Fleiri framkvæmdir og hraðari uppbygging íbúða

Frá uppbyggingu á Hlíðarenda.
Frá uppbyggingu á Hlíðarenda. Morgunblaðið/Baldur

10% sam­drátt­ur er á íbúðum í bygg­ingu hér á landi ef miðað er við sama tíma á síðasta ári. Þó er fram­vinda upp­bygg­ing­ar hraðari en und­an­far­in miss­eri og fleiri fram­kvæmd­ir fara af stað á milli taln­inga.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un.

7.181 íbúð telst í bygg­ingu á landsvísu, sem er nán­ast sami fjöldi íbúða og tald­ar voru í síðustu taln­ingu í sept­em­ber á síðasta ári (7.221 íbúð). Á sama tíma í fyrra voru hins veg­ar 7.976 íbúðir í bygg­ingu.

Fjöldi íbúða á fyrri stig­um, fram að fok­heldi, er sá minnsti frá því taln­ing­ar hóf­ust í sept­em­ber 2021 og frá því í mars á síðasta ári hef­ur þeim fækkað um 947 íbúðir eða um 22,7%.

HMS fram­kvæm­ir tvisvar á ári heild­stæða grein­ingu á stöðu íbúðaupp­bygg­ing­ar á Íslandi með taln­ingu allra íbúða í bygg­ingu. Slík grein­ing, sem fram fer í mars og sept­em­ber ár hvert, veit­ir yf­ir­sýn yfir um­fang fram­kvæmda, dreif­ingu þeirra milli lands­hluta og þróun á mis­mun­andi stig­um bygg­ing­ar­ferl­is­ins, að því er fram kem­ur í til­kynn­ing­unni.

Fækk­andi á höfuðborg­ar­svæðinu en fjölg­ar í ná­grenni þess

Á und­an­förn­um árum hef­ur íbúðum í bygg­ingu á höfuðborg­ar­svæðinu farið fækk­andi og hélt sú fækk­un áfram á þessu ári. Mest dró úr fram­kvæmd­um í Kópa­vogi og Hafnar­f­irði, þar sem þeim fækkaði um 20,5% ann­ars veg­ar og 19,9% hins veg­ar milli taln­inga eða sam­tals um 339 íbúðir. Í Reykja­vík var fækk­un­in minni, en engu að síður eru íbúðir í bygg­ingu þar færri en þær hafa verið frá því að HMS hóf reglu­bundn­ar taln­ing­ar árið 2021.

Á sama tíma fjölg­ar íbúðum í bygg­ingu í sveit­ar­fé­lög­um í ná­grenni höfuðborg­ar­svæðis­ins um 19,7%. Mest er fjölg­un­in í Sveit­ar­fé­lag­inu Ölfusi, þar sem hún nem­ur 132,8%, en einnig var mark­tæk fjölg­un í Sveit­ar­fé­lag­inu Vog­um þar sem íbúðum í bygg­ingu fjölgaði um 98,9%. Á hinn bóg­inn hef­ur dregið úr upp­bygg­ingu á Akra­nesi, þar sem sam­drátt­ur er um 19%.

Fram­kvæmd­ir ganga hraðar en áður

Í taln­ing­um árs­ins 2023 komu fram vís­bend­ing­ar um að hægt hefði á fram­vindu íbúðafram­kvæmda. Þetta mátti meðal ann­ars sjá á því að tals­verður fjöldi íbúða var á sama fram­vindu­stigi milli taln­inga, þrátt fyr­ir að þær hefðu í flest­um til­fell­um átt að vera komn­ar lengra í ferl­inu á þeim tíma sem leið á milli taln­inga.

Síðan þá hef­ur þró­un­in orðið önn­ur, sí­fellt færri fram­kvæmd­ir standa í stað milli taln­inga og fram­vind­an virðist nú hraðari. Flest­ar hafa íbúðir með óbreytta fram­vindu verið 3.929 tals­ins í sept­em­ber 2023 en sé litið á fjöld­ann í tengsl­um við mögu­leg­ar árstíðarbreyt­ing­ar þá eru íbúðir sem nú mæl­ast með óbreytta fram­vindu um 61,4% færri en mæld­ist fyr­ir tveim­ur árum síðan og um 35,2% færri en fyr­ir ári síðan.

Nýj­um fram­kvæmd­um fjölg­ar

Frá síðustu taln­ingu í sept­em­ber 2024 hafa haf­ist fram­kvæmd­ir við 1.585 nýj­ar íbúðir víðs veg­ar um landið. Þetta eru íbúðir sem ekki voru í bygg­ingu við síðustu taln­ingu og marka áfram­hald­andi viðsnún­ing frá lág­punkti ný­fram­kvæmda í sept­em­ber 2023. Til að mynda eru nú 48,8% fleiri íbúðir í nýj­um fram­kvæmd­um en mæld­ust í marstaln­ingu 2024.

Tæp­lega helm­ing­ur ný­fram­kvæmda, eða um 49 pró­sent, er á höfuðborg­ar­svæðinu, sem er hlut­falls­lega minna en áður hef­ur mælst. Til sam­an­b­urðar voru 59 pró­sent nýrra fram­kvæmda þar við síðustu taln­ingu og 69 pró­sent í mars 2024, sem bend­ir til þess að ný­fram­kvæmd­ir dreif­ist nú í aukn­um mæli til annarra lands­hluta.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert