Carbfix, dótturfélag OR, hefur hætt við áform sín um uppbyggingu niðurdælingarstöðvar fyrir koldíoxíð í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal. Sigla átti með koldíoxíð í fljótandi formi til landsins og dæla því ofan í jörðina í Straumsvík.
Í tilkynningu á vef fyrirtækisins segir að ekki hafi náðst samhljómur milli fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og Carbfix um framgang uppbyggingarinnar. Mun fyrirtækið í staðinn einbeita sér að öðrum verkefnum sem tengjast bindingu gróðurhúsalofttegunda frá innlendum stóriðjufyrirtækjum, en fyrirtækið er með samninga við bæði Elkem á Grundartanga og Rio Tinto í Straumsvík. Þá á að þróa áfram möguleg verkefni í Þorlákshöfn og á Bakka við Húsavík.
„Ákvörðun er tekin þar sem ekki náðist nægilega góður samstarfsgrundvöllur fyrir verkefnið með Hafnarfjarðarbæ sem og tafir sem hafa haft áhrif á tímalínur okkar og okkar samstarfsaðila. Verkefnið í Straumsvík var það fyrsta sinnar tegundar og í nýsköpun gerist það iðulega að verkefni eru aðlöguð og þróuð áfram á öðrum forsendum, við í Carbfix þekkjum það mjög vel og fyrir liggja spennandi hugmyndir að verkefnum í Ölfusi og Norðurþingi. Þar bíða gríðarleg tækifæri fyrir þau svæði og Ísland almennt í að byggja upp nýjan iðnað með áherslu á loftslagsmál og ný tæknistörf. Við tökum með okkur lærdóm frá þessu verkefni og höldum ótrauð áfram. Markmið Carbfix er áfram að útvíkka starfsemi sína og vera hluti af lausninni,“ er haft eftir Eddu Sif Pind, forstjóra félagsins.
Talsverð umræða hefur verið hér á landi undanfarið vegna niðurdælingar koldíoxíðs. Höfðu íbúar í Hafnarfirði meðal annars lýst yfir áhyggjum af málinu og sagði formaður bæjarráðs óvíst að uppbyggingaráformin í Straumsvík verði lögð fyrir bæjarstjórn. Höfðu forsvarsmenn bæjarins meðal annars vísað til óvissu um umhverfisþætti og ávinning nærsamfélagsins af slíkri niðurdælingu.