This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
„Ég sat í herberginu mínu á 27. hæð á hótelinu og var að borða hádegismat í góðu yfirlæti þegar jarðskjálftinn hófst,“ segir Anna Magdalena Vestfjörð við mbl.is, íslensk kona sem í tveggja mánaða Asíuferðalagi sínu var stödd í taílensku höfuðborginni Bangkok á því augnabliki sem skjálftabylgjur 7,7 stiga jarðskjálfta í Mjanmar náðu ströndum Taílands.
Eins og mbl.is greindi frá í dag reið skjálftinn yfir miðbik Mjanmar klukkan 12:50 að staðartíma þar, en upptök hans voru á tíu kílómetra dýpi sextán kílómetra norðvestur af borginni Sagaing.
„Ég náttúrulega greip símann og byrjaði að taka upp og þetta var alveg svakalegt,“ segir Anna og leynir raddblær hennar því ekki að hugur fylgir máli.
„Þessi skjálfti var svo rosalega langt í burtu, ég veit það núna, og ég er stödd það hátt uppi að ég vissi að það yrði erfitt að komast niður á stuttum tíma,“ segir viðmælandinn sem fór ekki að verða um sel þegar allt lék á reiðiskjálfi í vistarveru hennar.
Kveður hún ekki hafa bætt úr skák þegar vatnið úr sundlauginni á þaki hótelsins streymdi fram hjá herbergisglugga hennar er laugin brast og hleypti innihaldi sínu eins og vatnsmiklum fossi niður með tugum hæða hótelsins.
Aðspurð segir Anna sprungur hafa komið í veggi hótelsins. „Sumar hæðir eru verri en aðrar, ég sá það bara á leið út. Glugginn á hæðinni fyrir ofan mig splundraðist, ég heyrði það bara eftir á frá fólkinu sem var þar,“ heldur hún áfram.
Anna segir hótelið hafa verið rýmt, en er leið á daginn hafi lögregluyfirvöld talið óhætt að gestir héldu til herbergja sinna á ný þrátt fyrir skemmdirnar á byggingunni. Hún segir taílenska herinn hafa komið tafarlaust á vettvang og úthlutað hótel- og húsnæðislausum ferðalöngum drykkjarvatn.
Anna hefur dvalið tvo daga í Bangkok, en alls sextán daga í Taílandi þar sem hún á vinafólk. Segist hún hafa heyrt frá fólki í nálægum bæjum sem ekki hafi orðið skjálftans vart.
„Viðbrögðin hjá yfirvöldum hér voru mjög góð, nú er bara spurning hvort maður leyfi sér að vera hérna áfram, það sem ég lenti í var náttúrulega ekki neitt neitt miðað við það sem hefði getað orðið,“ segir Anna Magdalena Vestfjörð að lokum, en hún á flug áfram til Taívans á sunnudaginn þar sem næsti hluti Asíuferðar hennar bíður.