Ekki sjálfsagt að Ísland verði undanskilið

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Full­trú­ar Sam­taka at­vinnu­lífs­ins (SA) hafa síðustu daga átt fundi með full­trú­um fram­kvæmda­stjóra viðskipta- og efna­hags­ör­ygg­is í fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB) til að und­ir­strika mik­il­vægi þess að Ísland verði und­an­skilið í vernd­araðgerðum ESB gagn­vart Banda­ríkj­un­um.

„Alþjóðaviðskipti eru lífæð Íslands,“ seg­ir Sig­ríður Mar­grét Odds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, en hún er ein þeirra sem eru stödd í Brus­sel fyr­ir hönd SA.

Hef­ur einnig verið fundað með sendi­herra Íslands í Brus­sel og starfs­mönn­um í sendi­ráðinu auk viðskipta­full­trúa hjá fasta­nefnd­um nokk­urra norður­landa. 

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Sig­ríður að full­trú­ar Íslands hafi mætt mikl­um skiln­ingi og áheyrn af hálfu for­svars­manna ESB, hins veg­ar hafi ekki verið hægt að lofa því að Ísland verði und­an­skilið í mögu­leg­um vernd­araðgerðum gagn­vart Banda­ríkj­un­um. 

Hvorki staðfest né sjálfsagt

Líkt og kunn­ugt er þá hef­ur Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti sett á tolla á allt inn­flutt ál og stál til Banda­ríkj­anna og er bú­ist við að hann muni til­kynna um frek­ari tollaaðgerðir í byrj­un apríl. 

„Þess­ar aðgerðir kalla á mót­vægisaðgerðir af hálfu ESB og hef­ur sam­bandið þegar til­kynnt um gagn­kvæma tolla sem bein­ast gegn Banda­ríkj­un­um. Við eig­um allt eins von á því að það verði gripið til vernd­ar­ráðstaf­anna og þá er svo mik­il­vægt að Ísland sé und­an­skilið þeim aðgerðum, en það er hvorki staðfest né sjálfsagt,“ seg­ir Sig­ríður. 

Sigríður er ein þeirra sem hafa setið fundina í Brussel.
Sig­ríður er ein þeirra sem hafa setið fund­ina í Brus­sel. Ljós­mynd/​Aðsend

Seg­ir hún að fund­irn­ir í Brus­sel hafi fyrst og fremst gengið út á það að afla frek­ari upp­lýs­inga og fá frek­ari inn­sýn inn í þá stöðu sem er uppi. Sig­ríður seg­ir að helstu rök full­trúa SA fyr­ir því að Ísland verði und­an­skilið téðum vernd­ar­ráðstöf­un­um sé að með aðild Íslands að evr­ópska efna­hags­svæðinu og innri markaðnum sé Ísland mik­il­væg­ur sam­starfsaðili. 

Nefn­ir hún til dæm­is hve Evr­ópu­vædd­ur ís­lensk­ur vinnu­markaður er en 24% þeirra sem starfa á ís­lensk­um vinnu­markaði eru er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar og af þeim eru 80% frá evr­ópska efna­hags­svæðinu. 

„Það er líka þannig að ís­lensk álfram­leiðsla er ein sú græn­asta í heim­in­um og við erum að sjá Evr­ópu fyr­ir um fjórðungi af áli. Svo er það líka ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur sem er al­veg gríðarlega mik­il­væg­ur fyr­ir Evr­ópu­markað,“ seg­ir Sig­ríður. 

Spenn­andi að fylgj­ast með á næstu vik­um

„Skila­boðin til okk­ar á þess­um fund­um eru fyrst og fremst þau að aðgerðir ESB séu svar við aðgerðum Banda­ríkj­anna [...]. Við mæt­um mjög mikl­um skiln­ingi og það hef­ur verið mik­ill stíg­andi í hags­muna­gæsl­unni af hálfu Íslands og skila­boðin eru kom­in mjög skýrt á fram­færi. Það hef­ur hins veg­ar ekki verið gefið út hvort Ísland verði und­anþegið ef ESB mun grípa til þess­ara vernd­araðgerða.“

Seg­ir Sig­ríður að afar áhuga­vert verði að fylgj­ast með því hvernig næstu vik­ur munu þró­ast og hvaða ákv­arðanir verða til­kynnt­ar í byrj­un apríl af hálfu Banda­ríkj­anna og þá hvernig ESB muni svara. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert