Flugfélagið Mýflug hefur dregið seglin verulega saman og er nú svo komið að allir átta flugmenn flugfélagsins munu hætta um mánaðamótin. Leifur Hallgrímsson, stærsti eigandi og framkvæmdastjóri Mýflugs, segir engu að síður „of snemmt að gefa út dánarvottorð“ á fyrirtækið.
Mýflug var stofnað árið 1985 og Leifur segist sjálfur ekki vera að yngjast og að umhverfi innanlandsflugs sé þreytandi. Mýflug er með samning um flug á Höfn í Hornafirði en að sögn Leifs hefur verið gerður leigusamningur við Norlandair um að sinna fluginu.
Samhliða hafa verið þreifingar í gangi á milli Norlandair og Mýflugs um kaup fyrrnefnda flugfélagsins á flugvél af gerðinni Beechcraft King Air og flugskýli í eigu Mýflugs á Reykjavíkurflugvelli. Þau viðskipti eru enn í ferli. Telur Leifur að tíðinda gæti verið að vænta af þeim um miðjan næsta mánuð.
„Við erum nú ennþá með rekstur að nafninu til,“ segir Leifur en fyrirtækið hefur auk Hafnarflugs sinnt sjúkraflugi til útlanda.
„Við stefnum í það minnsta að því að draga verulega úr starfseminni. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að hætta alveg,“ segir Leifur.
Hann segir aðspurður ástæðuna ekki endilega vera þungan rekstur.
„Þetta er þreytandi umhverfi. Flugreksturinn er þungt umhverfi. Svo er ég orðinn gamall og allt hefur sitt upphaf og sinn endi,“ segir Leifur.
Mýflug var með stuttan samning um Vestmannaeyjaflug en honum lauk í mars. Sagt var frá því á mbl.is að átta flugmenn væru á uppsagnarfresti í janúar. Sá uppsagnarfrestur klárast um mánaðamótin. Ekki verður samið við þá að nýju að sögn Leifs.