Leggur til breytingar á lögum um ökuskírteini

Nanna segir að lögin ættu að taka tillit til breyttra …
Nanna segir að lögin ættu að taka tillit til breyttra aðstæðna í samfélaginu. Samsett mynd/mbl.is/María Matthíasdóttir/Colourbox

Nokkr­ir þing­menn Miðflokks­ins hafa lagt fram frum­varp sem kveður á um lengri gild­is­tíma öku­skír­teina ein­stak­linga sem eru 65 ára og eldri. Nanna Mar­grét Gunn­laugs­dótt­ir, þingmaður Miðflokks­ins og frum­mæl­andi frum­varps­ins, seg­ir að frum­varpið sé lagt fram með til­liti til þess að hreysti fólks hafi al­mennt auk­ist á síðustu árum og eðli­legt sé að lög­in taki til­lit til þess. 

Bend­ir hún einnig á að verði frum­varpið að lög­um, fær­umst við nær því reglu­verki um gild­is­tíma öku­skír­teina sem þekk­ist á Norður­lönd­un­um. 

Nú­ver­andi lög um gild­is­tíma öku­skír­teina miðast við að ein­stak­ling­ar sem hafa náð 60 ára aldri þurfi að end­ur­nýja öku­skír­teini sitt á tíu ára fresti. Ein­stak­ling­ar 65 ára og eldri á fimm ára fresti, 70 ára á fjög­urra ára fresti, 71 árs á þriggja ára fresti, 72 ára á tveggja ára fresti og ein­stak­ling­ar 80 ára og eldri þurfa að end­ur­nýja skír­teinið ár hvert.

Myndi létta á heilsu­gæsl­unni

Verði frum­varpið samþykkt munu eldri öku­menn þurfa að end­ur­nýja skír­teini sín mun sjaldn­ar en nú­ver­andi lög gera ráð fyr­ir: Ein­stak­ling­ar sem hafa náð 60 ára aldri myndu þurfa að end­ur­nýja skír­teinið á 10 ára fresti, 80 ára á fimm ára fresti og ein­stak­ling­ar 90 ára og eldri á tveggja ára fresti. 

Seg­ir Nanna að með þessu gætu mikl­ir fjár­mun­ir spar­ast hjá hinu op­in­bera auk þess sem að létt verði á heilsu­gæsl­um lands­ins þar sem eldri öku­menn þurfa að fara í lækn­is­skoðun og afla vott­orðs hjá heim­il­is­lækni til að fá öku­skír­teini sín end­ur­nýjuð. 

„Þetta auðvitað létt­ir á heilsu­gæsl­unni þar sem mjög marg­ir þurfa þessi vott­orð og mæta þá til lækn­is,“ seg­ir Nanna.

„Verðum líka að gera fólk ábyrgt“

Hvað seg­ir þú þá við gagn­rýni þess efn­is að ef það eru ekki jafn örar skoðanir hjá eldri öku­mönn­um sé lík­legra að ein­stak­ling­ar sem eru ekki hæf­ir til akst­urs séu úti að keyra og geti þar af leiðandi skapað hættu í um­ferðinni?

„Já, þetta er auðvitað gagn­rýn­in og eitt­hvað sem ég hugsaði um þegar ég fór að gera þetta frum­varp. En rök­in gegn þessu eru fyrst og fremst þau að þegar þessi lög voru sett voru aðstæður allt aðrar,“ seg­ir Nanna og vís­ar til þess að mik­il þróun hafi orðið í heil­brigðis­vís­ind­um hér á landi síðustu ár. 

„Áhersl­an á að vera á fræðsluna og fólk á að geta sýnt ábyrgð sjálft, að vera ekki að keyra ef fólk finn­ur hjá sjálfu sér að það er ekki allt í lagi. Við verðum líka að gera fólk ábyrgt.“

Spurð hvort hún hafi hug­mynd um hversu mikl­ar fjár­hæðir myndu spar­ast hjá hinu op­in­bera með breytt­um lög­um seg­ist Nanna ekki vera með ná­kvæma krónu­tölu. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert