„Þetta hefur alltaf verið draumurinn. Þetta er ein af stóru opnu sjónvarpsstöðvunum í Bretlandi og ég er virkilega ánægður með þessa niðurstöðu,“ segir Ragnar Jónasson rithöfundur.
Tilkynnt var á alþjóðlegu hátíðinni Series Mania í vikunni að Channel 4 í Bretlandi hefði tryggt sér sýningarrétt á sjónvarpsþáttunum The Darkness. Þættirnir, sem Íslendingar þekkja sem Dimmu, eru byggðir á bókum Ragnars um Huldu Hermannsdóttur.
Lena Olin lék aðalhlutverkið í þáttunum og eiginmaður hennar, sænski leikstjórinn Lasse Hallström, leikstýrði. Þegar hafði verið gengið frá sölu á sýningarrétti til flestra landa í Evrópu auk Ástralíu og Kanada að því er segir í frétt Deadline um söluna.
Ragnar segir að lesendur bóka hans í Bretlandi og víðar hafi mikið spurt um það síðasta hálfa árið, frá því að sýningar á þáttunum hófust hér, hvenær þeir gætu barið þá augum. Hann segir að Bretland sé sinn helsti markaður enda sé tenging við glæpasagnamenninguna þar sterk.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu