Fall ráðherra: Hvað gerðist dagana fyrir afsögn?

Margir velta því fyrir sér hvort að málinu sé lokið …
Margir velta því fyrir sér hvort að málinu sé lokið með afsögn ráðherra, eða hvort að það sé rétt að byrja. Samsett mynd

Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir sagði af sér sem barna- og mennta­málaráðherra eft­ir að í ljós kom að hún hefði haft sam­ræði við dreng þegar hún var 22 ára göm­ul. Upp­hafið að end­in­um í ráðherra­stóln­um hófst ell­efu dög­um fyr­ir af­sögn.

Í kjöl­far af­sagn­ar henn­ar hafa vaknað upp spurn­ing­ar um það af hverju Kristrún Frosta­dótt­ir aðhafðist ekk­ert í viku um þetta mál þrátt fyr­ir að hafa vitn­eskju um það.

Einnig hafa stjórn­ar­and­stöðuþing­menn sagt að rann­saka þurfi málið vegna mögu­legs trúnaðarbrests for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins. Er það ásök­un sem Kristrún hafn­ar al­farið. 

Ásthild­ur og Kristrún tví­saga

9. mars kem­ur beiðni um fimm mín­útna fund frá Ólöfu Björns­dótt­ur, fyrr­ver­andi tengda­móður barns­föður Ásthild­ar, með tölvu­pósti til for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins. Ekki var tekið fram hvert efni fund­ar­ins er.

11. mars er ít­rekuð beiðni um fund af hálfu Ólaf­ar með tölvu­pósti. 

„Góðan dag­inn, ég bið um stutt­an fund með Kristrúnu Frosta­dótt­ur, en það varðar Ásthildi Lóu Þórs­dótt­ur, það er í góðu lagi að hún sitji líka fund­inn, ef Kristrún vill það. Ligg­ur á,“ seg­ir í póst­in­um.

Sama dag ber aðstoðarmaður Kristrún­ar nafn Ólaf­ar und­ir Ásthildi, en Kristrún sagði ít­rekað á blaðamanna­fund­in­um í dag að er­indið væri trúnaðar­mál. Er aðstoðarmaður­inn bar nafnið und­ir Ásthildi þá kvaðst hún ekki kann­ast við kon­una.

Þarna ber sög­um Ásthild­ar og Kristrún­ar ekki al­veg sam­an því að for­sæt­is­ráðherra hef­ur sagt að aðstoðarmaður sinn hafi haft sam­band við aðstoðarmann Ásthild­ar, en ekki Ásthildi.

Sam­kvæmt for­sæt­is­ráðuneyt­inu fóru ekki frek­ari sam­skipti fram á milli ráðuneyt­anna, ráðherra og aðstoðarmanna um þetta mál eft­ir 11. mars.

Kristrún boðaði til blaðamannafundar eftir að Ásthildur sagði af sér.
Kristrún boðaði til blaðamanna­fund­ar eft­ir að Ásthild­ur sagði af sér. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Frétti af fram­ferði Ásthild­ar 13. mars: Hafnaði fundi

13. mars berst for­sæt­is­ráðuneyt­inu tölvu­póst­ur um mála­vexti og er­indi fund­ar­ins þar sem fram kem­ur saga Ásthild­ar með drengn­um. Kristrún staðfesti á blaðamanna­fundi í gær að hún hefði séð mála­vexti þenn­an dag.

14. mars spurði Ólöf for­sæt­is­ráðuneytið hvenær málið yrði tekið fyr­ir og þá fékk hún svar frá rit­ara for­sæt­is­ráðherra um að þau hefðu þegar til­kynnt henni fyrr um morg­un­inn að hún myndi ekki fá fund með for­sæt­is­ráðherra.

Það tók því inn­an við sól­ar­hring fyr­ir for­sæt­is­ráðuneytið að hafna beiðni Ólaf­ar um fund eft­ir að hafa fengið að heyra af mála­vöxt­um.

Sunnu­dag­inn 16. mars ákveður Ásthild­ur að hafa sam­band við Ólöfu klukk­an 15.59. Þá voru fimm dag­ar liðnir síðan hún hafði fengið veður af nafni Ólaf­ar, sem hún kannaðist ekki við.

