Kvikmyndin Snerting í leikstjórn Baltasars Kormáks hlaut flestar Eddur, eða samtals tíu, þegar verðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar (ÍSKA) voru afhent við hátíðlega athöfn á Hilton-hóteli fyrr í kvöld.
Myndin var meðal annars verðlaunuð fyrir besta handritið sem Ólafur Jóhann Ólafsson og Baltasar Kormákur skrifuðu í sameiningu. Egill Ólafsson og Pálmi Kormákur voru báðir verðlaunaðir fyrir bestan leik, Egill í aðalhlutverki og Pálmi í aukahlutverki.
Kvikmyndin Ljósbrot í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar hlaut næstflest verðlaun, eða fimm samtals. Hún var valin besta kvikmynd ársins og Rúnar besti leikstjóri ársins. Elín Hall og Katla Njálsdóttir voru báðar verðlaunaðar fyrir bestan leik, Elín í aðalhlutverki og Katla í aukahlutverki.
Veitt voru Eddu-verðlaun í sjö aðalflokkum og 14 fagverðlaunaflokkum. Auk þess hlutu hjónin Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir heiðursverðlaun ársins fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar.
Aðalflokkar:
1. Barna- og unglingaefni ársins: Geltu
2. Erlend kvikmynd ársins: Elskling
3. Heimildamynd ársins: Fjallið það öskrar
4. Heimildastuttmynd ársins: Kirsuberjatómatar
5. Kvikmynd ársins: Ljósbrot
6. Stuttmynd ársins: O
Flokkar fagverðlauna:
7. Brellur ársins: Jörundur Rafn Arnarson og Christian Sjöstedt – Ljósbrot
8. Búningar ársins: Margrét Einarsdóttir – Snerting
9. Gervi ársins: Ásta Hafþórsdóttir – Snerting
10. Handrit ársins: Ólafur Jóhann Ólafsson og Baltasar Kormákur – Snerting
11. Hljóð ársins: Kjartan Kjartansson – Snerting
12. Klipping ársins: Sigurður Eyþórsson – Snerting
13. Kvikmyndataka ársins: Bergsteinn Björgúlfsson – Snerting
14. Leikari ársins í aðalhlutverki: Egill Ólafsson – Snerting
15. Leikari ársins í aukahlutverki: Pálmi Kormákur – Snerting
16. Leikkona ársins í aðalhlutverki: Elín Hall – Ljósbrot
17. Leikkona ársins í aukahlutverki: Katla Njálsdóttir – Ljósbrot
18. Leikmynd ársins: Sunneva Ása – Snerting
19. Leikstjóri ársins: Rúnar Rúnarsson – Ljósbrot
20. Tónlist ársins: Högni Egilsson – Snerting
21. Uppgötvun ársins: Gunnur Martinsdóttir Schlüter
22. Heiðursverðlaun: Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir
Rætt er ítarlegar við heiðursverðlaunahafa ársins, þau Egil Ólafsson og Tinnu Gunnlaugsdóttur, á menningarsíðum Morgunblaðsins á föstudaginn kemur.