Rétt ákvörðun en spjótin beinast að forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, tjáir sig um mál Ásthildar …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, tjáir sig um mál Ásthildar Lóu. Samsett mynd

„Ég hef full­an skiln­ing á því að ein­stak­ling­ur sem gegn­ir starfi ráðherra barna­mála taki þessa ákvörðun sem hún gerði. Auðvitað vakn­ar sú spurn­ing hvort að menn hafi ekki gert sér þetta ljóst fyr­ir fram. Þetta voru í það minnsta ekki upp­lýs­ing­ar sem al­menn­ing­ur í land­inu þekkti og þetta kom all­mörg­um á óvart,“ seg­ir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, um mál Ásthild­ar Lóu Þórs­dótt­ur sem sagði af sér sem ráðherra mennta- og barna­mála í gær.

Hef­urðu skoðun á því hvort Ásthildi Lóu sé stætt á að sitja á þingi eft­ir þetta?

„Nei, mér finnst erfitt að setj­ast í dóm­ara­sæti gagn­vart ein­hverju sem gerðist fyr­ir 35 árum þótt það sé aug­ljóst að við tækj­um öðru­vísi á hlut­um í dag. Mér finnst ákvörðun henn­ar eðli­leg og það er úti­lokað að hún geti setið í starfi sem barna­málaráðherra,“ seg­ir Sig­urður Ingi.

Trúnaðarbrest­ur í for­sæt­is­ráðuneyt­inu? 

Aft­ur á móti tel­ur Sig­urður Ingi það vekja upp spurn­ing­ar hvernig haldið var á mál­um í for­sæt­is­ráðuneyt­inu. Að því er fram kem­ur í frétt RÚV í gær óskaði ein­stak­ling­ur eft­ir trúnaði við Kristrúnu Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra en engu að síður upp­lýsti aðstoðarmaður henn­ar Ásthildi Lóu um að þessi ein­stak­ling­ur hafi óskað eft­ir fundi.

Ásthild­ur Lóa setti sig í fram­hald­inu í sam­band við viðkom­andi og fór heim til hans að eig­in sögn.

Mörg­um spurn­ing­um sem þarf að svara

Að sögn Sig­urðar Inga bend­ir margt til þess að trúnaðarbrest­ur hafi orðið í for­sæt­is­ráðuneyt­inu.

„Það sem er áhuga­verðara við þetta mál, er hvernig það verður til. Af hverju var leitað til for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins? Hvenær var það gert og á hvaða for­send­um? Var verið að leita til for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins sem ábyrgðaraðila rík­is­stjórn­ar­inn­ar þegar kem­ur að siðferði. Voru þetta trúnaðar­upp­lýs­ing­ar? Hversu lengi hafði for­sæt­is­ráðuneytið það til um­fjöll­un­ar og í hvaða far­veg átti málið að fara. Hvað gerðist þegar upp­lýs­ing­arn­ar fóru til mennta- og barna­málaráðherr­ans? Þetta eru allt spurn­ing­ar sem þarf að svara,“ seg­ir Sig­urður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert