Hefðbundinn garðsláttur gæti fyrr en síðar heyrt sögunni til, þökk sé nýjung á markaðnum. Skólafélagarnir Arngrímur Egill Gunnarsson og Andri Þór Bergmann hafa stofnað fyrirtækið Garðfix sem býður upp á leigu á sjálfvirkum sláttuvélum, svonefndum slátturóbótum.
Félagarnir stofnuðu fyrirtækið árið 2023 og var árið í fyrra fyrsta heila rekstrarárið.
„Ég fékk hugmyndina þegar pabbi fjárfesti í slátturóbót árið 2021 og fól mér að sjá um hann. Ég sá fljótlega hvernig garðurinn gjörbreyttist á aðeins einu sumri,“ segir Arngrímur Egill sem notar orðið róbót í þessu samhengi. Einnig mætti ræða um sláttuþjarka.
„Ég átti þá kennitölu frá árinu 2022 utan um aðra viðskiptahugmynd sem ég hafði ekki verið að nota og þannig varð Garðfix til. Ég heyrði í Andra Þór og hann kom með mér í þetta. Ég hefði ekki haldið áfram einn ef ekki hefði verið fyrir Andra Þór. Mig langaði alltaf að búa eitthvað til með einhverjum öðrum. Við Andri Þór erum skólafélagar í Verzlunarskólanum og höfðum þetta árið verið í miklum hugleiðingum um að stofna eitthvað saman og svo sá ég kjörið tækifæri í að hanna eitthvað í kringum slátturóbótana,“ segir Arngrímur Egill.
„Hann kom til mín og sagðist vera með hugmynd. Svo vorum við allan veturinn 2023 að leggja grunninn að fyrirtækinu. Við vildum hafa allt tilbúið áður en við færum af stað,“ segir Andri Þór.
Garðslátturinn fer þannig fram að Garðfix leigir viðskiptavinum slátturóbóta í fimm mánuði á ári, frá byrjun maí og fram á haust. Róbótarnir eru framleiddir af Husqvarna.
„Róbótarnir slá grasið á hverjum degi og við stillum þá þannig að þeir slá grasið mjög ört svo það fellur smátt niður í jörðina og verður eins og áburður. Því þarf ekki að raka og heyja túnin. Við tókum strax eftir því að slátturinn styrkir grasvöxtinn, þykkir grasið og gerir það grænna,“ segir Arngrímur Egill.
„Aðferðin felur því í sér hringrás og sjálfbærni en í stað þess að þurfa að urða grasið nýtist það sem áburður,“ segir Andri Þór.
Það hljómar of gott til að vera satt?
„Það er rétt,“ segir Arngrímur Egill. „Við höfum fundað með fulltrúum sveitarfélaga og þeir hreinlega trúa því ekki að þetta sé raunin.“
Margir sláttuþjarkar eru í boði hjá Garðfix sem slá frá 400 og upp í 50 þúsund fermetra grasflöt. Þeir eru rafknúnir og því þarf að hafa hleðslustöð.
Að sögn Andra Þórs hafa ekki komið upp vandamál vegna þessa. Fyrirtækið sé enda lausnamiðað og hægt sé að setja upp raftengil sé þess þörf.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag