„Mann langar að drepa sig þarna, gjörsamlega“

Börn lýsa skelfilegri upplifun af því að vera lokuð inni …
Börn lýsa skelfilegri upplifun af því að vera lokuð inni í fangaklefum. Samsett mynd/Colourbox/Aðsend

Börn sem lög­regl­an hef­ur þurft að hafa af­skipti af upp­lifa mörg hver óþarfa hörku af hálfu lög­regl­unn­ar og að beit­ing þving­un­ar eigi ekki alltaf rétt á sér, að þeirra mati.

Dæmi eru um að börn hafi slasast við hand­töku, meðal ann­ars fengið bruna­sár og mar und­an hand­járn­um.

Þá eru frels­is­svipt­ing­ar börn­um mjög þung­bær­ar í flest­um til­fell­um og valda þeim mik­illi van­líðan. Börn sem neyðar­vistuð hafa verið á lög­reglu­stöðinni í Flata­hrauni í Hafnar­f­irði, lýsa aðstæðum þar skelfi­leg­um. 

„Mann lang­ar að drepa sig þarna, gjör­sam­lega,“ sagði eitt barn þegar það var beðið um að lýsa því hvernig væri að vera á Flata­hrauni. Annað barn lýsti því sem „hel­víti“ að vera í fanga­klefa.

Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í nýrri skýrslu umboðsmanns barna, þar sem gerð er grein fyr­ir út­tekt á barn­vænni rétt­ar­vörslu og niður­stöðum könn­un­ar um fram­kvæmd­ina, sem kynnt var í dag.

Leiðir hún í ljós að ís­lenskt rétt­ar­kerfi upp­fyll­ir ekki að fullu alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar um barn­væna rétt­ar­vörslu og sam­ræm­ist fram­kvæmd í mörgu til­liti ekki rétt­ind­um barna sam­kvæmt Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna.

Tals­vert ósam­ræmi inn­an kerf­is­ins 

Í niður­stöðum skýrsl­unn­ar kem­ur fram að þrátt fyr­ir al­menna viðleitni stofn­ana til að taka mið af rétt­ind­um barna, sé tals­vert ósam­ræmi inn­an kerf­is­ins hvað varðar skiln­ing mis­mun­andi aðila á hlut­verki, skyld­um og fram­kvæmd, bæði inn­an og utan ákveðinna mál­efna­sviða. Ljóst sé að þörf er á auk­inni sam­ræm­ingu inn­an fag­stétta og að marg­vís­leg­ar úr­bæt­ur eru nauðsyn­leg­ar til að styrkja rétt­indi barna inn­an rétt­ar­kerf­is­ins. 

Í því skyni að greina að hversu miklu leyti rétt­ar­kerfið á Íslandi sam­ræm­ist kröf­um um barn­væna rétt­ar­vörslu fram­kvæmdi umboðsmaður barna könn­un meðal þeirra fimm mál­efna­sviða sem út­tekt­in nær til: lög­reglu­mála, dóms­mála, barna­vernd­ar­mála, út­lend­inga­mála og mál­efna sýslu­manna. 

Könn­un­in var lögð fyr­ir öll lög­reglu­embætti lands­ins, héraðssak­sókn­ara og rík­is­sak­sókn­ara.  Alla héraðsdóm­stóla lands­ins, Lands­rétt og Hæsta­rétt. 

Auk þess var hún lögð fyr­ir all­ar barna­vernd­arþjón­ust­ur og um­dæm­aráð, Útlend­inga­stofn­un, sýslu­menn og Barna – og fjöl­skyldu­stofu, n.t.t. neyðar­vist­un Stuðla og Barna­hús. 

Þá var óskað eft­ir viðbót­ar­upp­lýs­ing­um um frels­is­svipt­ingu barna og einnig áttu sér stað sam­töl við börn.

Skýrsla umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu var kynnt á Þjóðminjasafninu …
Skýrsla umboðsmanns barna um barn­væna rétt­ar­vörslu var kynnt á Þjóðminja­safn­inu í dag. mbl.is/​Karítas

Lít­ill sam­hljóm­ur á milli lög­reglu­embætta

Niður­stöður könn­un­ar­inn­ar benda meðal ann­ars til þess að al­mennt séu ekki til staðar skýr­ar verklags­regl­ur sem öll­um lög­reglu­embætt­um er gert að fylgja varðandi til­efni, nauðsyn og há­marks­tíma frels­is­svipt­ing­ar. Slík­ar verklags­regl­ur eru hins veg­ar í gildi á neyðar­vist­un.

Þá er lít­ill sam­hljóm­ur um það inn­an lög­reglu­embætta hvort börn­um sé haldið aðskild­um frá full­orðnum og það hvort í gildi séu skýr­ar regl­ur sem ávarpa rétt­indi barna í sam­skipt­um við lög­reglu. Einnig sé ekki ljóst hvort upp­lýs­ing­ar um rétt­indi barna í sam­skipt­um við lög­reglu séu aðgengi­leg­ar.

Viðtöl við börn leiddu í ljós að mörg þeirra upp­lifðu óþarfa hörku af hálfu lög­regl­unn­ar og að ekki væri alltaf hægt að rétt­læta beit­ingu þving­un­ar. Þrátt fyr­ir að lög­reglu­yf­ir­völd telji sig leggja áherslu á meðal­hólf og barna­væna málsmeðferð, benda frá­sagn­ir barn­anna til ann­ars.

Kom það sér­stak­lega kom fram að börn töldu sig ekki fá nægj­an­lega skýr­ar upp­lýs­ing­ar um stöðu sína og rétt­indi, sér­stak­lega við hand­töku og skýrslu­töku.

