„Stefnir í kvikuhlaup áður en mjög langt um líður“

Páll Einarsson segir allt stefna í að það verði kvikuhlaup …
Páll Einarsson segir allt stefna í að það verði kvikuhlaup áður en mjög langt um líður. Samsett mynd

„Landrisið held­ur áfram og jarðskjálft­ar í sam­ræmi við það og það stefn­ir allt í að það verði kviku­hlaup áður en mjög langt um líður,“ seg­ir Páll Ein­ars­son, pró­fess­or em­irit­us í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, spurður út í stöðuna á Reykja­nesskag­an­um.

Flest bend­ir til þess að átt­unda eld­gosið í gos­hrin­unni við Sund­hnúkagígaröðina, sem hófst í des­em­ber 2023, sé á næsta leiti. Síðasta gosi við gígaröðina lauk 9. des­em­ber. Kvik­an sem safn­ast hef­ur und­ir Svartsengi er orðin meiri nú en þá þótt veru­lega hafi hægst á kviku­söfn­un­inni.

Páll seg­ir ómögu­legt að segja til um það hvenær það dragi til tíðinda. Hann seg­ir ekk­ert í mæl­ing­un­um sem geti sagt til um það.

„Ástandið eins og það er núna býður upp á að það geti gosið hvenær sem er en það get­ur líka dreg­ist,“ seg­ir hann.

Frá því gos­hrin­an hófst í des­em­ber 2023 hef­ur aldrei liðið lengri tími á milli gosa. Páll úti­lok­ar ekki að í ljósi þess þá gæti gosið orðið öfl­ugra en áður.

„Flest­ir telja lík­leg­ast að næsta gos verði með svipuðum hætti og síðustu þrjú gos en þar sem landrisið er orðið meira þá gæti það al­veg orðið stærra,“ seg­ir hann.

Kviku­streymið gæti farið á aðra staði

Spurður um fram­haldið og hvort mögu­leiki sé á því að gos­hrin­unni á Sund­hnúkagígaröðinni sé að ljúka og ein­hver önn­ur kerfi á Reykja­nes­inu vakni til lífs­ins seg­ir hann:

„Það er ekk­ert sem get­ur sagt okk­ur eitt­hvað um það. Það verður bara að fylgj­ast vel með. Ef það gýs með svipuðum hætti og síðast þá kem­ur í ljós þegar því lýk­ur hvort landris hefj­ist á nýj­an leik eins og hef­ur gerst ansi oft,“ seg­ir hann.

Páll seg­ir að marg­ar sviðsmynd­ir komi til greina í fram­haldi af næsta gosi. Ein sé sú að kviku­streymið fari á aðra staði.

„Það hef­ur gerst áður og get­ur al­veg gerst aft­ur. Það verður bara að koma í ljós þegar þar að kem­ur. Ég er ekki í vafa um að við mun­um sjá það þegar það ger­ist,“ seg­ir hann.

Páll seg­ir að Reykja­nessvæðið sé búið að vera mjög virkt síðustu ár og þegar leið á árið 2020 og 2021 hafi þrjú til fjög­ur kerfi verið búin að taka við sér og sýna virkni, í Krýsu­vík, Svartsengi og í Fagra­dals­fjalli.

„Ein af sviðsmynd­un­um er að Krýsu­vík­ur­kerfið taki aft­ur við sér og það er búið að vera landris þar að minnsta kosti einu sinni eft­ir að þetta byrjaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert