Þann 13. mars voru björgunarsveitir kallaðar út vegna manns sem ekki hafði spurst til í fimm daga. Hann fannst um morguninn í fjöru í Loðmundarfirði og hafði þá verið einn í fjörunni, meiddur og marinn, nær allan tímann.
Ferðamaðurinn heitir Joey Syta og er rúmlega fertugur listamaður frá Bandaríkjunum. Blaðamaður mbl.is settist niður með Syta og fékk að heyra upplifun hans.
Syta er ekki ókunnugur Íslandi. Hann kom hingað til lands í fyrsta sinn árið 2007 til að fara á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves og varð að eigin sögn ástfanginn.
Hann hefur komið nokkrum sinnum til landsins síðan þá og dvalið m.a. á Seyðisfirði. Hann hefur kynnst Íslendingum og talar vel um íslenska vini sína, Seyðisfjörð sem og Íslendinga í heild sinni.
Spurður að því hvernig það atvikaðist að Syta festist í fjöru við Loðmundarfjörð í nær fimm daga segist hann hafa viljað fara að kanna yfirgefið hús sem hann sá á Seyðisfirði síðast þegar hann gisti þar.
Þegar hann kom til landsins var hann þreyttur eftir ferðalagið. Þannig atvikaðist það að hann var hress og tilbúinn í að leggja land undir fót klukkan þrjú um nótt, aðfaranótt sunnudagsins 9. mars.
Hann klæddi sig vel, pakkaði örlitlu nesti og tók með sér vasaljós og blöð og skriffæri til að teikna, ef hann fengi innblástur. Vinir sem voru með honum lögðu ekki með í ferðina spurðu hann hvort hann væri viss um hvort hann vildi fara. Hann svaraði því til að sólin yrði komin upp eftir tvo tíma og að hann myndi fylgja gömlum smalastíg sem ætti að liggja að áfangastaðnum.
Segir Syta við blaðamann að þegar sólin hafi svo komið upp hafi hann áttað sig á því að hann hafi farið fram hjá húsinu. Hann hafi þó ákveðið að halda áfram á stígnum og njóta umhverfisins og landslagsins.
Áður en hann vissi var hann farinn að klífa brattar hlíðar í Jökli, sem er fyrir ofan Loðmundarfjörð, og kveðst hafa orðið skelkaður og viljað koma sér niður í fjöruna sem hann sá fyrir neðan sig.
Í bröttum klettunum missti hann svo takið og féll aftur fyrir sig, niður í fjöruna, að minnsta kosti þrjá til fjóra metra niður til jarðar.
„Ég taldi upp að tveimur í höfðinu á meðan ég var að detta og fékk skell á höfuðið og rotast í smástund,“ segir Syta.
Þá fann hann einnig fyrir gífurlegum eymslum bæði í baki og á öxlum og var viss um að hann hefði ökklabrotnað. Hann hafi þó einhvern veginn náð að renna sér á bakinu niður úr hlíðinni og í fjöruna. Þá var enn bjart úti.
Þegar dimma tók áttaði Syta sig á að hann þyrfti að finna sér náttstað til að hvíla sig á. Síminn hans náði engu sambandi þar sem hann var staddur í fjörunni í Loðmundarfirði.
Kveðst hann hafa fundið kot, sem hann lýsir sem pínulitlum helli, og telur hann líklegt að einhver hafi verið þar einhvern tímann á undan honum þar sem búið var að koma fyrir bútum úr frauðplasti á milli steinanna og þar gat hann lagst niður.
„Ég segi við sjálfan mig: „Ég er ekki að fara neitt um hríð. Ég er sárkvalinn. Sjálfstraustið er í rúst því núna er ég heimski ferðamaðurinn“,“ segir Syta og bætir við að svo hafi hafist vinna.
„Ég gerði þennan litla helli eins notalegan og hægt var. Það var svona náttúrulegur veggur í kringum hann og ég stækkaði vegginn og fyllti í hann með torfi til að fá meira skjól.“
Þá segist Syta hafa fundið staf, sem hann kallar Yoda-stafinn sinn sökum þess að hann var beinn, grannur og með engan börk, sem hann notaði til að styðjast við til að ganga.
„Og á öðrum eða þriðja degi finn ég vatnsflösku – gamla gosflösku, og ég gat notað hana. Núna þurfti ég ekki lengur að setja tunguna undir bráðnandi klaka. Ég gat fyllt vatnsflöskuna,“ segir hann og kveðst hafa vitað að hann gæti lifað í einhvern tíma bara á vatni, sérstaklega íslenska vatninu.
Syta lifði á snjó, vatni, grasi og jurtum.
Því næst lýsir Syta mataræði sínu á þeim tæpu fimm dögum sem hann dvaldi í fjörunni:
„Ég tók bita og reyndi að sjúga alla hugsanlegu næringu sem ég gat. Þetta var það eina sem ég neytti í fimm daga,“ segir Seyta. Hann segist hafa tapað mikilli þyngd á þessum dögum.
Varðstu aldrei hræddur um líf þitt? Maður myndi halda að flestir væru dauðhræddir í þessum aðstæðum.
„Ég veit það ekki. Ég myndi segja að öll sú hræðsla sem ég fann fyrir breyttist nær samstundis í: „Þú munt sjá vini þína aftur og þú munt sjá fjölskylduna þína aftur. Þú munt bjargast.“ Það var aldrei: „Fokk, ég er búinn að vera, ég gæti allteins hoppað í sjóinn og gefist upp.“ Aldrei.“
Þá nefnir Syta einnig að hann hafi komið hingað til lands fyrir fimm til sex árum síðan um áramótin. Þá hafi hann í fyrsta sinn heyrt um björgunarsveitirnar. Hann hafi því vitað að þær voru til.
„Ég vissi að um leið og þeir myndu fá símtalið þá myndu þeir finna mig.“
Lengra og ítarlegra viðtal við Joey Syta mun birtast á mbl.is á morgun.