Gera aðra tilraun til að opna Blönduhlíð

Blönduhlíð er staðsett á svokölluðu Farsældartúni í Mosfellsbæ.
Blönduhlíð er staðsett á svokölluðu Farsældartúni í Mosfellsbæ. mbl.is/Karítas

Barna- og fjöl­skyldu­stofa aug­lýs­ir nú eft­ir deild­ar­stjóra á stuðnings­heim­ilið Blöndu­hlíð í Far­sæld­ar­túni í Mos­fells­bæ, þar sem til stóð að opna meðferðar­heim­ili í des­em­ber en ekk­ert varð af, þar sem hús­næðið stóðst ekki bruna­út­tekt, þrátt fyr­ir end­ur­bæt­ur.

Nú virðist vera búið að taka ákvörðun um að nýta hús­næðið und­ir stuðnings­heim­ili, en það hef­ur staðið autt síðustu mánuði. Barna- og fjöl­skyldu­stofa hef­ur engu að síður greitt 750 þúsund krón­ur í leigu af hús­næðinu á mánuði.

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is hafa áformin um að opna stuðnings­heim­ili í Blöndu­hlíð ekki verið kynnt fyr­ir þeim sem starfa við meðferðarúr­ræði Barna- og fjöl­skyldu­stofu og ekki ligg­ur fyr­ir hvaða skjól­stæðinga úrræðið mun henta.

Stuðnings­heim­ili var við hlið Stuðla

Síðast var rekið stuðnings­heim­ili sem til­rauna­verk­efni á veg­um Barna- og fjöl­skyldu­stofu og sveit­ar­fé­laga við hlið Stuðla, fyr­ir börn og ung­linga sem gátu ekki farið heim til sín að lok­inni meðferð. Því stuðnings­heim­ili hef­ur verið lokað.

Í skýrslu stýri­hóps um fyr­ir­komu­lag þjón­ustu við börn með fjölþætt­an vanda frá ár­inu 2023 er tekið fram að mik­il­vægt sé að festa í sessi vist- eða stuðnings­heim­ili, líkt og áður­nefnt heim­ili sem var til­rauna­verk­efni. Eng­in af þeim 14 til­lög­um sem þar eru sett­ar fram hafa þó orðið að veru­leika.

Í aug­lýs­ingu fyr­ir starf deild­ar­stjóra stuðnings­heim­il­is­ins í Blöndu­hlíð kem­ur fram að viðkom­andi þurfi að hafa góða þekk­ingu á mál­efn­um barna og ung­menna og að starfið heyri und­ir for­stöðumann Blöndu­hlíðar. Er það kost­ur ef viðkom­andi get­ur hafið störf sem fyrst.

Kynntu sér reglu­gerðina ekki nógu vel

Líkt og áður sagði stóð til að opna meðferðar­heim­ili í Blöndu­hlíð í des­em­ber síðastliðnum og var form­legri opn­un þess í raun flýtt og opnaði Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fyrr­ver­andi mennta- og barna­málaráðherra, heim­ilið að viðstödd­um fjöl­miðlum, þann 26. nóv­em­ber síðastliðinn, fjór­um dög­um fyr­ir síðustu Alþing­is­kosn­ing­ar.

Þá hafði bruna­út­tekt ekki farið fram og starfs­leyfi var ekki til staðar. Þegar í ljós kom að um var að ræða sýnd­aropn­un upp­lifðu for­eldr­ar barna sem biðu eft­ir því að kom­ast í meðferð við fíkni­vanda sig svikna. Við tók enn meiri óvissa og bið, en heim­il­inu var á end­an­um fund­in tíma­bund­in staðsetn­ing á Vogi og var opnað þar í fe­brú­ar.

Þegar mbl.is krafði stjórn­end­ur Barna- og fjöl­skyldu­stofu svara um hvað hefði farið úr­skeiðis og hvers vegna heim­ilið var ekki opnað, kom í ljós að ekki hafði verið kannað hvaða ör­yggis­kröf­ur voru gerðar til meðferðar­heim­il­is af þessu tagi, áður en ráðist var í fram­kvæmd­ir.

Ekki var farið í útboð vegna fram­kvæmd­anna eins og venj­an er held­ur ákvað Barna- og fjöl­skyldu­stofa að ráðast í fram­kvæmd­ir upp á eig­in spýt­ur til að flýta ferl­inu.

Stuðnings­heim­ili ætti að stand­ast kröf­ur

Þá vissu þau ekki að meðferðar­heim­ili væri skil­greint í notk­un­ar­flokki 5, sam­kvæmt bygg­ing­ar­reglu­gerð, en töldu það falla í notk­un­ar­flokk 3. Eitt­hvað sem var ekki gengið úr skugga um. Rík­ari ör­yggis­kröf­ur eru gerðar varðandi bruna­varn­ir mann­virkja í notk­un­ar­flokki 5 og þær úr­bæt­ur sem gerðar höfðu verið í Blöndu­hlíð dugðu ekki til að stand­ast þær kröf­ur.

Ólöf Ásta Farest­veit, for­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu, og Funi Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri meðferðarsviðs Barna- og fjöl­skyldu­stofu, hafa bæði sagt í sam­töl­um við mbl.is að hægt væri að nýta Blöndu­hlíðina fyr­ir ann­ars kon­ar starf­semi en meðferðar­heim­ili, og hef­ur Ólöf nefnt stuðnings­heim­ili í því sam­hengi. Það þyrfti hins veg­ar auka­fjár­magn til þess. Hvort það hef­ur feng­ist, ligg­ur ekki fyr­ir.

Ætla má að Blöndu­hlíð stand­ist bruna­út­tekt sem stuðnings­heim­ili, þar sem ein helsta ástæðan fyr­ir því að meðferðar­heim­ili fell­ur í notk­un­ar­flokk 5 er sú að þar er fólk inn­ritað og út­skrifað. Það er hins veg­ar ekki gert á stuðnings­heim­ili og ætti það því að falla í notk­un­ar­flokk 3.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert