„Meira eða minna búið, þetta gos“

Svona leit virknin út í eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni fyrr í …
Svona leit virknin út í eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni fyrr í dag. Það er nú meira eða minna búið, segir sérfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gosið sem hófst á Sund­hnúkagígaröðinni virðist vera búið, að sögn sér­fræðings á Veður­stof­unni.

Gossprung­an sem myndaðist nærri Grinda­vík í morg­un virðist hafa lokast og ber­sýni­lega hef­ur dregið úr virkni goss­ins sem hófst á Sund­hnúkagígaröðinni seint á tí­unda tím­an­um í morg­un, þriðju­dag. 

„Það virðist vera meira eða minna búið, þetta gos,“ seg­ir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son í sam­tali við mbl.is en hann er fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands.

„Ég held að það sé bara eng­in virkni eft­ir. Það er alla­veg­ana orðið erfitt að finna hana.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.
Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stof­unni. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Skjálfta­virkni er enn mik­il, en fær­ist norður

Skjálfta­virkni er enn mik­il á svæðinu og eins og fram hef­ur komið er sú kvika sem spú­ist hef­ur upp á yf­ir­borðið í dag aðeins brot af því magni sem var í kviku­hólf­inu. Það er því nóg eft­ir í tankn­um.

Þá seg­ist Veður­stof­an sjá merki um að að kvika sé enn að fær­ast inn í hólfið.

Erum við að bú­ast við því að gosið byrji aft­ur á hverri stundu?

„Ekki á hverri stundu, skjálfta­virkni er tals­vert minni og við sjá­um ekki merki um að kvika sé að leita sér leiðar upp á yf­ir­borðið,“ svar­ar Bene­dikt Gunn­ar.

En skjálfta­virkn­in held­ur samt áfram og það er alls ekki úti­lokað að kvika komi upp á yf­ir­borðið eða að annað kvikuinn­skot verði, að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert