Gekk óboðinn inn í hús og stakk húsráðanda

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdóm­ur Reykja­ness hef­ur dæmt karl­mann á þrítugs­aldri í átta mánaða skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás, hús­brot og eigna­spjöll.

Þá var maður­inn dæmd­ur til að greiða 400.000 kr. í miska­bæt­ur, 1,4 millj­ón­ir í mál­svarn­ar­laun og rúm­ar 800.000 kr. í ann­an sak­ar­kostnað.

Héraðssak­sókn­ari gaf út ákæru á hend­ur mann­in­um í júlí í fyrra. Þar var hon­um gef­in að sök sér­stak­lega hættu­leg lík­ams­árás, hús­brot og eigna­spjöll, með því að hafa að morgni sunnu­dags­ins 13. mars 2022 valdið spjöll­um á bif­reið manns þar sem hún stóð á bif­reiðastæði fyr­ir utan hús. Þar sló hann slökkvi­tæki nokkr­um sinn­um í framrúðu bif­reiðar­inn­ar þannig að rúðan brotnaði. Að því búnu fór hann heim­ild­ar­laust inn á heim­ili manns­ins sem átti bíl­inn þar sem hann réðist á hann og stakk hann m.a. tvisvar með hnífi vinstra meg­in í brjóst­kassa.

Maður­inn sem varð fyr­ir árás­inni fór fram á fjór­ar millj­ón­ir kr. í miska­bæt­ur.

Með ofsareiði og örvingl­an vegna minni­mátt­ar­kennd­ar

Fram kem­ur í dómi héraðsdóms, sem féll 19. mars og var birt­ur í dag, að árás­armaður­inn hafi sagt fyr­ir dómi að hann hafi verið með ofsareiði og örvingl­an vegna minni­mátt­ar­kennd­ar og væn­i­sýki sem hafi ekki beinst að nein­um sér­stök­um. Hon­um hafi liðið á þann veg að all­ir væru á móti sér og að reyna að eyðileggja fyr­ir sér.

Þá seg­ir í dómn­um að ákærði hafi ský­laust játað þá hátt­semi að hafa valdið eigna­spjöll­um á bif­reið manns­ins. Hann neitaði hins veg­ar sök að öðru leyti vegna lík­ams­árás­ar og hús­brots. Byggði hann sýknu­kröfu á því að ákæru­vald­inu hefði ekki tek­ist lög­full sönn­un.

Sér­stak­lega hættu­lega árás

Héraðsdóm­ur kemst aft­ur á móti að ann­arri niður­stöðu.

„Er að mati dóms­ins ljóst að ákærði hafði enga ástæðu til að ætla að hann mætti fara inn í íbúðina þó að hurðin væri í hálfa gátt. Verður framb­urður brotaþola lagður til grund­vall­ar og þykir sannað að ákærði hafi gerst sek­ur um hús­brot um­rætt sinn,“ seg­ir í dómi héraðsdóms.

Þá þykir hafið yfir skyn­sam­leg­an vafa að árás­armaður­inn hafi veitt mann­in­um áverka með hnífn­um.

„Varðandi heim­færslu brots­ins er til þess að líta að ákærði beitti hnífi sem sam­kvæmt framb­urði lækn­is hefði getað stung­ist í hjarta eða lungu hefði blaðið gengið milli rif­beina og brotaþoli þá verið í lífs­hættu. Árás ákærða á brotaþola var því sér­stak­lega hættu­leg vegna þeirr­ar aðferðar sem beitt var,“ seg­ir í dómn­um.

Mik­ill drátt­ur á rann­sókn máls­ins

Bent er á í dómi héraðsdóms að til refsiþyng­ing­ar horfi að hátt­semi árás­ar­manns­ins hafi verið til­efn­is­laus og al­var­leg þar sem hættu­legu vopni hafi verið beitt á brjóst­kassa manns­ins og mildi að lík­ams­tjón hlaust ekki af. Fram kem­ur að brotið hafi verið framið í nær­veru son­ar manns­ins sem var barn að aldri.

„Hins veg­ar voru af­leiðing­ar hátt­sem­inn­ar ekki al­var­leg­ar. Ákærði kvaðst fyr­ir dómi iðrast mikið, hann hafi fengið viðeig­andi úrræði og meðferð í kjöl­far at­viks­ins og hafi komið lífi sínu á rétta braut,“ seg­ir í dómn­um.

Þá seg­ir að vegna mik­ils drátt­ar máls­ins á rann­sókn­arstigi vegna at­vika sem ákærða verði ekki kennt um og þess að ákærði hafi nú breytt lífi sínu til hins betra, þyki upp­fyllt skil­yrði til að refs­ing hans verði öll skil­orðsbund­in.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert