„Hún var fyrirmyndarnemandi“

mbl.is/Ólafur Árdal

Móðir stúlku í grunn­skóla í Garðabæ seg­ist ekki leng­ur þekkja dótt­ur sína. Stúlk­an mæt­ir nú varla í skól­ann, neyt­ir áfeng­is og fíkni­efna, og hang­ir með hópi jafn­aldra sinna sem beit­ir önn­ur börn of­beldi.

Þá beit­ir stúlk­an for­eldra sína jafn­framt lík­am­legu of­beldi, hót­ar þeim líf­láti og öllu illu. Fram að verk­falli kenn­ara í vet­ur var stúlk­an fyr­ir­mynd­ar­nem­andi og þótti framúrsk­ar­andi.

Móðirin sem vill ekki koma fram und­ir nafni seg­ir kerfið úrræðalaust gagn­vart vanda­mál­um dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir dótt­ur sína hafa lært það á und­an­förn­um mánuðum að af­brota­hegðun henn­ar hafi eng­ar af­leiðing­ar þar sem hún sé und­ir sak­hæfis­aldri og því haldi hún bara áfram og áfram. Þá séu jafn­framt eng­in meðferðarúr­ræði í boði til að taka á móti barn­inu og aðstoða for­eldr­ana sem eru al­gjör­lega ráðþrota.

„Ég er búin að lenda í ólýs­an­leg­um aðstæðum með þetta barn mitt síðan í des­em­ber, sem mér hefði aldrei getað dottið í hug að gæti gerst á svona stutt­um tíma,“ seg­ir móðirin í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Hún seg­ir gott fólk starfa hjá barna­vernd og lög­reglu en kall­ar eft­ir því að kerfið taki bet­ur á börn­um sem brjóta af sér og beita of­beldi. „Það er ekk­ert hægt að gera fyr­ir hana, þannig að hún er bara úti í sam­fé­lag­inu í rugli og vit­leysu og mæt­ir ekki í skóla og það er eng­inn að gera neitt.“

Breytt­ist í kjöl­far verk­falls

Hinn 25. nóv­em­ber hófu kenn­ar­ar verk­fall í nokkr­um grunn­skól­um lands­ins. Kenn­ar­ar í grunn­skóla stúlk­unn­ar voru meðal þeirra sem lögðu niður störf.

„Þá byrj­um við að sjá mynstur af hegðun­ar­breyt­ing­um. Fyr­ir það var aldrei vesen á henni. Aldrei. Hún var fyr­ir­mynd­ar­nem­andi.“

Strax í næsta mánuði strauk stúlk­an í fyrsta sinn að heim­an. Stúlk­an fór í skól­ann um morg­un­inn en sneri ekki aft­ur heim fyrr en sól­ar­hring síðar.

„Það var bara upp úr þurru. Mig grunaði ekki þenn­an morg­un­inn að barnið mitt myndi strjúka eða að það væri eitt­hvað að. Það er bara ein­hver sem sæk­ir hana í skól­ann.“

Í bíln­um var jafn­aldri stúlk­unn­ar og und­ir stýri var eldri vin­ur hans. Laust fyr­ir miðnætti sá móðirin loks­ins með hverj­um dótt­ir henn­ar var, þegar hún og dreng­ur­inn birtu mynd­skeið á TikT­ok. Móðirin þekkti dreng­inn og hafði því sam­band við hann. „Ég hringi og óska eft­ir að hann komi með hana heim – þetta verði ekk­ert vesen. Bara að hún komi heim. Það væri fyr­ir öllu.“ Dreng­irn­ir sem stúlk­an var með tóku ekki vel í það.

„Hann byrj­ar að hóta mér nauðgun­um. Hann ætl­ar að láta þenn­an nauðga mér og þenn­an koma og berja mig. Hótaði mér út í eitt, alla nótt­ina. Hann var far­inn að senda mér klám­mynd­ir og ég veit ekki hvað. Þetta var ógeð alla nótt­ina. Ég sagði lög­regl­unni frá þessu og sýndi þeim.“

Dótt­ir­in sneri heim dag­inn eft­ir. „Og síðan þá er hún búin að vera í stöðugu stroki.“

Ekki bara bundið við Breiðholts­skóla

Of­beldi barna hef­ur verið mikið til umræðu í sam­fé­lag­inu eft­ir að Morg­un­blaðið og mbl.is greindu frá ára­löng­um einelt­is- og of­beld­is­vanda í Breiðholts­skóla. Þá hef­ur Morg­un­blaðið einnig fjallað um mál stúlku í Breiðagerðis­skóla sem neydd­ist til að víkja úr skól­an­um eft­ir að tveir dreng­ir réðust á hana með stíflu­eyði.

