Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri virðist hafa tekið skyndiákvörðun um að hætta sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga frekar en að þola niðurlægjandi vantraustsstilögu á landsþingi Sambandsins á fimmtudag.
Heiða greindi óvænt frá því í gærkvöld að hún hygðist hætta sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi þess nú á fimmtudag.
Fyrir landsþingi beið tillaga sem Morgunblaðið hefur heimildir fyrir að tugir sveitarstjóra um land allt, bæði óháðir og flokksbundnir, hafi ætlað að leggja fram um að Heiða viki sem formaður Sambandsins vegna trúnaðarbrests við stjórnina og eftir atvikum sveitarfélög.
Tillagan mun upphaflega komin frá „óháðum“ sveitarstjóra, sveitarstjóra á vegum staðbundins framboðs, ekki eins af flokkunum sem starfa á landsvísu. Hins vegar hafi tugir annara sveitarstjóra, bæði óháðir, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, ætlað að vera meðflutningsmenn. Tillöguna í heild má lesa neðst í fréttinni.
Heiða sagði frá ákvörðun sinni í viðtali í Kastljósi Rúv. í gærkvöld, og játaði að klofningur hennar frá stjórninni í kennaradeilunni hefði verið erfiður. Hún liti þó ekki svo á að hún hefði misst traust stjórnar Sambandsins, en mögulega nyti hún ekki lengur trausts allra sjálfstæðismanna í stjórninni.
Stjórnarmaður annars flokks, sem blaðið ræddi við, segir það „óskiljanleg ummæli“. Vantraustið sé mun víðtækara „eins og best sést á viðbrögðunum hjá henni.“
Fullyrt er við mbl.is að það eigi við um nær alla stjórnarmenn Sambandsins. Svipaða sögu sé af segja af sveitarstjórnarmönnum um land allt, sem rétt hafa til setu á landsþinginu, þar hafi tryggur meirihluti verið fyrir vantrauststillögunni gegn Heiðu, jafnvel fólk úr Samfylkingu í öðrum sveitarfélögum.
Að neðan má lesa tillöguna sem til stóð að flytja á landsþinginu.
Tillaga að ályktun, borin fram af sveitarstjórum fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, 20. mars 2025;
Hlutverk Sambands íslenskra sveitarfélaga er að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaga og gæta hagsmuna þeirra.
Afar mikilvægt er að yfirstjórn Sambandsins sé samhent og sterk, tali einum rómi og gæti hagsmuna sveitarfélaganna af fullri einurð.
Formanni ber að gæta hagsmuna alls sveitarstjórnarstigsins þegar hann kemur fram og er talsmaður þess út á við.
Þegar misbrestur verður á framangreindu verður trúnaðarbrestur milli formanns, stjórnar og sveitarfélaganna eftir atvikum. Slík staða er ótæk og skaðar hagsmuni sveitarstjórnarstigsins beint og óbeint.
Landsþing telur að þessar aðstæður séu komunar upp og telur rétt að formaður víki úr sæti sínu.
Landsþing leggur áherslu á að stjórn Sambandsins sinni sínu hlutverki sameinuð og sterk á skipunartíma sínum, til loka kjörtímabils.