Verkfræðingar og tæknifræðingar hjá Reykjavíkurborg hafa fellt nýjan kjarasamning. Formaður kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands segir félagið nú þurfa að meta hvað sé hægt að gera.
Rafræn atkvæðagreiðsla var haldin dagana 19. til 24. mars. 61% félagsmanna greiddu atkvæði gegn samningnum en 39% greiddu atkvæði með.
Alls eru 56 á kjörskrá og greiddu 41 af þeim atkvæði, eða 73%.
Gunnar Sigvaldason, formaður kjaradeildar Verkfræðifélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að kjaradeilan hafi verið erfið.
Verkfræðifélagið hafi látið gera fyrir sig útreikninga og komi t.a.m. fram í einni könnun á vegum Háskóla Íslands að kaupmáttur faglærðra verk- og tæknifræðinga hafi rýrnað um rúm 8% frá aldamótum en aukist um rúm 30% hjá ófaglærðum.
Bilið sé því of lítið, launalega séð, á milli faglærðra og ófaglærðra.
„Það er þetta sem ég held að sé undirrótin í þessu.“
Nú þurfi að funda til að ákveða næstu skref. Félagið hafi engin vopn í höndum á borð við verkfallssjóð.
„Fólkið er búið að tala og er ekki að sætta sig við þetta þannig að við þurfum bara að meta hvað sé hægt að gera. Við verðum bara að reyna betur. Það er ekkert annað í boði.“