„Þetta er ekk­ert bara bundið við Breiðholts­skóla. Þetta er orðið að stóru gengi af börn­um sem þarna hanga sam­an,“ seg­ir móðirin og vís­ar þá til Mjódd­ar­inn­ar. „Þetta eru allt börn sem sýna ein­hverja áhættu­hegðun, eru að strjúka að heim­an eða eru í neyslu. Það er fullt af for­eldr­um að glíma við þetta, ekki bara í Breiðholti.“

Hún seg­ir mörg börn­in eiga það sam­merkt að eiga veikt bak­land og þurfa meiri og betri aðstoð heima fyr­ir og frá kerf­inu. „Þetta eru börn sem eiga ótrú­lega erfitt í líf­inu, eiga stund­um for­eldra sem er al­veg sama, og hegðunin brýst svona út. Þau þurfa bara knús og ást. En það sem er svo erfitt hérna á Íslandi er að það má ekki refsa þeim. Þau eru ósakhæf með öllu.“

Hún seg­ir hend­ur for­eldra oft al­gjör­lega bundn­ar þegar börn­in þeirra beita of­beldi og kerf­in geti bara veitt tak­markaða aðstoð.

„Dótt­ir mín fer í bræðis­köst þar sem hún verður ofboðslega of­beld­is­hneigð og ræðst á mig eða pabba sinn. Hún er búin að brjóta disk á mér. Hún er búin að brjóta glas á mér. Hún er búin að bíta mig svo hrylli­lega að ég var stokk­bólg­in í marga daga á eft­ir. Hún er búin að berja höfðinu á mér utan í vegg og rífa utan af mér föt.“

Einu sinni hafi hún brugðist við þegar dótt­ir henn­ar beit hana með því að reyna að tosa hana af sér. Móðirin var þá kærð fyr­ir heim­il­isof­beldi.

„Það sást ekk­ert á barn­inu. Það stór­sá á mér. En svo eru kær­urn­ar felld­ar niður eft­ir ein­hvern tíma,“ seg­ir hún og held­ur áfram: „Þetta gef­ur börn­um leyfi til þess að gera bara hvað sem þau vilja í þjóðfé­lag­inu án þess að nokk­ur geri neitt.“

Eng­in úrræði

Það var í des­em­ber sem stúlk­an byrjaði að drekka í fyrsta sinn. Síðar tók við neysla annarra vímu­efna.

„Hún ger­ir það inn­an veggja skól­ans. Hún fer út úr tíma og inn á kló­sett og byrj­ar að „gasa“. Þessi víma mæl­ist hvergi en þetta er stór­hættu­legt fyr­ir heil­ann. Þetta eru börn­in að stunda,“ seg­ir móðirin, sem kveðst hafa leitað til barna­vernd­ar í von um að fá aðstoð. Eng­in meðferðarúr­ræði voru þó í boði fyr­ir hana eða hafa verið síðan þá.

„Barna­vernd vill ekki senda hana á Stuðla af því að þar get­ur hún kynnst krökk­um sem eru í verri neyslu en hún.“

Stúlk­an hef­ur þó í þrígang verið send á neyðar­vist­un Stuðla.

Móðirin hef­ur haft sam­band við For­eldra­hús en þar er m.a. boðið upp á lang­tímameðferðarúr­ræði sem nefn­ist VERA. Fyrsti mánuður­inn í slíku úrræði kost­ar 260 þúsund krón­ur, að því er fram kem­ur á heimasíðu For­eldra­húss. „Hún þarf að fá pláss þar í gegn­um barna­vernd. Við óskuðum eft­ir því, og full­trúi frá For­eldra­húsi, en barna­vernd neitaði. Ég fékk synj­un. Þau eru til í að senda for­eldr­ana á nám­skeið en ekki til í að bjarga barn­inu. Þetta er svo mikið djók.“

Fyr­ir ára­mót fór stúlk­an í geðrof og var flutt á Barna­spítal­ann. „Þetta var ekki barnið mitt,“ seg­ir hún um at­vikið.

„Ég sá bara ein­hverja aðra stelpu þarna.“

Það var þó ekki nóg til að koma stúlk­unni að á barna- og ung­linga­geðdeild. „Til þess að kom­ast inn á BUGL þarf barnið að segja: „Mig lang­ar til að deyja.“ Það er ekki nóg að stunda sjálf­skaða alla daga úti í sam­fé­lag­inu, eða að beita önn­ur börn of­beldi eða aðra ein­stak­linga,“ seg­ir móðirin.

