Aukinn órói fór að mælast um hádegi á Torfajökulssvæðinu og kom fram í bylgjum. Óróinn varði í um klukkustund en hefur síðan dáið niður.
„Þetta virðist vera búið,“ segir Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is.
Hún segir ómögulegt að segja til um hvort órói fari aftur af stað en Veðurstofan fylgist vel með.
„Þetta er dínamískt jarðhitakerfi og er síbreytilegt.“
Sumarið 2023 mældist landris í Torfajökulseldstöðinni en lítið fréttnæmt hefur gerst í þeim efnum síðan þá, að sögn Kristínar.
Síðasta gos í Torfajökli varð árið 1477 og myndaði þá Laugahraun og Námshraun.