„Frek­ar mik­il harka“

Upp­lifðu mörg börn að hand­tök­ur hefðu verið fram­kvæmd­ar af óþarfa hörku og virðing­ar­leysi. Þá kom fram að hand­járn væru oft óþarf­lega þröng og nokk­ur börn sögðust hafa fengið mar eft­ir hand­járn.

Fram kom að börn­in vilja fá tæki­færi til þess að út­skýra mál sitt áður en hörku er beitt og að á þau sé hlustað í sam­skipt­um við lög­regl­una. Þá leggja þau áherslu á að meðal­hófs sé ávallt gætt við hand­töku.

Eitt barn sem spurt var hvernig því hefði fund­ist að vera hand­tekið, svaraði á þá leið:

„Frek­ar mik­il harka, stund­um veit ég ekki neitt af hverju þau eru að hand­taka mig. Bara tek­inn niður og marg­ir ofan á þér. Hand­járn­in eru stund­um al­veg þröng sko.“

Einnig var spurt hvort lög­regl­an hefði meitt viðkom­andi við hand­töku:

„Já, var með svona bruna­sár og mar eft­ir hand­töku.“

„Maður verður geðveik­ur þarna inni“

Sér­stak­lega var rætt við börn­in um frels­is­svipt­ingu og upp­lif­un þeirra af henni, meðal ann­ars á lög­reglu­stöðunni á Flata­hrauni í Hafnar­f­irði þar sem neyðar­vist­un hef­ur farið fram síðan í lok októ­ber á síðasta ári.

Umboðsmaður barna hef­ur ít­rekað gert al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við notk­un lög­reglu­stöðvar­inn­ar fyr­ir neyðar­vist­un, enda sé aðstaðan þar óboðleg börn­um.

Maður verður geðveik­ur þarna inni,“ sagði eitt barnið um vist­un­ina.

„Mátt ekki hringja neitt, eng­inn að koma í heim­sókn. Einu sinni var sjón­varpið bilað og ég var bara að stara á vegg­inn í ein­hverja daga,“ sagði annað barn sem greini­lega var vistað á Flata­hrauni í nokkra daga, en dæmi eru um að börn hafi verið vistuð þar allt að sex sól­ar­hringa í senn. 

Börn­in voru spurð út aðstöðuna á Flata­hrauni og svaraði eitt barn­anna á þá leið:

„Sko þegar þú kem­ur þarna, lögg­urn­ar eru svo ýkt­ar alltaf eitt­hvað rosa, þurfa að láta eins og þeir ráða, auðvitað ráða þeir en þeir þurfa að sýna það svo mikið að ég hef ekk­ert vald þarna, alltaf verið að minna mann á það að ég sé þarna af ástæðu. Maður labb­ar þarna inn og það er gang­ur og svo bara klefi, bara læst­ur þarna inni og lítið gat sem þú get­ur talað í gegn­um og lít­il dolla, eða svona stálkló­sett.“

Er hurðin sem sagt lokuð og læst? 

„Já, en það er opið bara svona gat svo þú get­ir talað. En ég hef einu sinni verið þarna bara einn og þá fékk ég að vera með opna hurð. Ég var í blac­kouti og þá þurfti ekki að læsa mig inni.“

Hvernig fannst þér að vera í fanga­klefa á lög­reglu­stöð? 

„Þú ert bara þarna og lögga stand­andi yfir þér, get­ur ekki gert neitt nema bíða.“

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Sal­vör Nor­dal, umboðsmaður barna. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Upp­lif­un barn­anna nei­kvæðari

Niður­stöður könn­un­ar­inn­ar sýna einnig að þrátt fyr­ir ágæta laga­lega um­gjörð um rétt­indi barna er ljóst að skort­ur er á út­færslu í fram­kvæmd, einkum varðandi upp­lýs­inga­gjöf, aðlög­un málsmeðferðar að börn­um og trygg­ingu fyr­ir þátt­töku þeirra í eig­in mál­um.

Þá er upp­lif­un barn­anna af rétt­ar­kerf­inu oft nei­kvæðari en mat stofn­ana gef­ur til kynna. Benda niður­stöður til þess að börn upp­lifi sig oft van­mátt­ug í sam­skipt­um við rétt­ar­kerfið og upp­lifa sig ekki sem raun­veru­lega þátt­tak­end­ur í málsmeðferð.

Börn sem höfðu reynslu af dóms­mál­um lýstu því að þau skildu al­mennt ekki það sem fór fram í dómsaln­um. Þau fengju al­mennt ekki upp­lýs­ing­ar um vinnslu máls, fram­vindu eða ferlið í heild sinni. Og upp­lifðu sig í raun ekki þátt­tak­end­ur í eig­in mál­um.

Al­mennt virðist vera góð þekk­ing á hug­mynda­fræði barn­vænn­ar rétt­ar­vörslu inn­an rétt­ar­kerf­is­ins og ís­lenskr­ar stjórn­sýslu, en ljóst er að tak­mörkuð fræðsla hef­ur átt sér stað hjá stofn­un­um rík­is­ins, þó áhug­inn sé til staðar. Þá sýna niður­stöðurn­ar einnig að um helm­ing­ur stofn­ana hef­ur ekki gripið til sér­stakra ráðstaf­ana til að tryggja barn­vænni málsmeðferð.

Skýrslu­höf­und­ar segja niður­stöðurn­ar sýna að bæta þurfi veru­lega aðgengi barna að upp­lýs­inga­efni inn­an rétt­ar­kerf­is­ins, bæði hvað varðar beina upp­lýs­inga­gjöf til barna við málsmeðferð og al­menn­ar upp­lýs­ing­ar sem aðgengi­leg­ar eru börn­um um hlut­verk stofn­ana.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert