Gengur um bæinn með KR-húfu

„Ég hafði aldrei komið áður til Íslands, nema í draumum …
„Ég hafði aldrei komið áður til Íslands, nema í draumum mínum,“ segir Alexandre Labruffe. mbl.is/Ásdís

Í höfuðstöðvum Alli­ance Française í Tryggvagötu bíður blaðamanns nýi fram­kvæmda­stjór­inn, Al­ex­andre Labruf­fe, en hann hef­ur nú búið hér í hálft ár. Í skemmti­legu spjalli seg­ir Al­ex­andre frá dvöl sinni á Íslandi, bók­um sín­um, kynn­ingar­átaki Alli­ance Française og dvöl sinni í Wu­h­an á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Al­ex­andre vill gjarn­an læra ís­lensku og hyggst jafn­vel skrifa glæpa­sögu sem ger­ist á Íslandi, enda eru þær mjög vin­sæl­ar í Frakklandi!

Lokaður inni í 155 daga

„Ég hafði aldrei komið áður til Íslands, nema í draum­um mín­um. Sem barn dreymdi mig um að koma hingað en ég endaði í Kína og bjó þar allt í allt í tíu ár þar sem ég vann fyr­ir ut­an­rík­isþjón­ust­una og sem fram­kvæmda­stjóri Alli­ance Française. Ég tala kín­versku sem er mun auðveld­ari en ís­lenska,“ seg­ir Al­ex­andre og hlær.

„Ég byrjaði að vinna fyr­ir konsúlatið að koma á fót Alli­ance Française í Kína í „lít­illi“ borg rétt hjá Shang­hai,“ seg­ir hann, en borg­in, Hangzhou, er lít­il á kín­versk­an mæli­kv­arða en tel­ur ell­efu millj­ón­ir íbúa.

„Á þess­um tíma var mik­ill áhugi á franskri menn­ingu og tungu og marg­ir höfðu hug á að flytja til frönsku­mæl­andi landa eins og til Kan­ada, Frakk­lands, Belg­íu eða Afr­íkulanda þar sem franska er töluð, en Kína vinn­ur mikið með Afr­íku. Þegar ég var þarna fyr­ir sex­tán árum var Kína frjáls­ari en í dag,“ út­skýr­ir Al­ex­andre.

„Fólkið í Kína er mjög in­dælt en í dag er erfitt fyr­ir lista­menn sem aðhyll­ast frjálsa hugs­un að búa þar.“

Al­ex­andre býr yfir langri reynslu að kenna fólki allt um franska menn­ingu.

„Hug­mynd­in að baki Alli­ance Française er að kenna fólki frönsku, en einnig að skipu­leggja viðburði, eins og frönsku kvik­mynda­hátíðina sem var ný­lega hér í Reykja­vík.“

Al­ex­andre bjó í Wu­h­an í upp­hafi árs 2020 þegar kór­ónu­veir­an fór á kreik, en eins og alþjóð man mátti rekja upp­haf henn­ar ein­mitt til þeirr­ar borg­ar.

„Ég var þá að vinna fyr­ir franska konúsulatið í Wu­h­an þar sem ég sá um menn­ing­ar­mál og átti að skipu­leggja viðburði. Ég kom þangað þrem­ur mánuðum fyr­ir vírus­inn og kannski kom ég með hann sjálf­ur frá Par­ís, ég veit það ekki,“ seg­ir hann og hlær.

Alexandre lék látbragðsleikara í kynningarmyndbandi sem á að höfða til …
Al­ex­andre lék lát­bragðsleik­ara í kynn­ing­ar­mynd­bandi sem á að höfða til ungs fólks og fá það til að fræðast um franska menn­ingu og tungu.

„Þetta voru erfiðir tím­ar, sorg­leg­ir og til­finn­ingaþrungn­ir en einnig áhuga­verðir. Það var öllu lokað, í nokkr­um lot­um. Fyrst var öllu lokað í sex mánuði; frá janú­ar 2020 og fram í maí og þá fór ég til Frakk­lands en kom svo aft­ur. Eft­ir það var mjög erfitt að vera þarna því oft var öllu skellt í lás út af engu; oft vegna gruns um smit hjá ein­hverj­um. Ef grun­ur lék á smiti hjá ein­um ein­stak­lingi í ein­hverri blokk, var kannski öll blokk­in sett í sótt­kví eða jafn­vel allt hverfið. Ég var í heild­ina 155 daga læst­ur inni í her­bergi mínu eða á hót­eli, á fjór­um árum. Og þá er ég ekki að telja með dag­ana í fyrstu bylgj­unni,“ seg­ir hann.

