Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll.
Þá var maðurinn dæmdur til að greiða 400.000 kr. í miskabætur, 1,4 milljónir í málsvarnarlaun og rúmar 800.000 kr. í annan sakarkostnað.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í júlí í fyrra. Þar var honum gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll, með því að hafa að morgni sunnudagsins 13. mars 2022 valdið spjöllum á bifreið manns þar sem hún stóð á bifreiðastæði fyrir utan hús. Þar sló hann slökkvitæki nokkrum sinnum í framrúðu bifreiðarinnar þannig að rúðan brotnaði. Að því búnu fór hann heimildarlaust inn á heimili mannsins sem átti bílinn þar sem hann réðist á hann og stakk hann m.a. tvisvar með hnífi vinstra megin í brjóstkassa.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni fór fram á fjórar milljónir kr. í miskabætur.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 19. mars og var birtur í dag, að árásarmaðurinn hafi sagt fyrir dómi að hann hafi verið með ofsareiði og örvinglan vegna minnimáttarkenndar og vænisýki sem hafi ekki beinst að neinum sérstökum. Honum hafi liðið á þann veg að allir væru á móti sér og að reyna að eyðileggja fyrir sér.
Þá segir í dómnum að ákærði hafi skýlaust játað þá háttsemi að hafa valdið eignaspjöllum á bifreið mannsins. Hann neitaði hins vegar sök að öðru leyti vegna líkamsárásar og húsbrots. Byggði hann sýknukröfu á því að ákæruvaldinu hefði ekki tekist lögfull sönnun.
Héraðsdómur kemst aftur á móti að annarri niðurstöðu.
„Er að mati dómsins ljóst að ákærði hafði enga ástæðu til að ætla að hann mætti fara inn í íbúðina þó að hurðin væri í hálfa gátt. Verður framburður brotaþola lagður til grundvallar og þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um húsbrot umrætt sinn,“ segir í dómi héraðsdóms.
Þá þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að árásarmaðurinn hafi veitt manninum áverka með hnífnum.
„Varðandi heimfærslu brotsins er til þess að líta að ákærði beitti hnífi sem samkvæmt framburði læknis hefði getað stungist í hjarta eða lungu hefði blaðið gengið milli rifbeina og brotaþoli þá verið í lífshættu. Árás ákærða á brotaþola var því sérstaklega hættuleg vegna þeirrar aðferðar sem beitt var,“ segir í dómnum.
Bent er á í dómi héraðsdóms að til refsiþyngingar horfi að háttsemi árásarmannsins hafi verið tilefnislaus og alvarleg þar sem hættulegu vopni hafi verið beitt á brjóstkassa mannsins og mildi að líkamstjón hlaust ekki af. Fram kemur að brotið hafi verið framið í nærveru sonar mannsins sem var barn að aldri.
„Hins vegar voru afleiðingar háttseminnar ekki alvarlegar. Ákærði kvaðst fyrir dómi iðrast mikið, hann hafi fengið viðeigandi úrræði og meðferð í kjölfar atviksins og hafi komið lífi sínu á rétta braut,“ segir í dómnum.
Þá segir að vegna mikils dráttar málsins á rannsóknarstigi vegna atvika sem ákærða verði ekki kennt um og þess að ákærði hafi nú breytt lífi sínu til hins betra, þyki uppfyllt skilyrði til að refsing hans verði öll skilorðsbundin.