Mannanafnanefnd hefur hafnað beiðni um millinafnið Gríndal. Þykir nefndinni nafnið fela í sér gáska og gamansemi, en um leið alvöruleysi. Það getur orðið nafnhafa til ama, til dæmis með því að vera ekki tekinn alvarlega þegar mikið liggur við.
Nefndin hafnaði einnig beiðni um eiginnafnið Illuminati en samþykkti hins vegar nöfnin Heli, Ránar, Anteo, Dilla, Vetle og Thiago.
Í úrskurði mannanafnanefndar um Gríndal segir að slík nafngift kunni að eiga við til skemmtunar í gamanleikjum eða skáldskap. En nefndin telur að fyrri hluti nafnsins sé þess eðlis að nafnið geti orðið nafnbera til ama með sama hætti og ef orð eins og brandari, glens o.s.frv. væru notuð sem mannanöfn.
Þá bendir nefndin á að „fullveðja einstaklingur sem hefur í hyggju að kjósa sér nafn af einhverjum ástæðum sem að öllu jöfnu kynni að valda barni sem nafnhafa ama, getur í daglegu lífi sínu viðhaft það nafn þótt það fái ekki opinbera skráningu hjá stjórnvöldum og færist ekki á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd hlutast ekki til um gælunöfn, listræn nöfn eða önnur þau nöfn eða nefni sem kunna að tíðkast í daglegu lífi utan opinberrar skráningar.“
Úrskurðurinn um af hverju eiginnafnið Illuminati skuli ekki fært á mannanafnaskrá er öllu lengri. Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að þar sem enginn beri nafnið í þjóðskrá, það komi ekki heldur fyrir í manntölum, og ekki sé hefð fyrir því, verði nefndin að hafna því.
Þá segir nefndin einnig um Illuminati:
„Nafnið Illuminati (kk.) er latneskt samnafn sem notað hefur verið yfir leynireglur og leynifélög og hefur einnig verið tengt við samsæriskenningar. Ekki tíðkast að nota það sem eiginnafn í erlendum löndum. Þótt þetta sé erlent orð kemur til álita hvort skilyrði um að nafn geti ekki orðið nafnbera til ama sé uppfyllt. Það væri bæði vegna þessarar frekar neikvæðu merkingar sem orðið hefur í samtímanum og þess að þetta er ekki útlenskt eiginnafn heldur samnafn. Ekki verður tekin afstaða til þess hér.
Nafnið Illuminati er ekki skrifað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls miðað við að eðlilegur íslenskur framburður þessa erlenda orðs sé með ú- og í-hljóði.
Væri þannig, þess utan, aðeins unnt að samþykkja nafnið að hefð sé fyrir þessum rithætti þess.“