Ég skynja and­rúms­loftið

Al­ex­andre seg­ist alltaf hafa lesið mikið, allt frá barnæsku. Bók sem hann las sem strák­ur hafði áhrif á þá ákvörðun hans að koma til Íslands.

„Það er al­gjör draum­ur að vera kom­inn til Íslands. Ég las sem barn Ferðina að miðju jarðar eft­ir Ju­les Ver­ne og skildi það þegar ég kom hingað að vegna þess að ég hafði lesið þessa bók dreymdi mig alltaf um að koma til Íslands. Fyr­ir ári var ég beðinn um, hjá ráðuneyt­inu, að velja fjóra áfangastaði sem ég gæti hugsað mér að flytja til og setti ég Ísland á blað, reynd­ar í fjórða sæti en það var taktík til að fá að kom­ast hingað,“ seg­ir Al­ex­andre og hlær. Hann seg­ist hafa verið mjög ánægður þegar það gekk eft­ir, en hann er ráðinn hjá Alli­ance Française til fjög­urra ára.

„Hér fer ég í sund, en ég bý ekki svo langt frá Vest­ur­bæj­ar­laug­inni. Hér eru sund­laug­ar ólík­ar þeim í Frakklandi; hér eru þær ut­an­dyra og allt annað hita­stig á vatn­inu. Að fara í sund hér er eins og að fara á kaffi­hús eða bar, því fólk hitt­ist þar til að spjalla. Þar er gott að finna fyr­ir and­rúms­loft­inu því þótt ég tali ekki ís­lensku þá skynja ég and­rúms­loftið. Mitt mark­mið er að heim­sækja all­ar 120 sund­laug­ar lands­ins,“ seg­ir Al­ex­andre.

Ný­lega fór í loftið á sam­fé­lags­miðlum nýtt mynd­band til að hvetja ungt fólk til að læra frönsku, en átakið Franska er málið var sett af stað nú í mars. 20. mars er alþjóðleg­ur dag­ur franskr­ar tungu en all­ur mars­mánuður er helgaður franskri tungu hjá Alli­ance Française.

„Franska er leið fólks inn í franska menn­ingu. Það er mik­il­vægt fyr­ir unga fólkið að kom­ast meira inn í menn­ingu og hætta að hanga í sím­um sín­um. Við unn­um með franska sendi­ráðinu að skipu­leggja átak svo fólk fái áhuga á franskri tungu, en franska er fyr­ir alla. Franska sendi­ráðið gerði þetta skemmti­lega mynd­band þar sem sjá má unga konu sem upp­götv­ar að franska tung­an er alls staðar. Þetta er góð leið til að segja ungu fólki að menn­ing er kúl,“ seg­ir hann.

„Í mynd­band­inu er einn lát­bragðsleik­ari og ég veit ekki af hverju, en ég var beðinn um að leika hann. En sem bet­ur fer er ég óþekkj­an­leg­ur,“ seg­ir hann kím­inn.

Norður­ljósa­appið sem pípti

Er það satt að þú gang­ir um bæ­inn með KR-tref­il?

„Nei, þetta er húfa! Mér var sagt að það væri gott að ganga með hana í Vest­ur­bæn­um en ekki endi­lega ann­ars staðar,“ seg­ir hann og hlær.

„Þegar ég kom til lands­ins í sept­em­ber ákvað ég þrjá hluti. Fyrst var að fara í sund og annað að hlaða niður norður­ljósa­appi. Talandi um appið, þá var það að gera mig brjálaðan í byrj­un því það pípti á klukku­tíma fresti og ég hljóp stöðugt út úr húsi en sá ekk­ert fyr­ir skýj­um. En ég hef ró­ast aðeins þegar það píp­ir og ég hef náð að sjá norður­ljós­in nokkr­um sinn­um sem var al­veg stór­feng­legt,“ seg­ir hann og seg­ir að það þriðja sem hann ákvað að gera hafi verið að fara á ís­lenska íþrótta­leiki.

„Ég fór á leik KR og Vest­manna­eyja. Ég vil forðast að gera túrist­a­lega hluti, því ég vil finna al­vöru ís­lenskt and­rúms­loft og hvað er þá betra en að fara á íþrótta­leik með heima­mönn­um? Ég skil auðvitað ekk­ert það sem fólk er að tala um í kring­um mig, en það er allt í lagi; ég upp­lifi stemn­ing­una og and­rúms­loftið,“ seg­ir Al­ex­andre.

„Ég fer líka á leik­sýn­ing­ar, í bíó, á bari og kaffi­hús til að upp­lifa menn­ing­una. Mig lang­ar til að læra ís­lensku en framb­urður­inn er svo erfiður!“

Ítar­legt viðtal er við Al­ex­andre í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka