Inga: Ekki skipt um skoðun og engin hrossakaup

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, …
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, fóru yfir málið í þingsal í dag. Samsett mynd/mbl.is/Ólafur Árdal

Inga Sæ­land, fé­lags- og hús­næðismálaráðherra, seg­ir að Flokk­ur fólks­ins hafi ekki skipt um skoðun hvað varðar af­stöðu flokks­ins til söl­unn­ar á Íslands­banka. Þá vís­ar Inga því á bug að flokk­ur­inn hefði ákveðið að standa ekki í vegi fyr­ir sölu á Íslands­banka gegn því að Lands­bank­inn yrði gerður að sam­fé­lags­banka.

Þetta kom fram í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag. Þar gerði Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður og þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, af­stöðu Flokks fólks­ins til sölu Íslands­banka að um­tals­efni.

Skörp U-beygja

„Til stend­ur að klára sölu á bank­an­um, sölu­ferli sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn setti af stað. Ég fagna því að sjálf­sögðu. Það sem vakti samt hvað mesta at­hygli var skörp U-beygja Flokks fólks­ins í mál­inu. Flokk­ur­inn hef­ur áður vaðið á súðum í umræðunni um fyrri sölu­ferli og sjald­an sparað stóru orðin í því sam­hengi. Hæst­virt­ur fé­lags- og hús­næðismálaráðherra hef­ur farið þar fremst í flokki eins og oft áður,“ sagði Guðrún.

„Fór hún fyr­ir nefndaráliti hér í þess­um sal um að vísa ætti frum­varpi um sölu á bank­an­um frá. Þá voru orð á borð við þessi lát­in falla: Nú á að höggva höfuðið af gull­gæs­inni og setja hana á grillið. Loks var það meðal kosn­ingalof­orða flokks­ins í nóv­em­ber síðastliðnum að flokk­ur­inn væri al­farið and­snú­inn sölu á Íslands­banka. En nú hef­ur allt breyst. Hátt­virt­ur þingmaður er orðinn hæst­virt­ur ráðherra. Kosn­ingalof­orðið og fyrri sann­fær­ing virðast jafn­framt far­in fyr­ir bí. Batn­andi mönn­um er þó best að lifa, frú for­seti, og það vakna því spurn­ing­ar um hvað búi hér ná­kvæm­lega að baki.“

Afstaða Flokks fólksins til sölu á Íslandsbanka var rædd í …
Afstaða Flokks fólks­ins til sölu á Íslands­banka var rædd í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma í dag. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Ekki ástæða til að höggva höfuðið af gull­gæs­inni

Inga sagði að Flokk­ur fólks­ins hefði ekki skipt um skoðun.

„Við töld­um að ekki væri ástæða til þess, á meðan bank­arn­ir okk­ar mala gull og hafa verið að skila mikl­um arði inn í sam­fé­lagið, eins og hátt­virt­ur þingmaður bend­ir á, að höggva höfuðið af gull­gæs­inni og skella henni á grillið. Við feng­um hins veg­ar ágætis­arf, ekki bara þenn­an kal­eik held­ur ým­is­legt annað, í fangið frá frá­far­andi rík­is­stjórn. Sumt af því er gott og við höf­um gert það að okk­ar og við ætl­um að halda áfram að fylgja eft­ir þeim góðu mál­um sem frá­far­andi rík­is­stjórn skil­ur eft­ir sig og viður­kenna það sem vel er gert,“ sagði Inga.

Hún bætti við að það hefði aldrei komið til tals í nú­ver­andi rík­is­stjórn að ýfa upp fjár­lög­in eða eitt eða neitt slíkt til að gjör­breyta öll­um for­send­um. „Hins veg­ar eru gleðifrétt­irn­ar þær að þessi sala mun verða til fyr­ir­mynd­ar eins og hægt er, allt opið, allt uppi á borðum, eng­in mis­tök og það þarf eng­inn að segja af sér eft­ir hana,“ sagði Inga.

Samið á bak við tjöld­in?

Guðrún gerði síðan stöðu Lands­bank­ans að umræðuefni þegar hún benti á að Sig­ur­jón Þórðar­son, þingmaður Flokks fólks­ins, hefði staðið vakt­ina í umræðunni um sölu á Íslands­banka fyr­ir hönd flokks­ins í vik­unni.

„Hann mætti þó reynd­ar ekki til leiks fyrr en hátt­virt­ur þingmaður Bryn­dís Har­alds­dótt­ir kallaði eft­ir þátt­töku Flokks fólks­ins í umræðunni og þau hafa hingað til ekki talið eft­ir sér að ræða sölu á Íslands­banka. En af orðum tals­manns Flokks fólks­ins mátti þó greina að Lands­bank­inn ætti svo að verða sam­fé­lags­banki, eitt­hvað sem hef­ur verið í stefnu­yf­ir­lýs­ingu Flokks fólks­ins varðandi Lands­banka Íslands og flokk­ur­inn hef­ur lengi talað fyr­ir. Það er því ekki hægt annað en að spyrja hæst­virt­an ráðherra hvort þetta sé ein­mitt það sem Flokk­ur fólks­ins fékk í gegn í stjórn­ar­sam­starf­inu, þ.e. að standa ekki í vegi fyr­ir sölu á Íslands­banka gegn því að Lands­bank­inn yrði gerður að sam­fé­lags­banka,“ sagði Guðrún.

„Veit að gleður hana alls ekki“

„Ég vildi að satt væri. Ég vildi að við hefðum verið að gera ein­hver slík hrossa­kaup, að með því að segja já við þessu fengj­um við líka já við þeirri hug­sjón Flokks fólks­ins að Lands­bank­inn yrði gerður að sam­fé­lags­banka. Ég get hins veg­ar glatt hátt­virt­an þing­mann með því, sem ég veit að gleður hana alls ekki, að það er al­ger­lega skýrt á borðinu, og var ákveðið af þess­ari rík­is­stjórn, að ekki verður ráðist í neitt sölu­ferli á Lands­bank­an­um á þessu kjör­tíma­bili. Já, Flokk­ur fólks­ins á stór­an þátt og heiður af því að ekki verður ráðist í sölu á Lands­bank­an­um á þessu kjör­tíma­bili. En hvort okk­ur auðnast sú gifta að gera hann að sam­fé­lags­banka verður tím­inn bara að leiða í ljós. En ég vona svo sann­ar­lega að svo geti orðið, hátt­virt­ur þingmaður Guðrún Haf­steins­dótt­ir,“ sagði ráðherra að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert