„Hvað, er þetta ekki ellefta gosið?“ spyr Sigurður Hallfreðsson smiður, sem starfar hjá verktakafyrirtækinu Verkási, en starfsmenn þess hafa haft veg og vanda af viðhaldi grindverks við skóla í Grindavík og varð ekki messufall þrátt fyrir síðasta gos.
Í vinnunni fylgir „vinnuhundurinn“ Baltó, af ætt og kyni schnauzer, Sigurði og neitar sá síðarnefndi því alfarið að nokkurn gosbeyg hafi sett að þeim félögum, margt þarf enda að vinna í Grindavík eins og öðrum sveitarfélögum landsins þótt við ramman sé reip að draga þar sem ægivald náttúrukraftanna er annars vegar.
Baltó hefur mætt til vinnu með Sigurði í allt að fjóra mánuði og er sem prúðastur á meðan húsbóndi hans er að störfum.
Aðspurður segir Sigurður að hann kippi sér ekkert upp við þótt jörðin byrji að nötra en tíðir jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá því að síðasta eldgos braust úr síðastliðinn miðvikudag.
„Það er ekkert hættulegra fyrir hann en mig að vera í Grindavík,“ segir Sigurður.