Framkvæmdir eru hafnar við byggingu fjögurra hæða fjölbýlishúss í Borgarnesi, þar sem á sama stað verða nemendagarðar Menntaskóla Borgarfjarðar og íbúðir fyrir sextíu ára og eldri.
„Það má ef til vill segja að þetta sé hús kynslóðanna,“ segir Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Brákarhlíðar, hjúkrunar- og dvalarheimilis í Borgarnesi. Það er Brákarhlíð fasteignafélag ehf. sem stendur að byggingunni, en Nemendagarðar Menntaskóla Borgarfjarðar kaupa jarðhæðina.
Sveitarfélagið Borgarbyggð kemur myndarlega að framkvæmdum við nemendagarðana með auknu stofnfé ásamt Menntaskóla Borgarfjarðar. Einnig er verkefnið fjármagnað að hluta með lánum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Byggingin nýja er á lóðinni Borgarbraut 63, en það er nærri innkomunni í Borgarnes þegar komið er yfir Borgarfjarðarbrú. Á neðstu hæð verða 12 íbúðir nemenda, um 20 fermetrar hver og ein. Á annarri til fjórðu hæð eru íbúðir fyrir 60+, en á hverri hæð eru tvær tveggja herbergja íbúðir og tvær þriggja herbergja. Þessa dagana er verið að steypa sökkla að húsinu nýja, sem áformað er að verði tilbúið í sumarlok á næsta ári.
„Þetta samstarf við Brákarhlíð kom vel út. Við þurfum íbúðir fyrir nemendur okkar og þetta er sniðug útfærsla í húsnæðismálum, svipuð leið og við vitum að hefur verið farin til dæmis í Danmörku og Hollandi. Byggingin hér í Borgarnesi er alveg á besta stað, þetta er stutt frá húsnæði skólans og fyrir eldra fólkið er ekki heldur langt að sækja í helstu þjónustu,“ segir Bragi Þór Svavarsson, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarða.