This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið í Sviss í ágúst. Sigurbjörn Bárðarson er landsliðseinvaldur og hefur hann sett markið hátt fyrir leikana í sífellt brattari brekku. Íslenska landsliðið náði sínum besta árangri til þessa á síðasta móti sem fram fór í Hollandi 2023.
Í Dagmálaþætti dagsins hér á mbl.is ræðir Sigurbjörn markmiðin sem hann vill að íslenska liðið nái á mótinu. Hann viðurkennir að þetta verði alltaf „sverara og sverara“ því íslensku hestarnir sem fara út á mótið fá aldrei að koma til baka og eru seldir nýjum eigendum eftir mót, vegna sóttvarnarreglna.
„Við erum með stjörnur í hópnum hjá okkur. Alveg klárlega,“ upplýsir Sigurbjörn.
Nefndu nöfn
„Það má ég ekki. Það er svo viðkvæmt. Ég á eftir að velja liðið og þá er ég búinn að velja það fyrirfram ef ég fer að nefna einhver nöfn. Við erum í þessum hóp með stjörnur sem geta verið vinnerar.“
Sigurbjörn rifjar upp frábæran árangur íslenska liðsins í Hollandi á síðasta móti. Hann tiltekur sérstaklega Elvar og Fjalladís sem var eitt af stjörnupörum síðasta móts. Nú þurfi Elvar að koma með annan hest og keppa við Fjalladís. „Þetta er ósanngjarnt. Svo er það Jóhanna Margrét með Bárð sem vann töltið og samanlagður sigurvegari. Mjallahvítur snillingur sem var afburðapar. Hún er að fara að keppa við hann líka. Svo var hún dóttir mín líka, hún Sara sem vann fimmganginn og hún þarf að fara að keppa á móti honum líka. Þetta er svolítið sérkennileg aðstaða,“ viðurkennir Sigurbjörn.
Í lok viðtalsbrotsins sem fylgir fréttinni fer Sigurbjörn yfir hvaða árangur hann væri sáttur við hjá landsliðinu í fullorðins flokki í Sviss í sumar.
Sigurbjörn Bárðarson fer um víðan völl í Dagmálaþætti dagsins. Allt frá því hvernig hann heillaðist af hestamennsku þegar hann var í sveit í Skagafirði yfir í framtíðaráætlanir fyrir næsta heimsmeistaramót.
Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins með því að smella á linkinn hér fyrir neðan.