Þessa fimm daga hafði hún ekki sam­band við Ólöfu og því velta marg­ir því fyr­ir sér hvað gerðist frá 11. mars til 16. mars sem olli því að Ásthild­ur ákvað að taka upp sím­ann og hringja í konu sem hún þekkti ekki vegna fund­ar sem for­sæt­is­ráðherra hafði verið beðinn um, ekki Ásthild­ur.

Er­indið barst ráðuneyt­inu í millitíðinni

Það sem við vit­um að gerðist í millitíðinni er að 13. mars barst for­sæt­is­ráðuneyt­inu mála­vexti og hafa stjórn­ar­and­stöðuþing­menn kallað eft­ir því að rann­sakað hvort að þarna hafi verið trúnaðarbrest­ur í for­sæt­is­ráðuneyt­inu.

Það er, hvort að Kristrún eða aðstoðar­menn henn­ar hafi komið áleiðis efnis­tök­um bréfs­ins 13. mars til Ásthild­ar. Kristrún hef­ur ít­rekað hafnað því.

17. mars reyndi Ásthild­ur að ná tali af Ólöfu, sam­kvæmt viðtali í Kast­ljósi í fyrra­kvöld, og svo reyndi hún að hringja í þrígang í Ólöfu 18. mars. Ekki tókst að ná sam­bandi við hana og því ákvað Ásthild­ur að mæta heim til henn­ar þar sem eig­inmaður Ólaf­ar ræddi við Ásthildi.

Hinn 19. mars hring­ir Ólöf í Ásthildi Lóu, að sögn Ásthild­ar, og þar spyr Ásthild­ur hana hvort hún ætli með málið í fjöl­miðla. Sam­kvæmt Ásthildi þá sagði Ólöf svo ekki vera.

Formennirnir héldu fund.
For­menn­irn­ir héldu fund. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Ráðherra seg­ir af sér

Kristrún sagði á blaðamanna­fund­in­um á fimmtu­dag­inn að fyrr um dag­inn hefði hún fengið staðfest sann­leiks­gildi er­ind­is­ins sem henni barst 13. mars fyr­ir til­stuðlan fjöl­miðla.

Kristrún fundaði þann dag með Ásthildi Lóu, Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur og Ingu Sæ­land og niðurstaða fund­ar­ins var sú að Ásthild­ur myndi segja af sér.

Rík­is­út­varpið birti frétt klukk­an 18 í fyrra­kvöld þar sem fram kom að Ásthild­ur hefði átt barn með dreng sem hún kynnt­ist í trú­ar­söfnuði. 35 mín­út­um síðar greindi RÚV frá því að Ásthild­ur hefði sagt af sér. 

Margt enn óljóst

Ekki er ljóst af hverju Kristrún aðhafðist ekki í mál­inu í viku fyrr en fjöl­miðlar höfðu sam­band við hana á fimmtu­dag­inn. Hún sagði á blaðamanna­fund­in­um í gær að for­sæt­is­ráðuneyt­inu bær­ust mörg mál á hverj­um degi og að mál tækju sinn tíma inn­an stjórn­sýsl­unn­ar.

Þá er einnig ekki aug­ljóst af hverju Ásthild­ur beið í fimm daga með að hafa sam­band við konu sem hún kannaðist ekki við. Ásthild­ur sagði í yf­ir­lýs­ingu sinni í gær að hún hafi verið for­vit­in og því leitað að Ólöfu á Face­book.

Þar hafi hún tekið eft­ir því að barns­föður sinn og Ólöf væru vin­ir á face­book. Sam­kvæmt henni þá vissi hún ekk­ert hver tengsl barns­föður­ins og Ólaf­ar væru en að hana grunaði um hvað málið sner­ist, og því vildi hún hafa sam­band við hana.

Ekki er ljóst hvaða dag hún byrjaði að skoða heimasíðu Ólaf­ar á Face­book og því ekki ljóst hvort að hún hafi gert það áður en for­sæt­is­ráðuneyt­inu barst er­indið 13. mars eða eft­ir að ljóst var um hvað málið sner­ist. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert