Blað verður brotið í sögu Bókasafns Kópavogs í maí næstkomandi þegar hjálpartækjaverslunin Blush mun halda kynningu á konukvöldi bókasafnsins. Að líkindum til eru fæstir sem tengja unaðsvörur og iðnað við bókasöfn enda segir forstöðumaður safnsins að um einsdæmi sé að ræða.
Hugmyndin er þó ekki algjörlega úr lausu lofti gripin og raunar er verið að raungera aprílgabb frá árinu 2023 þegar bókasafnið tilkynnti að það hefði farið í eina sæng með Blush og myndi halda kynningu á unaðsvörum fyrirtækisins.
Málið olli titringi hjá góðborgurum Kópavogs sem önduðu léttar þegar í ljós kom að um gabb væri að ræða.
Lísa Zachrison Valdimarsdóttir, forstöðumaður bókasafnsins, hefur ekki miklar áhyggjur af fordæmingu á athæfinu og vonar að þær konur sem muni sækja viðburðinn megi vel við una.
„Við vorum með aprílgabb um þetta fyrir tveimur árum. Raunar vaknaði hugmyndin í kringum það. Við höfum aldrei verið með konukvöld áður þannig að við ákváðum að prófa,“ segir Lísa.
Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að einhverjir muni hneykslast á athæfinu þá segir hún svo ekki vera.
„Ég hef ekki áhyggjur af því en eflaust getur það gerst,“ segir Lísa.
„Bókasöfnin hafa breyst svo mikið og eru ekki eins íhaldssöm og áður,“ segir Lísa.
Er algengt að fyrirtæki komi inn á safnið til þess að kynna vörur og þjónustu?
„Nei, það er nánast aldrei. Þetta er einstakt tilfelli sem kom upp í tengslum við aprílgabbið á sínum tíma,“ segir Lísa.