hverfi eins og þau geta eft­ir fremsta megni eins og við erum búin að gera. Þannig að við byrj­um kannski á að fara í eina stutta heim­sókn með nem­and­an­um, svo för­um við aðeins leng­ur og leng­ur og í raun bara eins lang­an tíma og nem­andinn þarf. Starfsmaður hér er alltaf með þeim til að byrja með. Oft er þetta mánaðarferli þar sem við erum að aðlaga nem­andann í heima­skól­ann. Ef við finn­um að það er eitt­hvað erfitt reyn­um við að bregðast við því.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert