KÍ-samningar stór biti fyrir sveitarfélögin

Frá landsþingi sambandsins á Hilton Nordica í gær.
Frá landsþingi sambandsins á Hilton Nordica í gær. mbl.is/Karítas

Kjara­samn­ing­arn­ir við kenn­ara eru stór biti fyr­ir sveit­ar­fé­laga­stigið. Þetta kom fram í máli Sögu Guðmunds­dótt­ur, aðal­hag­fræðings Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, sem fjallaði um áhrif kjara­samn­inga og ný­gerðs sam­komu­lags rík­is og sveit­ar­fé­laga um breytta ábyrgðar­skipt­ingu á fjár­hag sveit­ar­fé­laga á þingi sam­bands­ins í gær.

„Í ykk­ar fjár­hags­áætl­un­um er lík­legt að þið hafið gert ráð fyr­ir að launa­kostnaður vegna KÍ myndi hækka um sirka fjög­ur pró­sent í ár en raun­in verður þá nær tólf pró­sent­um. Fyr­ir launa­kostnað sveit­ar­fé­laga­stigs­ins í heild munu laun senni­lega aukast um ríf­lega 8% í staðinn fyr­ir 6% í ár. Þetta er bil sem þarf að brúa,“ sagði hún.

Þriðjung­ur launa­fólks

Í sam­komu­lag­inu við KÍ er kveðið á um 8% inn­borg­un vegna vinnu við virðismat kenn­ara. Kom fram í máli Sögu að þessi inn­borg­un er tal­in kosta í ár rúma sjö millj­arða kr. á sveit­ar­fé­laga­stig­inu. „Þess­ir kenn­ar­ar búa í sveit­ar­fé­lög­um og greiða út­svar af sín­um tekj­um þannig að það má kannski ætla að nettóá­hrif­in séu ein­hvers staðar nær sex millj­örðum, en þetta sam­svar­ar um 1,1% af tekj­um sveit­ar­fé­laga í ár og á næstu árum,“ sagði hún.

Um 25 þúsund stöðugildi eru hjá sveit­ar­fé­lög­um lands­ins og eru fé­lags­menn KÍ um þriðjung­ur launa­fólks sveit­ar­fé­laga. Saga benti á að kenn­ar­ar væru stór og mik­il­væg­ur hóp­ur en eini hóp­ur­inn sem væri enn utan starfs­mats. Áfram yrði unnið að því að ná utan um virðismat kenn­ara­starfs­ins og á þeim nót­um hefði náðst sam­komu­lagið um 8% inn­á­borg­un á laun­in.

Sveit­ar­fé­lög sem skilað hafa fjár­hags­áætl­un­um til sam­bands­ins hafa gert ráð fyr­ir að veltu­fé frá rekstri í ár verði í kring­um 8% en að mati sam­bands­ins verður það senni­lega nær 7%, „sem við vit­um að er ekki nóg til þess að standa und­ir nægi­lega háu fjár­fest­ing­arstigi og standa straum af af­borg­un­um lána,“ sagði Saga.

„Þess­ir samn­ing­ar kalla að óbreyttu á for­gangs­röðun, hvort sem það verður minni þjón­usta eða minni fjár­fest­ing eða á aukna lán­töku,“ sagði hún.

Nán­ari um­fjöll­un má finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert