Ásthildur Lóa segir af sér

Ásthildur Lóa mun segja af sér.
Ásthildur Lóa mun segja af sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir, mennta- og barna­málaráðherra, mun segja af sér. Þetta kem­ur fram í viðtali sem Rík­is­út­varpið tók við hana og verður birt í kvöld. 

Rík­is­út­varpið grein­ir frá.

Rík­is­út­varpið greindi frá því fyrr í kvöld að Ásthild­ur átti barn með 15 ára göml­um pilti þegar hún var 22 ára göm­ul, eða fyr­ir rúm­lega þrem­ur ára­tug­um.

Leiðbeindi dreng frá brotnu heim­ili

Ásthild­ur átti í ást­ar­sam­bandi við dreng­inn, Ei­rík Ásmunds­son, en hún kynnt­ist hon­um þegar hún leiddi ung­lingastarf í trú­ar­söfnuðnum Trú og líf í Kópa­vogi. Dreng­ur­inn hafði leitað þangað þar sem aðstæður heima fyr­ir voru erfiðar.

Barns­faðir Ásthild­ar seg­ir að hún hafi tálmað sig í en einnig krafið hann um meðlög í 18 ár. Ásthild­ur hafn­ar því að hafa tálmað hann í viðtali við Rík­is­út­varpið.

Ástar­sam­bandið hófst þegar hann var fimmtán ára gam­all og fljót­lega eft­ir að það hófst varð Ásthild­ur ólétt. Þegar barns­faðir­inn var 16 ára og Ásthild­ur 23 ára þá eignuðust þau sam­an son.

Erindi barnsföðursins var sent á forsætisráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur í trúnaði. …
Er­indi barns­föðurs­ins var sent á for­sæt­is­ráðuneyti Kristrún­ar Frosta­dótt­ur í trúnaði. Aft­ur á móti fékk Ásthild­ur inn­tak er­ind­is­ins og heim­sótti barns­föður­inn. mbl.is/​Karítas

Fékk að hitta barnið í einn sól­ar­hring á ári

Fram kem­ur að Ásthild­ur Lóa hafi fyrstu mánuðina átt frum­kvæði að því að finna tíma fyr­ir feðgana til að hitt­ast. Eft­ir að hún kynnt­ist eig­in­manni sín­um hafi það þó breyst að sögn Ei­ríks.

Hann leitaði til dóms­málaráðuneyt­is­ins og fjöl­skylduþjón­ustu kirkj­unn­ar og fór fram á það að fá að um­gang­ast dreng­inn.

Frétta­stofa RÚV kveðst hafa fengið gögn sem staðfesta það og þar kem­ur líka fram að Ásthild­ur Lóa hafi hafnað hon­um um um­gengni. 

Ei­rík­ur kveðst hafa fengið samþykkt­ar tvær klukku­stund­ir í mánuði með drengn­um, á heim­ili Ásthild­ar Lóu og eig­in­manns henn­ar. Það jafn­gild­ir ein­um sól­ar­hring á ári.

Trúnaðarbrest­ur hjá Kristrúnu Frosta­dótt­ur?

For­sæt­is­ráðuneyti Kristrún­ar Frosta­dótt­ur fékk er­indi um þetta mál á sitt borð fyr­ir viku síðan, frá aðstand­anda barns­föður ráðherra, sam­kvæmt RÚV. Starfs­menn ráðuneyt­is­ins full­vissuðu send­anda um að öll er­indi væru trúnaðar­mál.

Hins veg­ar fékk Ásthild­ur Lóa upp­lýs­ing­ar um inn­tak er­ind­is­ins og hver það var sem sendi það. Hún bæði hringdi í viðkom­andi og mætti á heim­ili hans í kjöl­farið.

Frétt­in hef­ur verið upp­færð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert