Hvalfjarðargöngunum var lokað í um klukkutíma fyrr í dag, en þá festist bifreið sem verið var að draga í gegnum göngin í bremsu. Tók nokkurn tíma að laga bílinn og þurfti að fjarlægja drifskaftið áður en hægt var að halda áfram för bíls og dráttarbíls.
Grétar Stefánsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við mbl.is að lögreglan hefði fengið tilkynningu á fjórða tímanum um bilunina og var göngunum lokað í kjölfarið.
Búið er að opna göngin á ný en eins og sjá má á vefmyndavélum Vegagerðarinnar þá skapaðist mikil umferðarteppa á meðan göngin voru lokuð.
Fréttin hefur verið uppfærð, en í fyrri útgáfu sagði að bíll hefði bilað í göngunum og að dráttarbifreiðin sem send var til að draga hann hefði bilað líka, en svo reyndist ekki vera.