„Ekk­ert annað virk­ar. Ég er búin að reyna allt til að koma henni inn. Vegna þess að hún fer í geðrof og hót­ar að stinga okk­ur fjöl­skyld­una. Lög­regl­an er alltaf á heim­il­inu hjá okk­ur. Barna­vernd er alltaf hjá okk­ur. Við erum með annað barn sem er yngra en hún og þetta trufl­ar hann líka. Mér finnst eins og það séu eng­in úrræði í boði fyr­ir börn á þess­um aldri. Eng­in meðferðarúr­ræði, eng­in vist­un utan heim­il­is.“

Þurfa að sýna sig á sam­fé­lags­miðlum

For­eldr­ar stúlk­unn­ar sækja í dag svo­kallað MST-nám­skeið á veg­um barna­vernd­ar.

„En á meðan fær hún að gera það sem hún vill,“ seg­ir móðirin og tek­ur fram að dótt­ir henn­ar hafi í síðustu viku verið hand­tek­in eft­ir að hafa fund­ist ofurölvi í Mjódd­inni. „Hún var hand­tek­in og færð á lög­reglu­stöðina í Hafnar­f­irði þar sem hún lét öll­um ill­um lát­um og það þurfti að halda henni niðri á gólf­inu í hand­járn­um í klukku­tíma þar til hún var færð í lög­reglu­fylgd á bráðamót­tök­una til að at­huga hvaða fíkni­efni væru í blóði henn­ar. En það var ekk­ert nema áfengi.“

Hafið þið áhyggj­ur af því að hún beiti yngra barnið á heim­il­inu of­beldi?

„Nei, ég hef eng­ar áhyggj­ur af því. Hún er miklu meira að hegða sér svona með þess­um krökk­um sem hanga í Mjódd­inni. Þau þurfa að sýna sig fyr­ir hvert öðru. Ég er kúl og flott og get gert þetta, stolið þessu eða lamið þenn­an. Þetta snýst allt um að vera fínn og kúl og láta mynd­skeiðin af þessu dreifast á TikT­ok og Snapchat. Það snýst allt um það.“ Hún seg­ist eiga fjöl­mörg mynd­skeið af drengj­un­um, sem stúlk­an er í slag­togi við, að ganga í skrokk á öðrum börn­um og ræna af þeim úlp­um.

Hvað finnst þér um að dótt­ir þín sé kom­in í þenn­an fé­lags­skap?

„Mér finnst það hræðilegt.“

„Ég er ósakhæf“

Frá því að stúlk­an strauk í fyrsta skiptið í des­em­ber hef­ur hún ít­rekað farið að heim­an í óþökk for­eldra sinna.

„Það er ekk­ert gert við því. Lög­regl­an leit­ar, hún kem­ur heim og svo byrj­ar bara strokið aft­ur. Það eru eng­ar úr­lausn­ir,“ seg­ir móðirin sem kenn­ir m.a. úrræðal­eysi kerf­anna um, aga­leysi í þjóðfé­lag­inu „og það að börn­in kom­ist upp með allt“.

Hún legg­ur til að börn verði til að mynda lát­in sinna sam­fé­lagsþjón­ustu, verði þau upp­vís að lög­broti, til að þau dragi ein­hvern lær­dóm af slæmri hegðun og af­leiðing­um henn­ar, sem að sögn móður­inn­ar eru eng­ar í dag.

„Dótt­ir mín myndi aldrei stela aft­ur. Hún myndi aldrei nenna því. Ég skil ekki af hverju það er ekki hægt að gera neitt þegar börn eru ósakhæf, til að mynda láta þau gera eitt­hvað sem er hund­leiðin­legt. Þau eru ekki að fara að gera þetta aft­ur,“ seg­ir hún.

„En það eru eng­ar lausn­ir. Börn­in eru ósnert­an­leg og þetta vita þau. Þess vegna eru hlut­irn­ir svona. Dótt­ir mín seg­ir þetta líka við barna­vernd og lög­reglu: „Hvað ætl­ar þú að gera? Þú get­ur ekki gert neitt, ég er ósakhæf.““

Vill að hlustað sé á for­eldra

Hvað vilt þú að verði gert fyr­ir dótt­ur þína?

„Ég vil að yf­ir­völd hlusti á for­eldra; barna­vernd, lög­regla og fleiri. Ef móðir eða faðir telja að barnið eigi við vanda­mál að stríða, þá sé það at­hugað, því við þekkj­um börn­in okk­ar best.“

Þá kall­ar hún eft­ir því að for­eldr­ar geti leitað með börn­in sín á barna­geðdeild.

„Nán­ast annað hvert barn er greint með ADHD eða aðrar rask­an­ir. Þessi börn þurfa aðstoð, þau þurfa ekki bara pill­ur. Lækn­ar skrifa enda­laust út concerta og annað – börn­in þurfa hjálp, þau þurfa aðhald. Það fer ekki nægt fjár­magn í þetta mál­efni. Það er ekk­ert lagt í þessa innviði á Íslandi sem eru gjör­sam­lega að hruni komn­ir.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert