Bjarni Ingimarsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir nýjan kjarasamning að mestu byggðan á þeim samningi sem felldur var síðast. Breytingar felist aðallega í betri skilgreiningu ákveðinna þátta samningsins og minniháttar tilfæringum.
„Menntunarkaflinn í samningnum, sem er nýr, er betur skilgreindur varðandi viðbótarnám og fleira, einnig hvaða nám eigi að falla þar undir. Ef viðkomandi hefur háskólamenntun sem er ekki beint tengd starfinu.
Við teljum að allt nám nýtist fólki. Það er ákveðið ferli að fara í skóla, þú þarft öguð vinnubrögð og lærir skipulag og fleira, við viljum meina að það nýtist í öllu starfi. Nú er betri túlkun á því hvaða nám á að falla þarna undir,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is, auk þess hafi einhverjar tilfærslur verið gerðar á því fjármagni sem sett er í samninginn.
Þó breytingar felist aðallega í minniháttar túlkunaratriðum segir Bjarni muna um þær og vonast til að samningur náist, en stefnt er að því að kynna nýja kjarasamninginn fyrir helgi og að atkvæðagreiðsla fari fram dagana 28. mars til 1. apríl.