Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir myndefni þeirra sem áttu leið um Ingólfstorg í Reykjavík á föstudagskvöldið.
Óskar lögreglan eftir myndefninu í þágu rannsóknar á líkamsárás þar sem beitt var hníf og kylfu, að því er segir í tilkynningu lögreglu. Rannsókn málsins miði ágætlega en málið sé mjög umfangsmikið.
„Tilkynning um líkamsárásina barst lögreglu kl. 22.57, en þá var nokkuð af fólki á ferli á svæðinu. Því er ekki ósennilegt að myndefni af atburðarásinni, eða hluta hennar, sé að finna í símum einhverra,“ segir í tilkynningunni.
Eru hinir sömu beðnir um að senda upplýsingar á abending@lrh.is og gefa þar upp nafn sitt og símanúmer. Lögregla hefur samband við viðkomandi.
Tveir voru fluttir á slysadeild eftir árásina. Hafa þeir báðir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en mildi þykir að ekki hafi farið verr, að mati lögreglu.