„Við tókum í raun við gati sem var stærra en upphaflega lá fyrir. Vissulega voru breyttar forsendur til umræðu við afgreiðslu síðustu fjárlaga en það var ekki búið að klára spána út allt kjörtímabilið ef svo má segja.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra um lakari stöðu ríkisfjármála en útlit var fyrir þegar ríkisstjórn hennar tók við í desember á síðasta ári.
Hallinn nam einhverjum tugum milljarða í fjármálaáætlun fyrir ári síðan að sögn Kristrúnar og segir hún nokkra tugi milljarða bætast við það sem við blasti þá.
„Þetta er bara úrlausnarefni og ég ætla ekkert að missa trúna þrátt fyrir að við fáum þetta í fangið. Við erum bara lausnamiðuð og ætlum að gera það sem við getum til að loka þessu gati.“
Innt eftir skýringum segir Kristrún ýmislegt í síðustu fjármálaáætlun hafa verið óútfært.
„Það var óútfærð eignasala til að mynda og útfært aðhald og þættir sem átti eftir að taka ákvörðun um og kannski reynist ekki fótur fyrir. Þetta er eitthvað sem var til umræðu þegar fjármálaáætlun var lögð fram síðast.
Síðan eru ytri aðstæður sem hafa breytt afkomunni, til að mynda urðu breytingar í tekjuspá ríkissjóðs vegna minni umsvifa en áður var búist við. Það gerði að verkum að tekjur sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að reiða sig á í framhaldinu komu ekki inn með sama hætti og áður.“
Að auki segir Kristrún að við hafi bæst nokkur hali af málum, lögfestum breytingum sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig og hafði ekki gert ráð fyrir í fjármálaáætlun nú.
„Við stöndum frammi fyrir því þar sem um er að ræða mál til að mynda sem við styðjum eins og uppbyggingu nýja fangelsisins, Stóra-Hrauns. Þar voru í rauninni ónákvæmar forsendur og uppbyggingin reynist dýrari en við horfðist.“
Þá nefnir hún þætti eins og kostnað við endurhæfingarlífeyri og breytingar á örorkulífeyriskerfinu en ákveðnar breytingar urðu þar á og að síðustu nefnir hún eitthvað sem hún segir að kalla megi veikleika í fyrri spá sem ríkisstjórnin taki nú í fangið.
„Við erum ekkert að kvarta yfir þessu. Við erum bara að lýsa aðstæðum. Skilaboðin frá minni ríkisstjórn og öllum þeim ráðherrum sem ég vinn hér með að við munum loka gatinu og styrkja afkomuna.
Þannig að þetta er bara áskorun en þetta er staðan engu að síður þegar við tökum við.“